16.03.1970
Neðri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um Fjárfestingarfélag Íslands h. f., er flutt snemma á þessu þingi. Það er búið að liggja nokkuð lengi í nefnd. Á þessum tíma hefur það m. a. gerzt, að hv. 1. flm., þess, sem mælti fyrir því í öndverðu, er horfinn af þingi, en hann er varaþm., og ég get ekki komið auga á hv. 2. flm. frv., að hann sé hér viðstaddur, og er það út af fyrir sig óviðkunnanlegt að ræða málið mikið, þannig að ekki sé flm. að því viðstaddur.

Hins vegar liggur það fyrir, að meiri hl. þeirrar hv. n., sem hefur málið til meðferðar, mælir með frv., þó með breytingum, sem einstakir nm. flytja till. um, og virðast þeir ekki vera sammála um þær brtt. Þeir flytja þær ekki saman, heldur eru þær í tvennu lagi.

Eins og ég sagði áðan, er þetta frv. nefnt frv. um Fjárfestingarfélag, en mér sýnist, að kalla mætti það frv. um fjárfestingarbanka, því það er í raun og veru banki, sem hér er verið að stofna, ef frv. nær fram að ganga. Þessi stofnun á bæði að annast lántökur og lánveitingar og hafa með höndum fleiri tegundir starfsemi, sem bankar hafa með höndum, og því virðist mér, að hér sé í raun og veru á ferðinni stofnun nýs banka hér á landi, fjárfestingarbanka, hlutafélags. Það er ekkert sérlegt við það, að þessi banki sé hlutafélag, því að áður hafa verið stofnaðir bankar, sem eru hlutafélög, hér á landi og bera þó nafnið banki. Þessum nýja banka er að vísu ætlað hlutverk, sem núverandi bankar hafa ekki með höndum, en sumir bankar erlendis hafa með höndum samhliða venjulegri bankastarfsemi og bankar þeir, sem hér eru fyrir, gætu að sjálfsögðu sinnt. Það er því enginn vafi á því, að hér er um að ræða bankastofnun, stofnun sérstaks fjárfestingarbanka.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að rifja hér upp nokkur atriði úr þróun bankamála hér á landi. Fyrsti banki á Íslandi var stofnaður með lögum árið 1886. Það var Landsbanki Íslands, sem enn er starfandi, og hafði seðlaútgáfurétt þar til Seðlabankinn var stofnaður með lögum fyrir ekki mjög löngu. Næsti banki, sem stofnaður var hér á landi, var Íslandsbanki h. f., sem stofnaður var með lögum 1902 og tók til starfa 1904. Hann var aðalseðlabanki landsins í nálega tvo áratugi en hætti starfsemi sinni árið 1930. Þá var stofnaður upp úr Íslandsbanka Útvegsbanki Íslands h. f., sem nú heitir Útvegsbanki Íslands og er ekki lengur hlutafélag, heldur ríkiseign, og hefur reyndar mátt teljast það að mestu leyti alla tíð frá stofnun, en var þó hlutafélag að formi. Hann starfar enn. Rétt er að taka það fram, að sett voru lög um Ríkisveðbanka Íslands 1931, en hann tók ekki til starfa og skiptir því ekki máli í þessu sambandi. Búnaðarbanki Íslands var stofnaður með lögum 1929 og er enn starfandi: Fram yfir 1950 voru starfandi í landinu þrír ríkisbankar, þ. e. a. s. tveir hreinir ríkisbankar, Landsbankinn og Búnaðarbankinn, og svo Útvegsbankinn, sem kallaður var hlutafélag og var í raun og veru ríkisbanki, þannig að ríkið hafði með höndum bankareksturinn í landinu. En í seinni tíð hefur bönkum verið fjölgað mjög. Stofnaðir hafa verið nýir bankar, sem ekki eru á vegum ríkisins, og raunar einnig ríkisbanki. Iðnaðarbanki Íslands h. f., var stofnaður með lögum í árslok 1951 og tók til starfa 1953. Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður með lögum, 1953, en var lagður niður nú fyrir nokkrum árum. En svo var stofnaður Seðlabanki Íslands árið 1961, sem er ríkiseign, sem Framkvæmdabankinn líka var. Þá var næst stofnaður Verzlunarbanki Íslands h. f. með lögum 1960, og Samvinnubanki Íslands h. f. með lögum 1962.

