07.04.1970
Efri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

124. mál, sala Krossalands í Bæjarhreppi, Austur-Skaftafellssýslu

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er efni þessa frv. að veita ríkisstj. heimild til að selja Benedikt Egilssyni bónda í Volaseli í Bæjarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu eyðijörðina Krossaland í sama hreppi. Verð jarðarinnar fer eftir samkomulagi, ef það næst, ella skal það ákveðið með mati dómkvaddra manna.

Býlið Krossaland stóð á láglendi Lónssveitar vestan megin Jökulsár í Lóni. Þetta býli hefur verið í eyði um langan tíma, a. m. k. um 30 ára skeið, og mannvirki eru engin á jörðinni og engar líkur til, að þetta býli byggist aftur sem sjálfstæð bújörð. Veldur því m. a., að landið liggur nokkuð undir áföllum vatna, þar sem Jökulsá í Lóni liggur að því að austan, og vestan megin við land jarðarinnar er annað minna vatnsfall, sem Laxá heitir. Næsta jörð við þetta eyðibýli er Volasel og þar hefur nú stofnað til búskapar ungur bóndi, Benedikt Egilsson, og hefur hann farið þess á leit að fá keypt landið, sem fylgdi Krossalandi og um er rætt í þessu frv.

Landbn. Nd. sendi mál þetta til umsagnar landnámsstjóra og jarðeignadeildar ríkisins, og mæla þeir aðilar báðir með því, að sala eyðijarðarinnar Krossalands verði heimiluð á þann veg, sem frv. gerir ráð fyrir. Landbn. Ed. hefur einnig kynnt sér þessar umsagnir og tekið þetta mál til athugunar, og mælir hún fyrir sitt leyti með því, að frv. þetta verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.