30.10.1969
Neðri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., er nokkuð nýstárlegt og einnig í nýstárlegu formi, eins og vikið hefur verið að, þ. e. að stofna slíkt hlutafélag eins og hér er um að ræða með lögum, en það eru ýmsar ástæður og sérástæður, sem liggja til þess og ég veit, að þm. er ljóst. En út frá þessu sjónarmiði er ekkert undarlegt, þó að fram komi frá hv. þm. ýmsar aths. í sambandi við frv., og eflaust kann eitthvað betur að mega fara í því eins og gengur og gerist, þó að meginefni þess sé gott að mínum dómi og þess virði að styðja það. Það er þess vegna mjög æskilegt, að frv. geti sem fyrst gengið til n. og fengið þá athugun, sem svona mál þurfa óhjákvæmilega að fá í n. og þá betur en hægt er við 1. umr., þegar nál. eru komin og þegar n. hefur haft aðstöðu til þess að kynna sér málið nánar og fá viðbótarumsagnir, eftir því sem þörf krefur, eða upplýsingar.

Varðandi hlutverk þessa félags má með réttu segja, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að, að það eru ýmsar aðrar stofnanir og sjóðir í landinu, sem fyrir sitt leyti eiga að gegna vissum hluta af því hlutverki, sem þessu félagi er ætlað, en það er ekki til neins skaða, hygg ég, þó að stuðlað sé að því, að fleiri hafi sams konar hlutverkum að gegna, enda er sjóðum og bönkum yfirleitt stjórnað hér á landi af þingkosnum aðilum. En það gæti verið til styrktar að mínu áliti, að sumum hlutverkum, sem þeir hafa með höndum, sé gegnt af einkaaðilum og aðilum, sem öðruvísi er stjórnað en þessum fjórum. Enda höfum við í raun og veru haft eitt stórt fjárfestingarfélag hér á landi um langan tíma með mörg af þeim hlutverkum, sem hér er talað um, og þar á ég við Samband ísl. samvinnufélaga, sem hefur gegnt mjög þörfu hlutverki með því að vera frumkvöðull að stofnun ýmissa fyrirtækja, aðili í hlutafélögum, og svo bakhjarl kaupfélaganna í landinu, eðli málsins samkv.

Því miður verður það að játast, að bankar og sparisjóðir hafa lítið sinnt því hlutverki að leggja sig fram við endurskipulagningu og sameiningu atvinnufyrirtækja í landinu, þó að nokkur dæmi séu til þess, sem ég hygg, að í flestum tilfellum hafi leitt til góðs, en mættu auðvitað vera miklu fleiri.

Annað hlutverkið er að kaupa og selja hlutabréf í atvinnufyrirtækjum og skuldabréf þeirra. Væri komið á laggirnar félagi sem þessu með slíku hlutverki, þá mundi það auðvitað ýta undir hinn almenna verðbréfamarkað, sem ég tel nú alveg höfuðnauðsyn, að komist upp í þessu landi, þar sem hlutabréf geta gengið kaupum og sölum. Og einn höfuðgallinn við okkar hlutafélagaskipun er sá, eins og vikið var reyndar að, að oftast hafa menn lítið upp úr þessu og næstum því er ómögulegt að losna við hlutabréfin, ef þeir þurfa á því að halda, og vilja þeir því heldur eiga fjármuni sína í sparifé bankanna, þar sem þeir geta gengið að því, heldur en að leggja það í hlutabréfakaup. Þetta hefur svo orðið til þess, að það hafa fáir aðilar átt hlutabréf og sumir aðilar, sem í hlutafélögunum eru, hafa svo fengið þetta sparifé lánað hjá bönkunum til þess að kaupa hlutabréf. Hinn þröngi hópur þeirra, sem hlutabréfin eiga yfir höfuð, getur haft einhver önnur hlunnindi af þeim heldur en arð af hlutabréfunum, og lætur þá minna máli skipta, hvort hann getur losnað við þau eða ekki, m. a. vegna þess að eigið fé í fyrirtækjum hér á landi hefur verið það sáralítið, að þetta skiptir ekki miklu máli. En það er að mínum dómi eflingu ýmissa atvinnurekstrarfyrirtækja hér á landi mikill fjötur um fót, hversu lítið eigið fjármagn er í þeim.