Eins og af þessu má sjá, hefur bönkum fjölgað mjög í landinu síðan laust eftir 1950, þegar öll bankastarfsemi var í höndum þriggja ríkisbanka. Þó að ekki sé talinn Seðlabanki Íslands, sem segja má, að sé í eðli sínu eins konar deild úr Stjórnarráðinu, þá hefur bönkum, þ. e. a. s. viðskiptabönkum, fjölgað um 100% að tölunni til á þessum tíma, og þykir mörgum nóg um. Í sambandi við þessar bankastofnanir hafa þar að auki verið stofnuð útibú og ekki aðeins hér og þar í landinu, heldur einnig hér á höfuðborgarsvæðinu, og með stofnun þessara útibúa og ýmsu öðru keppa þessar bankastofnanir um sparifé almennings, að fá það til starfsemi sinnar.

Í sambandi við þessa auknu bankastarfsemi er um mikla fjárfestingu að ræða, sem hefur verið undir töluverðri gagnrýni, m. a. hér á Alþ., og ég minnist þess, að fyrir ekki löngu flutti hv. 1. þm. Vestf., — ef ég man rétt, — fsp. um fjárfestingu bankanna á tímabilinu frá 1960 til þess árs, þegar spurt var, og hann fékk svör við þessu í krónum. Hann spurði ekki um þá fjárfestingu, sem átt hefur sér stað frá stríðslokum og fram til 1960 í þessum sömu greinum, og fékk ekki heldur svör við því. En á þeim tíma, þ. e. frá stríðslokum og fram til 1960, var líka mjög mikil fjárfesting og í heild er þessi fjárfesting hjá bönkunum orðin mjög mikil. Ég held, að þessi mikla bankafjölgun og þessi mikla fjárfesting í bankakerfinu og allt, sem í kringum það er, sé farið að verða í meira lagi athugavert, enda hefur víða komið fram, að þetta er gagnrýnt t. d. í blöðum landsins og í till. frá ýmsum fundum, og ég verð að segja það, að sú gagnrýni á við nokkur rök að styðjast. Ég hef t. d. verið að athuga lauslega starfsmannafjöldann í bönkum landsins, hvernig hann hefur breytzt á þessum áratug, sem núna er að enda, frá 1960–1970. Mér hefur ekki unnizt tími til þess að vinna fyllilega úr þeim gögnum, sem ég hef fengið um þetta, af því að ég fékk þau ekki í hendur fyrr en núna á þessum fundi. Þó virðist mér við stutta athugun, að fyrir 10 árum hafi bankastarfsmenn í landinu, aðalbönkum og í útibúum þeirra, verið um 540, þ. e. á árinu 1960, en séu nú komnir á 10. hundrað, og gefur það nokkra hugmynd um, hvernig þessi starfsemi hefur þanizt út. En því miður hefur það fjármagn, sem bankarnir hafa á milli handanna, ekki vaxið að sama skapi, ef litið er á hið raunverulega verðgildi krónunnar nú og fyrir 10 árum. Ég geymi mér rétt til að leiðrétta þessar tölur síðar, ef þær kynnu að reynast ónákvæmar, en það munar víst ekki miklu í hlutföllum. Þar að auki er þess að geta, sem þarf að taka með inn í þessa mynd, ef maður gerir sér grein fyrir því, hvernig kerfið hefur þanizt út, að á þessum sama tíma, sem starfsfólki hefur fjölgað svo mjög, hefur mikil vélvæðing átt sér stað í bönkunum, þannig að þar eru komnar vélar og tæki, sem hljóta að gera það að verkum, að starfsmenn eru færri en ella hefði verið.

Fyrir utan þessa banka, sem ég nú hef talið, viðskiptabankana sex og Seðlabankann, eru starfandi hér í landinu yfir 50 sparisjóðir.

