04.12.1969
Efri deild: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. hefur gert að umræðuefni hér ummæli, sem ég lét falla við 2. umr. málsins um ástand íbúðanna í Breiðholti og átaldi eða vildi ekki fallast á það orðalag, sem ég notaði, um að ástandið væri hrikalegt. Það er auðvitað rétt, sem hann sagði, að menn geta haft misjafnar skoðanir á þeim kröfum, sem til íbúða skal gera. Það er ekki nema sjálfsagt, að ég reyni af þessu tilefni að finna þessum orðum einhvern stað og gera þá að umtalsefni nokkra þá missmíði, sem ég sá á þessum íbúðum. Ég tek það náttúrlega fram, að ég er ekki lærður maður í byggingarfræðum og það má vera, að einhverjum finnist, að þetta eigi að vera svona. En ekki fannst mér það á fólkinu, sem býr í íbúðunum, að það væri ánægt með ástand þeirra.

Ég ætla að telja hér upp örfá atriði, til þess að finna þessum orðum nokkurn stað, svo að menn álíti ekki, að ég hafi sagt þetta bara út í loftið eða eftir sögusögn annarra.

Ég vil þá í fyrsta lagi nefna, að í mörgum þessara íbúða, sem ég kom í, er ekki hægt að opna glugga í svefnherbergi. Ég hygg, að það brjóti í bága við heilbrigðissamþykkt Reykjavíkurborgar. Í staðinn fyrir opnanlegan glugga er loftventill, sem íbúarnir segja, að sé frosinn fastur mest allan veturinn, þannig að loftræstingin í herberginu er engin. Þetta álít ég óneitanlega nokkurn galla, hvernig sem hv. 3. landsk. þm. kann að líta á það.

Í öðru lagi vil ég greina frá því, að í mörgum íbúðum eru veggplötur í baðherbergjum dottnar af í stórum stíl, þannig að veggurinn er þar ber. Þennan galla hefur framkvæmdanefndin margsinnis reynt að lagfæra án árangurs, því að þetta bara getur ekki tollað. Ég álít það mikinn galla á nýrri íbúð, að í baðherbergi sé steinveggurinn ber og plötunum sé stillt upp við hliðina á veggnum. Ég efast um, að það samrýmist kröfum um hollustuhætti, að hafa það þannig.

A. m. k. í tveimur íbúðum, sem ég kom í, hefur parketgólfið sigið um allt að heilum cm. Það tel ég leiðan galla á íbúð. Og mér heyrðist á fólki, sem þar býr, að það teldi það líka. Í einni íbúðinni, sem ég kom í, hafði gleymzt að einangra útvegg að verulegu leyti. En að vísu var búið að lagfæra það, það skal viðurkennt. Í tveimur samliggjandi íbúðum, sem ég kom í, hafði verið gerð prufa á því, hvað hljóðeinangrunin væri góð milli svefnherbergisveggjanna. Það komu menn frá framkvæmdanefndinni til þess að kynna sér þetta af eigin raun og fólkið, sem bjó þarna, sagði mér, að þeim hefði heldur brugðið, þegar það heyrðist á milli herbergjanna, sem talað var í hálfum hljóðum, hvað þá í venjulegri raddhæð, að ég tali nú ekki um, eins og komið getur fyrir, að rómurinn væri eitthvað hækkaður. Mér heyrðist þetta vera talinn galli þarna og ég mundi telja þetta galla á minni íbúð. Ég veit ekki, hvað öðrum finnst um það.

Geymslurnar í öllum íbúðunum eru þannig, að þær eru ekki mannheldar. Þetta eru rimlabásar með lélegum læsingum fyrir og útbúnaðurinn er þannig, að það er hægt fyrir hvern, sem vill, að fara út um þær og inn að vild. Mér fannst það á íbúunum, að þeir teldu þetta lélegan frágang og það hefði t.d. reynzt þeim erfitt fyrir jólin í fyrra, að geyma jólaölið og annað slíkt fyrir áleitnum ungmennum eða einhverjum, sem girntust það.

Ég hef oft séð miklar sprungur í húsum; steinsteyptum veggjum og samskeytum. En önnur eins sprungulistaverk og sjá má í Breiðholti hygg ég, að sé erfitt að finna. Og það má satt að segja þakka fyrir, að veggirnir standast á. Stigarnir hafa lent þarna, að því er virðist af handahófi, frá 5 og upp í 25 cm frá veggjum. Þetta tel ég mjög mikinn galla. Herbergjunum er skipt í sundur með skápum og ætla ég sízt að lasta það. Það sparar rými. En sums staðar er samsetningin á þessum skápum þannig, að það er alveg óþarfi að hafa ljós nema í öðru herberginu, því að birtan er næg úr hinu.

Ég ætla ekki að fara að tíunda þessa galla á Breiðholtsíbúðunum hér sérstaklega við þessa umr., vegna þess, eins og fram kom hjá hv. 3. landsk. þm., að sérstök umr. verður um það í Sþ. Ég hefði vel getað beðið eftir þeirri umr., en með því, að þeim ummælum, sem ég lét hér falla við 2. umr. um þetta mál, hefur verið lýst sem algerlega út í hött, þá vildi ég ekki una því að öllu.

En ég skal, til þess að tefja ekki framgang þess máls, sem hér um ræðir, láta þessa stuttu lýsingu nægja að sinni til þess að finna áður greindum orðum stað. En ég mun að enn frekar gefnu tilefni reyna að vanda betur lýsingarnar næst þegar ég tek til máls.