23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

25. mál, almannatryggingar

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Það stendur líkt á með þetta frv. eins og það, sem ég mælti hér fyrir áðan, að það var flutt á síðasta Alþ. og komst þá í gegnum n. í Nd., en dagaði þá uppi vegna tímaskorts í þinginu.

Þetta er mjög veigalítil breyting, sem hér er lögð til, og þar eð heilbr.- og félmn. var búin að leggja til, að þetta frv. yrði samþ., vona ég, að það fari fyrirhafnarlaust í gegnum þingið núna. Innihald frv. er aðeins það, að einstæðar mæður, sem verða öryrkjar, þurfi ekki að missa mæðrabæturnar við það, að þær hætti að taka vinnulaun, en taki í staðinn örorkubætur. Það er nokkurn veginn víst, að þetta er komið inn í lögin fyrir mistök löggjafans í upphafi.

Það hefði verið full ástæða til þess að flytja miklu ýtarlegri brtt. við almannatryggingalögin, en ástæðan til þess, að það er ekki gert hér, er sú, að ég vildi ekki eiga það á hættu, að þessi litla breyting, sem hér er lögð til, yrði stöðvuð vegna þess, að ágreiningur kynni að vera um aðrar breytingar, sem ég annars hefði lagt til. En ég vil aðeins geta þess hér, að því hefur verið hreyft hér áður á þinginu, að það ætti m. a. að taka það inn í almannatryggingalögin, að þeir sjúklingar, sem þurfa að leita sér lækninga erlendis, fái meiri aðstoð frá almannatryggingum við greiðslu þess kostnaðar, sem af slíku leiðir, heldur en nú er, og er þetta ein af þeim breytingum, sem nauðsynlega þarf innan tíðar að gera á almannatryggingalögunum. Sömuleiðis eru uppi raddir um það, að mikil ástæða væri til þess, að almannatryggingarnar tækju virkan þátt í tannviðgerðum. Nefni ég þessi tvö atriði hér aðeins til að minna á, að þessar breytingar þarf að gera á lögunum innan tíðar.

Loks langar mig að segja frá einu atriði, sem undirstrikar það, að heimildir til handa tryggingaráði þyrftu að vera rýmri í þessum lögum heldur en nú er. Mér var sagt það alveg nýverið, að einstæð móðir norður í landi, sem hafði fullan örorkulífeyri og tvö börn á framfæri sínu, hafi andazt á s. l. ári frá þessum börnum, og foreldrar hennar aldraðir, báðir komnir á ellilífeyri, tóku börnin að sér. En samkv. tryggingalögunum er ekki heimild til þess að veita þeim barnalífeyri með þessum börnum, þar sem meðlagsskyldur faðir er á lífi. Þetta er eitt af mörgum dæmum um það, að það geta alltaf komið fyrir einstök og sérskilin tilfelli varðandi tryggingalögin, sem ekki er kannske hægt að taka beinlínis inn í lög. Það er aldrei hægt að setja undir öll tilvik. En hefði verið til heimild handa tryggingaráði til að taka svona tilvik til greina, þá væri nokkuð unnið.

Ég nefni þessi þrjú atriði auk þessa, sem ég flyt hér í sjálfu frv., sem þyrfti mjög fljótlega að taka til endurskoðunar; auknar heimildir til handa tryggingaráði til þess að bæta úr í sérstökum tilvikum, sem alltaf geta komið fyrir, aðstoð við sjúklinga, sem verða að leita sér lækninga erlendis, og tannviðgerðirnar.

Ég hef svo þessi orð ekki fleiri, en legg til, að málinu verði að lokinni umr. vísað til heilbr.- og félmn.