28.10.1969
Neðri deild: 7. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það leiðir m. a. af vaxandi vélvæðingu og tækni, að fjármögnun fyrirtækja verður stöðugt meira og meira vandamál. Fyrirtækin þurfa á meira fjármagni að halda til þess að geta fylgzt með í þessum efnum. Það hafa stundum verið birtar tölur um það að undanförnu, að fyrir t. d. 10–20 árum hafi ekki þurft nema svo og svo lítið fjármagn á bak við hvern starfandi mann hjá tilteknu fyrirtæki, en nú þurfi í mörgum tilfellum margfalt meira fjármagn, jafnvel tífalt eða tuttugufalt meira en áður var, ef fyrirtækin eiga að fylgjast með í þeirri þróun, sem orðið hefur varðandi vélvæðingu og tækni. Þetta leiðir það að sjálfsögðu af sér, að það er stöðugt vaxandi þörf fyrir það að fá aukið fjármagn til þess að fullnægja þeirri vaxandi fjármögnun, sem atvinnureksturinn þarfnast.

Að sjálfsögðu eru margar leiðir færar til þess að leysa úr þessum vanda. Ein þeirra, sem hefur verið farin erlendis að undanförnu og þó sérstaklega í Bandaríkjunum, er sú leið, sem þetta frv. fjallar um, þ. e. að stofna svokallað fjárfestingarfélag. Í Bandaríkjunum hafa á undanförnum árum eða nú allra síðasta áratuginn risið upp allmörg slík félög, sem annast þá starfsemi, sem hér um ræðir, svo að segja eingöngu, og starfsemi þeirra hefur þar vakið vaxandi athygli og umtal og hefur m. a. leitt til þess, að það er eitt af aðalverkefnum eins af aðstoðardómsmrh. Bandaríkjanna að kynna sér starfsemi þessara fyrirtækja, fylgjast með þeim og sérstaklega að taka það til athugunar, hvort þau brjóti að einhverju leyti í bága við þá löggjöf um hringa, sem gilt hefur í Bandaríkjunum um alllangt skeið.

Eins og hv. þm. er vafalaust kunnugt, hefur hringamyndun í Bandaríkjunum lengi verið mönnum þar mikið áhyggjuefni. Hringamyndunin kom þar til sögunnar á síðustu öld eða á síðari hluta hennar og gerðist einkum með þeim hætti, að stór og sterk fyrirtæki í ákveðnum atvinnugreinum keyptu upp önnur minni fyrirtæki í sömu atvinnugrein, og þannig gat það farið í sumum tilfellum, að það var eiginlega aðeins eitt stórfyrirtæki, sem réð lögum og lofum í viðkomandi atvinnugrein. Þetta varð til þess, að stjórnarvöld Bandaríkjanna töldu nauðsynlegt að skerast í leikinn og setja löggjöf til að koma í veg fyrir það, að ein samsteypa, einn hringur gæti haft svo að segja alger yfirráð yfir þeirri atvinnugrein, sem um væri að ræða. Það var talið, að þegar slíkt ástand skapaðist, yrði það til þess að koma í veg fyrir samkeppni og í veg fyrir eðlilegt einkaframtak í viðkomandi atvinnugrein. Þess vegna var sett sérstök löggjöf í Bandaríkjunum, sem átti að koma í veg fyrir þessa starfsemi, að svo miklu leyti sem hægt var, og þessari löggjöf hefur verið framfylgt mjög strangt á seinustu áratugum, að því leyti sem hægt hefur verið. En eins og ég minntist á áðan, hefur orðið nokkur breyting á þessu síðasta áratuginn, þannig að það hefur komið til sögunnar ný tegund hlutafélaga eða samsteypufélaga, sem eru ekki bundin við eina ákveðna atvinnugrein, eins og hringarnir hafa yfirleitt verið til þessa, heldur hafa stefnt að því að eignast hlutabréf og fá ítök í eða yfirráð yfir fyrirtækjum í mismunandi atvinnugreinum, og á þann hátt hafa þau komizt fram hjá þeirri hringalöggjöf, sem hingað til hefur gilt í Bandaríkjunum. Þessi félög, sem má í raun og veru nefna fjárfestingarfélög, vegna þess að starfsemi þeirra er þannig háttað, að þau annast sjálf ekki neinn atvinnurekstur, heldur eiga hlutabréf í fyrirtækjum, sem eru í atvinnurekstrinum, og það má segja, að það sé þess vegna um mjög líka félagsstarfsemi að ræða og þá, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Sum af þessum fjárfestingarfélögum hafa orðið geysilega öflug á örfáum árum í Bandaríkjunum en öðrum hefur gengið miður. Þessi starfsemi er orðin svo víðtæk, að það hefur þótt nauðsynlegt af stjórnarvöldum þar að kynna sér alveg sérstaklega starfsemi þeirra, og eins og ég áðan sagði, er það eitt af aðalverkefnum eins af aðstoðardómsmrh. Bandaríkjanna að kynna sér þessa félagsstarfsemi, athuga hversu heilbrigð og heppileg hún sé og vinna að nýrri lagasetningu, ef nauðsynlegt þykir, til þess að halda þessari starfsemi innan eðlilegra takmarka. Í Bandaríkjunum er mjög deilt um það, hve gagnleg þessi fjárfestingarfélög séu. Ýmsir halda því fram, að þau séu til bóta, þau verði til þess að örva atvinnulífið, í ýmsum tilfellum til að hleypa nýju blóði í fyrirtæki, sem eru hálfstöðnuð eða komin að hruni, en fjárfestingarfélögin hafa unnið allmikið á þann hátt, ef um rík félög hefur verið að ræða, þar sem reksturinn gekk þó hálfilla og hlutabréf voru í lágu verði, að reyna að ná meiri hlutanum af þeim í sínar hendur og þar með stjórn viðkomandi fyrirtækis.