Hlutverk eins og það að annast tæknilega og viðskiptalega ráðgjafarþjónustu við stofnun og rekstur atvinnufyrirtækja er auðvitað mjög mikilvægt að komist á hér á landi. Þetta hlutverk geta auðvitað ýmsir einstaklingar tekið að sér, hvort sem það er í hlutafélagsformi eða öðru, t. d. sett upp ráðgjafarskrifstofur og er nokkur vísir til þess. Auðvitað gætu og hefðu peningastofnanirnar líka getað gert þetta, þó að lítið hafi verið gert af því. En það er enginn vafi á því, að það er mjög mikilvægt, að menn eigi aðgang að ekki of dýrri þjónustu í þessu sambandi. Erlend ráðgjafarþjónusta af þessu tagi er í langflestum tilfellum allt of dýr fyrir okkar félög, m. a. vegna smæðar þeirra og ókunnugleika erlendra aðila á íslenzkum staðháttum, þegar um er að ræða myndun atvinnurekstrarfélaga eingöngu fyrir íslenzka staðhætti, en ekki t. d. útflutningsverzlun.

Ég er ekkert frá því, að það sé rétt gagnrýni, sem hér hefur komið fram, ákvæði þessa frv. um stofnunaraðila séu of þröng, og það kemur auðvitað til athugunar í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, hvort rétt væri eitthvað að rýmka þau. En náttúrlega eru Félag ísl. iðnrekenda og Verzlunarráð Íslands, sem þarna eru nefnd, allt annars eðlis heldur en t. d. Búnaðarfélag Íslands, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. nefndi í þessu sambandi, vegna þess að við tölum og erum orðnir vanir því að tala um Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands eins og þetta væru einhver félög. Þetta eru algerlega opinberir aðilar. Og eins og vikið hefur verið að á öðrum vettvangi, er auðvitað miklu eðlilegra, að þessir aðilar sem aðrir opinberir aðilar séu innan vébanda þeirra ráðuneyta, sem þeir tilheyra, eða séu í þeim eðlilegu tengslum við þau, sem þeir eiga að vera. Þetta er auðvitað gerviheiti á þessum aðilum að kalla þá félög. En sumt af því hefur gott eitt í för með sér og þetta er orðin venja, en eðli félaga er að vísu töluvert mikið annað en þeirra, sem þarna eru nefnd. Ég held, að opið ætti að vera fyrir alla að fá aðild að slíku félagi, ef það yrði sett á laggirnar.

Ég skal svo ekki tefja umr. um þetta, enda hef ég verið að hvetja til þess að málið kæmist til n. og fengi sína athugun þar. En varðandi skattfrelsið í 6. gr. vil ég að lokum segja, að þegar frv. kom fram í fyrra, held ég, að það hafi ekki verið takmarkað, og ég tel það mjög til bóta, að skattfrelsið, sem talað er um í 6. gr., sé nú takmarkað. En þá verður bara spurningin hjá okkur: Eigum við ekki að athuga það alvarlega, að ný félög fái skattfrelsi eða veruleg skattfríðindi fyrstu árin? Þetta gæti orðið um að ræða, ef frv. næði samþykki, nú til 7 ára. Ég hygg, að 5 fyrstu árin væru alveg nægjanleg í þessu sambandi. Og það er út af fyrir sig reikningsdæmi, hvort ríkissjóður tapaði nokkuð á því. Slík örvun til félagsmyndunar gæti leitt til þess, að hér kæmust upp sterkari stofnar í atvinnurekstri en verið hefur fram til þessa. Þess vegna finnst mér það athyglisverð hugmynd, að það sé tímabundið skattfrelsi eða veruleg skattfríðindi, hvort sem menn vilja nú heldur, einmitt við stofnun atvinnurekstrarfélaga; félaga, sem stuðla að örvun í atvinnulífinu. Hér ætti því kannske að huga alvarlega að almennri reglu, en eins og kunnugt er, eru skattalögin einmitt í endurskoðun og í nefnd, sem er að huga að ýmsum greinum, sem miklu máli skipta fyrir slík félög, bæði afskriftareglum og öðru slíku, t. d. hvernig fara eigi að, ef fyrirtæki vilja sameinast og skapa stærri einingar, sem er næstum því ómögulegt miðað við núv. skattareglur. Því held ég, að það væri hreinlega þess vert, að hugmyndin væri hugleidd, — þó að það sé rétt, að skattþungi á fyrirtækjum sé hér yfirleitt ekkert meiri en á fyrirtækjum erlendis, — með hverjum hætti er hægt að létta erfiðustu sporin í upphafi við myndun nýrra atvinnufyrirtækja í landinu, með það bak við eyrað, að það örvaði myndun slíkra félaga og gæfi ríkissjóði síðan og sveitarfélögunum miklu meiri tekjur af þessum fyrirtækjum en ella mundi verða.