04.12.1969
Efri deild: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál viku tveir hv. þdm., þeir 11. þm. Reykv. og 4. þm. Sunnl., að íbúðunum í Breiðholtshverfinu, verðlagi þeirra og gæðum og komu þar fram tvö atriði, sem ég vil ekki láta hjá líða að mótmæla.

Hv. 11. þm. Reykv. sagðist hafa skoðað nokkrar íbúðir þarna í Breiðholtinu og sagði, að sér fyndist ástand þeirra „satt að segja hrikalegt“, eins og hann orðaði þetta. Ég tel fjarri öllu lagi, að þarna sé rétt með farið. Auðvitað geta menn þegar þeir skoða sama hlut, litið hann misjöfnum augum, en það er alveg rétt, sem þessi hv. þm. sagði, að það kemur innan tíðar till. fyrir Sþ., þar sem sérstaklega verður vikið að þessum málum. Ég vil þess vegna ekki, frekar en hann, fara að gera þau mjög að umtalsefni núna, heldur bíða eftir því. En þegar sú till. kemur fram, mun ég gera það að minni till., að sú n. í þinginu, sem fær þá væntanlegu þáltill. til meðferðar og umsagnar, fari upp í Breiðholt og skoði þessar íbúðir rækilega, þannig að það fari ekkert á milli mála, hvernig þessar íbúðir líta út og hvernig þær eru að gæðum, en ekki sé verið að hlaupa eftir umsögnum hvers og eins, heldur verði þetta skoðað rækilega. Sízt skal ég mæla gegn því. En ég tel, að ástandi íbúðanna sé algerlega rangt lýst með þessum orðum.

Annað var það, sem kom þarna fram um þessar Breiðholtsíbúðir. Það var það, sem hv. 4. þm. Sunnl. sagði. Hann sagði, að þessar íbúðir væru dýrar og nefndi sem dæmi, að 90 fermetra íbúð kostaði kringum 1.132 þús. kr. Við þetta vil ég gera aths. Auðvitað geta menn haft sínar skoðanir á því, hvað þeim finnst dýrt og hvað ódýrt, en það á a.m.k. að fara rétt með tölur og staðreyndir. Í opinberri yfirlýsingu eða tilkynningu, sem framkvæmdanefndin gaf út í maímánuði 1968, var greint frá verði á íbúðunum og þar er sagt, að stærsta tegund íbúðanna, stærri gerðin af fjögurra herbergja íbúðunum, kosti 1.132 þús. kr. Það er rétt með þá tölu farið. En í tilkynningunni er þetta sundurgreint þannig, að byggingarkostnaður sé 1 millj. 97 þús. en vextir á byggingartímanum 35 þús. Þetta er sundurgreint vegna þess, að í vísitölu byggingarkostnaðar eru vextir ekki reiknaðir og almennt manna á milli, þegar verið er að bera saman, eru þeir ekki teknir með í reikninginn, þó að það sé vissulega rangt. Þess vegna er þetta sundurgreint. En látum það vera. Samanlagt eru þetta 1.132 þús. En þessi íbúð er ekki 90 fermetrar, eins og hv. þm. sagði, heldur er hún 104 fermetrar og í þessari tilkynningu er alveg skýrt tekið fram, hvernig þeir fermetrar eru reiknaðir. Þar segir, að framangreindar stærðir íbúðanna í fermetrum miðist við brúttó fermetramál hverrar íbúðar fyrir sig, að stigapalli meðtöldum, en í þessum fermetrafjölda er ekki reiknað með sérgeymslu í kjallara og ekki heldur með hlutdeild íbúðarinnar í sameign, þ.e. anddyri, barnavagnageymslu, þvottahúsi og kjallara. Þessi íbúð er sem sagt 104 fermetrar og vitanlega gefur það mönnum ranga hugmynd um verð slíkra íbúða, ef þær eru sagðar miklu minni heldur en þær eru.