Mér finnst rétt í þessu sambandi að benda á það, að í amerískum blöðum hafa á þessu ári birzt ýmsar athyglisverðar greinar um starfsemi þessara fjárfestingarfyrirtækja, og t. d. birti vikuritið Time í vetur mjög ýtarlega grein um starfsemi þessara fyrirtækja í Bandaríkjunum, þar sem niðurstaðan var sú, að það ætti kannske eftir að sýna sig, að þau yrðu til hagsbóta fyrir efnahagslíf Bandaríkjanna, en útilokað væri að fullyrða um það á þessu stigi, vegna þess að fullkomin reynsla væri ekki enn þá komin á starfsemi þessara félaga, þar sem þau hafa svo að segja öll komið til sögunnar á seinasta áratugnum. Sum þeirra hafa náð miklum þroska og eru orðin geysilega sterk. Öðrum hefur tekizt miklu miður og sum hafa farið á hausinn.

Það eru miklar deilur um þessi félög þarna vestan hafs. Að einhverju leyti kann það að stafa af því, að ýmsum eldri félögum stendur ógn af þessari nýju starfsemi, vegna þess að þau vinna að því að kaupa þau upp. Það hefur iðulega gerzt, að þegar hinir gömlu stjórnendur hafa komið á hluthafafundi og átt sér einskis ills von, þá hafa verið komnir nýir eigendur til sögunnar og þeir gömlu orðið að víkja.

Mér sýnist, að því félagi, sem ráðgert er að stofna hér, sé ætlað að starfa á ýmsan hátt svipað og þessi fjárfestingarfélög í Bandaríkjunum, þ. e. a. s. það eigi ekki sjálft að annast neinn atvinnurekstur, heldur eigi það að eiga hlutabréf í hlutafélögum, sem annast atvinnurekstur.

Í grg. þessa frv. er vikið að því, að þeir, sem hafa undirbúið þetta mál, hafi kynnt sér starfsemi slíkra félaga á Norðurlöndum. Ég verð að játa það, að ég er ófróður um starfsemi slíkra félaga á Norðurlöndum, en af því, sem ég hef séð í amerískum blöðum, hef ég fylgzt nokkuð með eða lesið nokkuð um starfsemi þeirra í Bandaríkjunum. Þess vegna mundi mér þykja fróðlegt að heyra frá hv. 1. flm. þessa máls eða 2. flm., hvernig starfsemi þessara félaga muni vera háttað á Norðurlöndum; hvort þau séu rekin eitthvað svipað því, sem fjárfestingarfélögin eru rekin í Bandaríkjunum, eða með einhverjum öðrum hætti. En ég álít, að áður en Alþ. gengur frá löggjöf eins og þessari, sé mjög æskilegt, að það kynni sér sem bezt þá reynslu, sem fengizt hefur af slíkum félögum annars staðar, og þá kannske alveg sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem mest reynsla er komin á starfsemi slíkra félaga, og þá ekki síður á Norðurlöndum eða í Evrópu, ef slík félög starfa þar að verulegu ráði.

