13.01.1970
Neðri deild: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem ég hygg, að það hafi verið samþ. ágreiningslítið eða ágreiningslaust. Frv. er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 26. júní 1969, en tilefni þeirra er það álit, að fjárhagsörðugleikar láglaunafólks innan verkalýðsfélaganna, sem keypt hefur íbúðir þær, sem framkvæmdanefnd byggingaráætlunar í Reykjavík hefur látið byggja á vegum ríkisins, séu almennt svo miklir, að yfirvofandi sé innan skamms nauðungarsala á íbúðunum, ef lánakjörum þessum verður ekki breytt til hagsbóta fyrir þetta fólk. Breytingin, sem brbl. fela í sér, er sú, að lán, sem íbúðareigendum hafa verið veitt, samkv. 2. mgr. c–liðar 7. gr. l. og eiga að greiðast upp á árunum 1969 og 1970, skulu greiðast upp með jöfnum afborgunum á næstu 6 árum, 1970–1975, með gjalddaga 1. nóvember ár hvert — í fyrsta sinn 1. nóvember 1970. Jafnframt skulu vextir af lánunum lækka í 5%. Til viðbótar því, sem í gr. segir og í forsendunum fyrir brbl., er eiginlega litlu við að bæta og þetta frv. er flutt til þess að mæta þeim óskum, sem fram hafa komið um frestun lánanna.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.