16.03.1970
Neðri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta tölur, sem ég fór með áðan varðandi starfsmannafjölda bankakerfisins 1960 og 1970. Ég leit á þetta mjög fljótlega, þessar upplýsingar, sem ég hef látið útvega um þetta efni, og hafði mér þá sézt yfir eina tölu, þannig að fjölgun starfsmanna í bankakerfinu er mun meiri en mér virtist hún í fyrstu vera. Fjölgunin er úr 540 árið 1960 upp í 1070 árið 1970, þ. e. um 100%. Þetta er smásýnishorn af því, hvernig bankakerfið hefur þanizt út á þessum áratug, m. a. vegna fjölgunar bankanna og þeirrar óeðlilegu samkeppni, sem myndazt hefur um spariféð og önnur viðskipti vegna þessarar fjölgunar.

En eins og ég tók fram áðan mætti nefna margt fleira en starfsmannafjölgunina, en það er einna auðveldast að gera sér grein fyrir henni. Það væri líka hægt að reikna út fjárfestingaraukann, eins og hann hefur orðið á þessum tíma, og þá á verðlagi einhvers ákveðins árs, því að það eitt er að marka í þessu sambandi.

Hv. 2. flm. þessa frv., hv. 5. þm. Vesturl., tók hér til máls fyrir hönd þeirra flm. Fyrri flm. og sá, sem virtist vera aðaláhugamaður um málið, hefur ekki lengur tækifæri til þess að taka hér til máls um sinn. Hv. þm. sagði, að þetta Fjárfestingarfélag væri ekki banki. Það verður ekki banki að lögum, ef samþ. yrði, en það yrði raunverulega banki, og hv. þm., sem hér talaði á undan mér, hefur nú gert nánar grein fyrir því, í viðbót við það, sem ég sagði hér áðan. Og ég býst við, að menn komist að raun um það, að ef þessi stofnun rís á legg, þá muni hún minna á sig hér í höfuðborginni og kannske víðar á svipaðan hátt og bankarnir, með umsvifum og framkvæmdum. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, í tilefni af orðum hv. þm., að þess eru dæmi erlendis, að bankar eins og þeir, sem fyrir eru, reka starfsemi í sérstökum deildum á svipaðan hátt og hér er gert ráð fyrir, þó að okkar bankar hafi ekkert gert í sambandi við stofnun atvinnurekstrar og viðskipti með hlutabréf. Það hefur mér verið tjáð, og ég hef það fyrir satt.

Ég áttaði mig ekki fullkomlega á því, sem hv. þm. var að segja um það, að það þyrftu að vera til tvenns konar lánastofnanir í sambandi við fjárfestingu. Mér virtist hann segja, að það þyrftu að vera til stofnanir, sem lánuðu fyrirtækjum, og svo væri ágætt, að til væru líka stofnanir, sem fyrst og fremst lánuðu í einkarekstur. Ég átta mig ekki á því, að þetta geti verið rök fyrir þessu frv., því að mér er ekki kunnugt um, að fjárfestingarsjóðir þeir, sem til eru í landinu, láni frekar í opinberan rekstur en einkarekstur. Ég held, að þeir láni aðallega í einkarekstur og þá kannske líka í félagsrekstur, líka sjálfsagt í rekstur, sem bæjarfélög eða ríki hafa með höndum. T. d. stofnlánasjóðir Búnaðarbankans lána aðallega í einkarekstur. Þeir lána einstökum bændum, líka nokkuð í félagsrekstur. Fiskveiðasjóður lánar næstum eingöngu í einkarekstur, þ. e. einstaklingum og hlutafélögum. Iðnlánasjóður hygg ég að láni líka einkum í einkarekstur, a. m. k. alveg jöfnum höndum. Því má segja, að til þess að fjárfestingarlán fáist í einkarekstur, þá þurfi ekki að stofna nýjan banka eða nýjan fjárfestingarsjóð. Einkareksturinn fær lán úr þeim sjóðum, sem fyrir eru.

Ef þessi orð hefði svo átt að skilja á hinn veginn, að einhverjar af þessum stofnunum þyrftu að vera einkafyrirtæki, en ekki opinber fyrirtæki, eins og ríkisbankarnir, þá er slíkt líka til staðar, þar sem sumir bankarnir eru ekki ríkisfyrirtæki. Eða felst það að einhverju leyti í þessu frv., að það eigi smátt og smátt að leggja fjárfestingarsjóði ríkisins niður og láta þá renna inn í þennan nýja hlutafélagsbanka? Ég veit það ekki. Það stendur að vísu í frv., að opinberum sjóðum í landinu skuli vera heimilt að kaupa og eiga hlutabréf í félaginu, og ég sé, að sumir þm. úr hv. meiri hl. hafa borið fram brtt. við það. Þeir hafa kannske gert sér í hugarlund, eins og hvarflar nú að mér að kunni að felast í þessu frv., að draga smátt og smátt úr starfsemi fjárfestingarsjóðanna, sem ríkið hefur stofnað, þó að mér þyki ólíklegt, að það vaki fyrir hv. 5. þm. Vesturl. Þeir hafa kannske gert sér þetta í hugarlund og þess vegna vilja þeir fella þetta ákvæði niður. Ef það er ekki meiningin að færa þannig hina opinberu fjárfestingarsjóði að meira eða minna leyti inn í nýja hlutafélagsbankann, þá held ég, að þetta ákvæði ætti að hverfa úr frv.

Hv. þm. ræddi nokkuð um alþjóðalánastofnunina í Washington, án þess að gefa nokkrar sérstakar upplýsingar um hana, og ég hef ekki fengið neitt upplýst til viðbótar við það, sem ég sagði hér, að mér hefði verið tjáð um venjulega vexti hjá þeirri stofnun.