04.12.1969
Efri deild: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef nú einhvern grun um það, að hv. þdm. hafi verið boðið þarna upp í Breiðholt í sérstöku augnamiði í fylgd með Stefáni Valgeirssyni, til þess einmitt að sýna honum alla galla, sem þar væru finnanlegir. Og mér er sagt, að einhver trésmiður hafi verið þeirra leiðsögumaður. Það, sem menn verða að gera sér grein fyrir, þegar um þetta er rætt, er hvað þarna er um margar íbúðir að ræða. Þarna eru 312 íbúðir í blokkum. Ekki gat nú hv. þm. um fjölda þeirra íbúða, sem hann hefði skoðað. Þess vegna er náttúrlega hægt að hafa þetta eins og Vísir. Það er alveg rétt, að það komu fram talsverðir gallar í einu stigahúsi. Þar eru 8 íbúðir af 312. En þá sló blaðið því einfaldlega föstu, að gallarnir, sem þar fyndust, hlytu að koma eins fram á hinum íbúðunum. Það var þeirra einfalda ályktun.

Hv. þm. hefur sjálfsagt skoðað þessar íbúðir með svipuðu hugarfari og blaðamennirnir frá Vísi. En einu sinni var það nú þannig, að maður nokkur hætti við að kaupa íbúð af einhverjum persónulegum ástæðum. Þá kom það í Vísi, að þessi íbúð væri svo gölluð, að maðurinn hefði gengið frá henni. Framkvæmdanefndin bauð þá blaðamönnum frá öllum blöðum að skoða þessa íbúð, en minna fór fyrir þessum göllum, þegar blaðamenn Vísis áttu að fara að benda á þá á staðnum. Þess vegna þurfa menn að kynna sér vel einstök atriði. Hv. þdm. sagði að í tveimur íbúðum af 312 væri parketgólfið sigið um 1 cm. Ekki er nú hægt að telja, að þetta séu hrikalegir gallar á Breiðholtsíbúðum og það er alveg furðulegt, þó að hv. þdm. minntist ekki á það, það skal ég viðurkenna, að þegar þessir rógberar Breiðholtsíbúðanna tala um marrið í gólfunum, þá minnist enginn á það, að parketgólf getur sparað íbúðareiganda tugi þúsunda í gólfteppum. Það er ekki minnzt á það af þessum mönnum. En það er hins vegar verið að býsnast yfir, ef það marrar einhvers staðar í parketinu. Eins og aldrei fyrr hafi verið byggð íbúð á Íslandi, sem fótatak heyrist í. Ég er alveg viss um, að ef það ætti að líta á hugtakið „galli á íbúð“ frá sama sjónarmiði og gagnrýnendur Breiðholtsíbúðanna gera yfirleitt, t.d. eins og gert er í Vísi, þá væri engin ógölluð íbúð til á Íslandi. Það byggi enginn maður í gallalausri íbúð.

Víkja skal að fleiri atriðum, sem hv. þdm. var að benda á. Hann var að tala um veggplötur í baðherbergjum eða veggflísar. Það er alveg rétt, þarna var notað ónýtt lím og menn skilja það ekki, hvers vegna þetta hefur ekki lagazt. Það er út af fyrir sig rétt, þetta hefur komið fram, en það er ómögulegt að tala um það, að íbúðir séu stórgallaðar af þessum sökum. Einnig að það séu rimlar í geymslum. Þetta er víða annars staðar í Breiðholtinu. Þar er byggt mikið af íbúðum, einmitt íbúðum í blokkum, sem eru kannske af svipaðri gerð og framkvæmdanefndarblokkirnar. Þess vegna er furðulegt, að þessir menn, sem hafa áhuga á því, að íbúðir séu gallalausar – og vissulega eru þeir allrar virðingar verðir – þeir hafa aðeins áhuga á íbúðunum, sem framkvæmdanefndin hefur byggt. Það eru aldrei sendir neinir fréttamenn til að skoða íbúðirnar, sem meistararnir hafa byggt eða byggingarsamvinnufélögin og aðrir þarna í nágrenninu. Það höfðu engir áhuga á því, þótt þar fyndust gallar. En ef það kemur fyrir einhver galli í íbúðum framkvæmdanefndar, þá er það allt saman blásið út. Hér var t.d. verið að tala um fyrirkomulag skápa. Það er ekki rétt, eins og hv. þdm. sagði, að skáparnir væru óþéttir. Nú er algengt í íbúðum í dag, að það eru ekki hafðir þröskuldar undir innihurðum. Ef það kemur ljós inn undan hurðinni, er þá hægt að tala um, að það sé galli á íbúðinni? Þetta er fyrirkomulagsatriði, þannig að sumt af þessu er auðvitað þannig, að menn vildu kannske hafa fyrirkomulagið eitthvað öðru vísi. En það er allt annað en að um galla á íbúð sé að ræða.

Ég tel þess vegna, þó það sé rétt, að það hafi komið fram gallar þarna á íbúðum og sérstaklega á einu stigahúsi, að þá megi ekki, þegar þetta er rætt og metið, horfa framhjá því, að þarna er um að ræða tilraunir og þarna er verið að reyna ýmislegt nýtt. Það er auðvitað hættara við að komi fram gallar þegar prófaðar eru nýjar byggingaraðferðir í fyrsta skipti og það kom greinilega í ljós á þessum 6 blokkum, sem byggðar voru þarna, að það voru fleiri gallar á fyrstu blokkinni en þeirri síðustu. Síðustu blokkina fékk Reykjavíkurborg og ég hef ekki heyrt minnzt á, að það hafi nokkur einasti galli komið þar fram. Hv. þdm. hefur kannske ekkert skoðað hana, því að hann hefur vitað að þar var engan galla að finna. Hann hefur ekki haft neinn áhuga á því.

Ég fullyrði það, að þetta orðalag, sem hv. þdm. viðhafði, um að ástand íbúðanna þarna væri hrikalegt, gefur algerlega villandi mynd af gæðum íbúðanna í Breiðholti og vissulega vænti ég þess, að hv. þdm. fái tækifæri til að ganga sjálfir úr skugga um það, hvernig það er.