Hvað þýðir það fyrir almenning í þessu landi, ef bankakerfi landsins, peningamálakerfi landsins, verður miklu dýrara en það þarf að vera? Það þýðir annað hvort það, að þjónusta sú, sem þessar stofnanir láta í té, hlýtur að verða dýrari en hún ella þyrfti að vera, eða þá að þetta kemur fram í rekstri stofnananna. Og ég er hræddur um, að þessi mikla fjölgun bankanna og útibúa þeirra og kostnaðarauki að öðru leyti sé farið að koma nokkuð áþreifanlega fram í rekstrarafkomu bankanna og eigi eftir að koma betur fram. Sú var tíðin, að löngum var talað um það, að bankar græddu mikið og að það væri ósvinna að leggja ekki skatta á banka, svo að það var lagður skattur á bankana. En sú tíð hygg ég, að sé nú liðin og viðhorfið nokkuð öðruvísi en áður var, möguleikar fyrir banka til þess að hafa hagnað af rekstri sínum eru minni og á sennilega eftir að verða frekari þróun í þá átt.

Þetta allt er mönnum nú ríkt í huga, og ég minnist þess, að einu sinni sem oftar, þegar Alþ. var að setja lög um að bæta við einum bankanum enn, þá ræddi ég það mál nokkuð og þróunina í þessum efnum í hv. d. og greiddi atkv. á móti þessari aukningu, en var mjög liðfár í þeim aðgerðum, því hér á þingi hefur það til skamms tíma þótt hið mesta þjóðráð að fjölga bönkum og stofna banka fyrir allar atvinnugreinar og meira en það, en halda þar að auki áfram að starfrækja banka, sem ekki eru fyrir neina atvinnugrein, og á ég þar sérstaklega við Landsbankann. Hann er ekki fyrir neina sérstaka atvinnugrein. Hann er okkar elzti banki, en það liggur við, að ekki verði lengur rúm fyrir Landsbankann í kerfinu, ef miða skal bankarekstur fyrst og fremst við einhverja sérstaka atvinnugrein. Fyrir utan viðskiptabankana og sparisjóðina höfum við svo alla okkar fjárfestingarsjóði, sem vikið hefur verið að í þessum umr.

Ég ætla ekki að ræða almennt um efni þessa frv. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu og biðja hv. þm. að gera það upp við sig með nokkurri athugun og rannsókn, hvort þessi þróun sé æskileg og hvort við eigum nú að vera að stofna einn bankann enn. Hér er, eins og tekið hefur verið fram í umr., mikið af fjárfestingarsjóðum. Sú stefna hefur verið í löggjöf hér á Alþ., að koma upp því, sem við höfum kallað sjóði, einum fyrir hverja atvinnugrein. Sumir halda því fram nú, að þetta sé ekki heppilegt fyrirkomulag, að fjárfestingarsjóðirnir séu svona margir. Ég skal ekki leggja dóm á það og geri mér grein fyrir því, að það eru erfiðleikar á því að fækka þessum fjárfestingarsjóðum, enda hygg ég, að fjárfestingarsjóðir, sem reknir eru aðeins til að annast lögboðna fjárfestingu eða lögboðna fjárfestingarlánastarfsemi, hver fyrir sína atvinnugrein, þurfi ekki að vera dýrir í rekstri og séu í sjálfu sér ekki dýrir, því að þessi starfssvið fjárfestingarsjóðanna eru þannig afmörkuð, að starfsemin er miklu einfaldari í sniðum á allan hátt en starfsemi viðskiptabanka, og miklu einfaldari í sniðum en starfsemi þessa fjárfestingarbanka mundi verða. Hún er ekki einföld í sniðum.

Ég sagði, að ég ætlaði ekki að tala um málið almennt, en ég tel það varhugavert að halda áfram á þeirri braut að fjölga stöðugt bönkum til þess að ráðstafa þessu takmarkaða fjármagni, sem til fellur hér í landinu, og jafnvel þó að útlent fjármagn komi til.