Ég ætla svo ekki að ræða meira um þennan félagsskap almennt, en víkja nokkrum orðum að einstökum gr. í frv., sem mér finnst ástæða til, að Alþ. athugi sérstaklega, áður en á þau yrði fallizt, ef svo færi. Þessar greinar, sem ég tel sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á, eru í fyrsta lagi 3. gr. Þar er talað um það, að forgöngu um stofnun fjárfestingarfélags hafi Verzlunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda og þeir aðilar, sem samtök þessi kveðja til. Mér virðist, að ef horfið yrði að því að stofna slíkan félagsskap sem þennan, þá sé kannske nokkuð þröngt þetta ákvæði um, hverjir megi vera stofnendur, þar sem það á eingöngu að vera bundið við Verzlunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda og þá aðila, sem þessir aðilar tilnefna. Mér finnst, að ef horfið yrði að stofnun slíks félags, þá ætti að hafa það á víðum grundvelli, og þá væri ekkert óeðlilegt, að t. d. Landssamband ísl. útvegsmanna, Búnaðarfélag Íslands og aðrir slíkir aðilar, félagssamtök, fengju þá alveg eins aðild að því, eins og Verzlunarráðið og Félag ísl. iðnrekenda. Og eins held ég, að það væri til athugunar, ef rétt þætti að stofna slíkt félag, að hafa það alveg opið frá byrjun, eins konar almenningshlutafélag, þannig að það gætu allir orðið stofnendur þess, en það væri ekki sérstaklega bundið við Verzlunarráðið, Félag ísl. iðnrekenda og þá aðila, sem þessi samtök telja rétt að kveðja til sem stofnendur.

En þetta er þó að mínum dómi ekki það ákvæði frv., sem mér finnst ástæða til, að sé athugað sérstaklega, þó að mér virðist, að ef að því ráði yrði horfið að stofna slíkt félag, þá ætti að hafa grundvöllinn miklu breiðari en hér er stefnt að. Mér finnst það atriði, sem felst í 4. gr. frv., þarfnast enn þá meiri athugunar, en hún er um það, að einkabönkum og opinberum sjóðum í landinu sé heimilt að kaupa og eiga hlutabréf í félaginu, án tillits til gagnstæðra ákvæða í lögum um þessar stofnanir. Eins og þm. að sjálfsögðu vita, gildir nú sú regla, að bankar og fjárfestingarstofnanir mega ekki vera hlutabréfaeigendur í fyrirtækjum, en það er einungis til þess að upphefja þá reglu gagnvart þessu fyrirtæki, sem þetta ákvæði er sett í frv. Hér er sem sagt verið að brjóta þá hefð, sem hefur gilt hingað til, þ. e. að bankar og fjárfestingarstofnanir séu ekki beinir aðilar að hlutafélögum. Nú var að vísu tekið svo til orða í þessari gr., að það eigi aðeins að gilda undanþága um þetta eina fyrirtæki, en ég óttast það, ef einu sinni er búið að brjóta ísinn og búið að samþykkja það, að bankar og fjárfestingarstofnanir megi vera eigendur hlutabréfa í þessu fyrirtæki, að þá muni brátt fleiri koma á eftir og það muni verða færð rök að því, að þessi og þessi félagsskapur eða þetta og þetta fyrirtæki sé ekki ónauðsynlegra en t. d. þetta félag. Við vitum mörg dæmi þess hér á Alþ. frá undanförnum árum, að ef eitthvert eitt félag, t. d. eitthvert góðgerðarfélag, hefur fengið leyfi til að leggja á svokallað tappagjald eða eldspýtnagjald o. s. frv., þá hafa fleiri félög komið á eftir og fengið sams konar hlunnindi. Ég er þess vegna hræddur um það, að ef bankarnir verða opnaðir þannig gagnvart þessu fyrirtæki, þá muni fljótt fleiri koma á eftir og vilja njóta sömu réttinda. Þess vegna þarf Alþ. að hugsa sig vel um, áður en það víkur frá þeirri föstu reglu, að bankar og fjárfestingarstofnanir séu ekki beinir aðilar að hlutafélögum.

