16.03.1970
Neðri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hef ekki mikið að segja um þá ræðu, sem hér er nýlokið. Hún skiptist aðallega í tvennt. Hv. þm. flutti yfirlit um sögu bankarekstrar á Íslandi, en endaði þá sögu með þeirri ályktun, að nú sé orðið of mikið af bönkum og þeir séu of dýrir í rekstri fyrir þjóðina. Um þetta skal ég ekki ræða að þessu sinni. Má margt segja um bankakerfið og ýmislegt um það deila og er raunar gert.

Í öðru lagi gerði hv. þm. að umtalsefni Alþjóðabankann í Washington og reyndi með nokkrum orðum að gera starfsemi hans tortryggilega.

Um þetta tvennt vil ég aðeins segja, að ég lít ekki á þá stofnun, sem þetta frv. fjallar um, sem banka. Þar greinir algerlega á milli mín og hv. þm. og er þá raunar niður fallin ástæða til frekari deilu okkar í milli. Á vissan hátt má færa rök að því, að fjöldinn allur af stofnunum, sem hafa einhver peningaviðskipti, sé bankar. Ég hygg t. d., að öndvegisfyrirtæki eins og Samband ísl. samvinnufélaga, sem ég starfaði einu sinni fyrir mér til ánægju og gagns, hafi meira eða minna fengizt við alla 6 liðina, sem hér eru taldir upp, og yfirleitt hafi þar verið um að ræða aðgerðir, sem komu íslenzkum atvinnufyrirtækjum á einn eða annan hátt að gagni.

Meginástæðan fyrir því, að ég gerðist meðflm. að þessu frv., var sú, að ég hef þá reynslu, sem ég hygg og að allir hv. alþm. hljóti að hafa, að það er mikið um rekstrarerfiðleika hjá íslenzkum fyrirtækjum, og við erum allir meira eða minna kallaðir þar til ráða í þeirri von, að við getum eitthvað hjálpað til. Ef fyrirtæki eins og þetta gæti náð fjármagni og skapað sér möguleika til þess að koma fyrirtækjum til hjálpar, þegar þau eiga í erfiðleikum, eða jafnvel vera frumkvöðull að stofnun fyrirtækja, sem bankar eru sjaldan, þá tel ég, að fyrirtækið mundi verða til gagns.

Í öðru lagi virðist mér von til þess, að þetta fyrirtæki gæti e. t. v. komizt yfir, innanlands eða utan, annað fé en bankarnir hafa yfir að ráða í venjulegri starfsemi sinni. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt atriði. Þeir, sem ekki trúa því, að neinn slíkur möguleiki sé fyrir hendi, hafa að sjálfsögðu mun minni ástæðu til þess að styðja frv. en ég hef. M. a. ætti frv. að opna möguleika til þess, að við gætum í framtíðinni fengið lán hjá alþjóðalánastofnuninni í Washington, sem er, eins og segir í aths. við 4. gr., systurstofnun Alþjóðabankans. Lán á alþjóðavettvangi eru með ýmsu móti. Sum þeirra eru þannig, að til þeirra er stofnað til þess að hjálpa einkafyrirtækjum. Önnur eru þannig, að til þeirra er stofnað til að hjálpa ríkisstj. og ríkisfyrirtækjum. Ég tel, að eins og hagkerfi okkar er, þurfum við að eiga aðgang að báðum þessum tegundum lána í framtíðinni, og það er einmitt af þessari ástæðu, sem Alþjóðabankinn hefur sett upp þá systurstofnun sína, sem hér um ræðir og starfar aðallega á vettvangi einkafyrirtækja eða blandaðra fyrirtækja. Ég tel því, að það sé vinningur að opna þennan möguleika, þó að það sé ekki þar með sagt, að við munum gína yfir stórum lánum þegar á næstunni.

Vegna þess að vextir eru mismunandi hjá stofnunum Alþjóðabankans, sé ég ekki, að það geti verið meginatriði á þessu stigi málsins, hverjir þeir eru í dag. Það er mál, sem þarf að kanna, þegar kemur að hugsanlegu láni, hvort vextir, sem þá bjóðast, teljast vera hagkvæmir eða ekki. Ef þeir eru hagkvæmir, er hægt að taka slíkt lán. Ef þeir eru það ekki, verður lánið ekki tekið. Og Alþjóðabankinn í Washington er ein af þeim alþjóðlegu stofnunum, sem eru þess eðlis, að það er æskilegt fyrir þjóð eins og Íslendinga að starfa í sem mestu sambandi við hann og alveg tvímælalaust æskilegt að njóta aðstoðar bankans og þeirra stofnana, sem eru honum nátengdar, til þess að útvega okkur í framtíðinni fé, sem við þurfum til ýmissa nýrra framkvæmda og til þess að halda þeim fyrirtækjum gangandi, sem við þurfum að endurnýja og endurbæta.