Þá kem ég að því, sem ekki stendur í grg. þessa frv., held ég, — og þó er nú eitthvað minnzt á það í 4. gr., að það sé gert ráð fyrir því, að ef þessi fjárfestingarbanki yrði stofnaður, þá gæti hann fengið erlend lán eða kannske hlutafjárframlag, — það er dálítið óljóst. Ég veit nú ekki, hvort það er talið æskilegt, að það komi mjög mikið af erlendum hluthöfum inn í íslenzka atvinnuvegi. Ég held, að það hafi komið fram í umr., að sú stofnun, sem aðallega er treyst á í þessu sambandi, sé alþjóðalánastofnunin í Washington, sem svo er nefnd á íslenzku og kölluð hér systurstofnun Alþjóðabankans. Menn virðast líta svo á, að þar sé fjárvon.

Nú hefur það reynzt svo, að allvíða hefur verið fjárvon erlendis. Það hefur verið hægt að fá lán erlendis handa Íslandi, enda skuldir landsins í erlendum gjaldeyri orðnar töluverðar og greiðslubyrðin vegna hinna erlendu lána er orðin mjög mikil, a. m. k. ef miðað er við þær kenningar, sem uppi voru í lok síðasta áratugs, — á árunum 1959–1960, — því þá var því haldið fram, að greiðslubyrðin mætti helzt ekki fara mikið yfir 5% af andvirði seldra vara og þjónustu. Það hefur nú kannske verið eitthvað bogið við það, en þessu var haldið fram og okkur hér á Alþ. ætlað að taka það sem góða og gilda vöru, einnig almenningi. Nú er mér tjáð, að þessi greiðslubyrði kunni að vera komin upp í 15%, og ég bið menn að leiðrétta mig, t. d. hæstv. viðskmrh., ef það er skakkt hjá mér, en viljandi er ekki rangt með það farið. Mér hefur verið sagt, að greiðslubyrðin væri eitthvað í kringum 15% eða þrisvar sinnum hærri en talið var hæfilegt fyrir rúmum áratug, en hvort sem hún er 15% eða ekki, er hún a. m. k. miklu þyngri en talið var hæfilegt í lok síðasta áratugs. Það er óhætt að fullyrða. Ég skal ekki leggja dóm á það hér, hvort greiðslubyrðin sé of mikil og hvort við hana megi bæta, en þessi aukning á greiðslubyrðinni sýnir það, að víða hefur verið fjárvon erlendis fyrir Íslendinga, og ef maður lítur yfir lánalistana, sést það líka, að allmikil hefur fjárvonin verið og víða hafa vonir rætzt. Ég hygg, að slík taka erlendra lána sé ekki sérstaklega bundin við eina stofnun.

Ég hef reynt að spyrjast fyrir um það, hver lánakjör væru hjá þessari stofnun, sem hér er um að ræða, og því miður hef ég ekki getað fengið um það áreiðanlegar upplýsingar. Hvað eru t. d. venjulegir vextir af lánum, sem þessi svokallaða alþjóðalánastofnun í Washington veitir? Hún hefur veitt allmikið af lánum í seinni tíð, en ég hef því miður ekki getað fengið áreiðanlegar upplýsingar um, hverjir séu þar venjulegir vextir, en mér er sagt, að þetta sé stofnun, sem starfi með hagnaðarsjónarmið fyrir augum, og vextirnir kunna að vera dálítið misjafnir. Maður einn, sem ætti að vita nokkur skil á svona málum í Vesturheimi, en þar starfar þessi stofnun, hefur látið þau orð falla, að það muni ekki vera óalgengt, að vextir af lánum þessarar stofnunar séu í kringum 9%, en samt munu þeir vera misjafnir. Það má vel vera, að þetta sé hægt að upplýsa hér á fundi, og þá væri vel, því að mér hefur satt að segja gengið erfiðlega að fá nákvæmar upplýsingar um þetta, sem ég taldi þó nauðsynlegt, af því að að þessu hefur verið vikið í umr. hér á þingi.

Með þessu, sem ég hef nú sagt, og ég skal nú ljúka máli mínu, þá ætla ég að það sé fram komið, að ég hef ekki á þessu stigi áhuga á framgangi þessa frv., og þar sem nú er orðið áliðið þings og aðalflm. málsins og mestur áhugamaður um það hér á þingi hefur ekki lengur tækifæri til að vera hér, þá hygg ég, að það mundi ekki valda miklu tjóni, þó að meðferð málsins yrði frestað og það athugað nánar á milli þinga.