Annað finnst mér líka athugandi í sambandi við þessa gr., og það er það, að þó að bankar og fjárfestingarstofnanir færu að kaupa hlutabréf í þessu fyrirtæki og fyrirtækið keypti svo aftur hlutabréf í öðrum hlutafélögum fyrir hlutaféð, þá mun það ekki verða til þess að auka neitt það fjármagn, sem atvinnuvegirnir fá til umráða, eins og tilgangurinn er með þessu frv., því það fé, sem bankar og fjárfestingarstofnanir notuðu til þess að kaupa hlutabréf, yrði að sjálfsögðu á kostnað lánveitinga þessara aðila til annarra atvinnufyrirtækja. Þess vegna er raunverulega ekki um það að ræða hér, að það fáist aukið fjármagn til atvinnuveganna með þessu fyrirkomulagi, heldur verði sú breyting ein á, að hér kemur til sögunnar nýr úthlutunaraðili eða skömmtunaraðili til viðbótar við bankana og þær fjárfestingarstofnanir, sem fyrir eru. Nú er það álit margra og vafalaust ekki að öllu leyti rangt, að þessir aðilar, sem skipta fjármagni á milli atvinnufyrirtækja í landinu, séu þegar orðnir of margir. Bankarnir séu orðnir helzt til margir og þessir fjárfestingarsjóðir sömuleiðis. Það væri miklu eðlilegri og heilbrigðari þróun og meira yfirlit og meiri árangur mundi nást af því að fækka þessum aðilum heldur en að fjölga þeim. Á þetta atriði finnst mér, að Alþ. þurfi mjög að líta, áður en það gengur inn á þá braut að samþykkja það, að bankar og fjárfestingarstofnanir eigi þátt í því að stofna þetta nýja fyrirtæki.

Ég ætla svo að lokum að víkja að 6. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir því, að umrætt fjárfestingarfélag eigi að njóta sömu sérréttinda og Landsbanki Íslands til ársloka 1977, þ. e. að hafa algert skattfrelsi. Ég held, að hér sé um atriði að ræða, sem ástæða sé til fyrir Alþ. að velta fyrir sér, áður en það samþykkir þetta. Ég held, að það geti alltaf verið dálítið varhugavert að veita einstökum fyrirtækjum sérstök skattfríðindi og algjörar skattaundanþágur, því það má alltaf búast við því, að þegar búið er að veita einu félagi slíka undanþágu, komi fleiri á eftir og heimti það sama. Það, sem mér finnst aðkallandi í skattamálum nú í sambandi við atvinnurekstur, er að létta skattabyrðum af atvinnurekstri almennt, þá ekki sízt á þeim fyrirtækjum, sem hafa beinan atvinnurekstur með höndum, og þess vegna eigi að athuga þessi mál í heild, en ekki halda þannig á þeim, að taka eitt fyrirtæki út úr og veita því skattahlunnindi. Það er áreiðanlega orðin mikil nauðsyn á því að endurskoða skattalögin eða þau ákvæði þeirra, sem snerta fyrirtæki. Skattar eru orðnir of þungir á atvinnurekstri hér á landi, og þar á ég ekki eingöngu við tekju- og eignaskatt, heldur marga aðra skatta, sem koma til viðbótar tekju- og eignasköttunum og verða þess valdandi, að samanlagt eru þær skattgreiðslur, sem á atvinnurekstrinum hvíla, mjög þungar. Mér finnst ærin ástæða til þess, og það ætti eiginlega að vera fyrsta verkefnið í skattamálunum, að Alþ. athugaði sérstaklega skattamál atvinnurekstrarins í heild, en sé ekki að taka eitt sérstakt fyrirtæki út úr og veita því skattahlunnindi. Og þó að það hafi viðgengizt á undanförnum áratug, þegar aðstæður voru allt aðrar en nú, að veita einstökum fyrirtækjum og félögum skattahlunnindi, þá held ég, að það eigi að vera almenn regla að hverfa frá þessu og láta sömu skatta gilda um allan atvinnurekstur og atvinnurekstrarstarfsemi, hvort heldur þar er um einkarekstur, ríkisrekstur eða samvinnurekstur að ræða. Að mínum dómi er það mjög vafasöm stefna að láta t. d. ríkisfyrirtæki njóta skattahlunninda umfram einkarekstur og samvinnurekstur. Ég álít, að við eigum miklu fremur að stefna að því, að ríkisreksturinn sitji við sama borð í þessum efnum og annar atvinnurekstur, og ég tel það mjög vafasamt, þó að það sé enn í lögum, að fjárfestingarstofnanir eða bankar séu undanþegnir skattalögum. Mér finnst þetta mjög til athugunar, að bankar sitji við sama borð og önnur fyrirtæki í þessum efnum.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að hæstv. forseti þessarar d. flutti ræðu hér í sambandi við eitt mál, sem var til meðferðar í þessari hv. d. í fyrra, en þá var verið að ræða um skattlagningar á kvikmyndahús, og var ég honum mjög sammála. Þar er þannig ástatt, að það eru viss kvikmyndahús, sem njóta sérstakrar undanþágu, þ. e. a. s. undanþágu frá skemmtanaskatti. Ég tel, að það sé mjög vafasamt að láta einkareksturinn búa við önnur og verri kjör í þeim efnum en ýmis önnur fyrirtæki, sem reka kvikmyndahús. Mér finnst, að þar eigi sama regla að gilda um alla aðila, og er þess vegna alveg sammála hæstv. forseta þessarar d. um það, sem hann sagði. Ég hef jafnvel hugsað mér nú á þessu þingi að hreyfa þessu máli í sérstöku frv.- formi. Mér finnst engin ástæða til þess, að það sé verr búið að einkafyrirtækjum en öðrum atvinnurekstri, enda er svo komið í sambandi við kvikmyndahúsareksturinn, að það er mjög hæpið, að það gjald, sem á hann var lagt á sínum tíma, skemmtanaskatturinn, eigi lengur rétt á sér. Það var miðað við allt aðrar kringumstæður. Nú eftir að sjónvarp og önnur fjölmiðlunartæki, sem keppa við kvikmyndahúsin, eru komin til sögunnar, þá er mjög hæpið, að það sé rétt að leggja þennan skatt á þau.

En það er annað atriði í sambandi við þessa sérstöku grein, kvikmyndahúsin. Ég álít, að það eigi að stefna að því, að allir aðilar sitji þar við sama borð og hið sama eigi yfirleitt að gilda um atvinnurekstur og mismunandi félagsform í landinu. Við eigum að hafa undanþágurnar sem allra fæstar, helzt engar. Það verður auðveldast, og það er rétt að framkvæma það á þann hátt, og þess vegna verð ég að segja það, að þó að ég vildi jafnvel greiða fyrir slíkum félagsskap sem þessum, þá hugsa ég mig um oftar en einu sinni, áður en ég treysti mér til þess að fallast á það að láta hann hafa skattfríðindi.

Ég held, að Alþ. eigi miklu frekar að marka þá stefnu í þessum efnum, sem ég hef áður minnzt á, að láta allan atvinnurekstur sitja við sama borð, en ekki veita einstökum félögum eða félagsformum sérstök hlunnindi. Ég hygg, að t. d. hv. 1. flm. sé mér sammála um það, að það sé ekki rétt að láta ríkisfyrirtæki búa við önnur skattalög en einkafyrirtæki, og ég væri alveg reiðubúinn til samvinnu við hann um það, að jöfnuði væri komið á í þeim efnum. En þá getur hann kannske líka skilið afstöðu mína varðandi það, að ég er ekki sérlega fús til þess að veita öðrum fyrirtækjum sérstakar skattaundanþágur.

Mér hefur fundizt rétt strax við 1. umr. að vekja athygli á þessum atriðum í frv., sem ég tel alveg sérstaka ástæðu fyrir Alþ. að athuga vandlega, áður en það gerir nokkuð í þessu máli. Hér getur verið um veigamikið mál að ræða og þess vegna þarf það góða íhugun. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að slíkt fjárfestingarfélag verði stofnað, ef það nýtur ekki neinnar sérstakrar undanþágu og starfar við sömu kjör og önnur hlutafélög í landinu. En ég vildi sem sagt hreyfa þessum athugasemdum strax nú við 1. umr., áður en málið fer til n., m. a. til þess að reyna að stuðla að því, að málið eða þau sérstöku atriði, sem ég nefndi, fengju nánari athugun þar, áður en lengra yrði haldið.