23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta ykkur á endurtekningum, en ég vildi leyfa mér að benda hér aðeins á eitt atriði enn þá til viðbótar við það, sem ég hef gert áður. Og það er það, að ég tel, að með þessu frv. sé gerður mismunur á aðilum, þannig að borgarar þjóðfélagsins búa ekki í raun og veru við sömu lög.

Mín vegna mega þessir ágætu menn í Verzlunarráði Íslands og Félagi ísl. iðnrekenda gjarnan mynda hlutafélag. Það má hafa 80 millj. eða hvað sem vilt í hlutafé. En það á bara að búa við sömu lög og önnur hlutafélög. Það á ekki vegna einhvers eins hlutafélags að taka öryggisventilinn frá spariinnlánum fólksins í bönkunum og leyfa þessum bönkum að fara að eiga hlut í þessu hlutafélagi eða öðrum hlutafélögum, sem þetta hlutafélag myndar. Til hvers hafa þessi ákvæði verið sett í bankalöggjöf þessara einkabanka? Til þess að tryggja öryggi sparifjáreigenda með fé sitt. Þarna á með einni setningu að afnema þetta ákvæði, sem er búið að þrauthugsa og er eitt af þeim atriðum, sem starfsemi þessara banka byggist á og á að vera til þess að tryggja spariinnlánin, því að það er ekki ríkisábyrgð fyrir þeim. Og þetta á að eyðileggja fyrir eitt félag. Þetta er ekki gert fyrir aðra aðila á landinu. Þarna á allt í einu að fara inn á þá braut, að bankar eigi og reki félög. Og það eru engin takmörk fyrir því, hvað sú starfsemi má ná langt.

Það eru eingöngu þessir aðilar, Verzlunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda, sem hafa leyfi til að notfæra sér þetta, og auk þess þeir aðilar, sem þeir kveðja til. Og svo er bætt við á eftir því ákvæði, að það megi raunar allir vera meðlimir í þessum félagsskap. En það vita það allir menn, að það eru þessir aðilar, sem hafa tögl og hagldir, og það er í raun og veru hryggilegt, að menn, sem eru vinveittir SÍS, skuli vera að reyna að draga SÍS inn í þennan ósóma með því að bæta nafni SÍS þarna við.

Svo á þetta félag að hafa skattfrelsi. Hvaða ástæða er til þess? Við megum vara okkur á því að setja slíka löggjöf, þar sem borgarar þjóðfélagsins búa ekki við sömu skilyrði.

Þetta er dálítið hliðstætt því, sem þeir gerðu í fiskveiðasjóðnum. Þeir lánuðu sumum með gengisáhættu og öðrum ekki. Ég ræddi um þetta við einhvern spakvitrasta sjálfstæðismanninn. Hann sagði mér, að þetta væri stjórnvizka. Það má kalla svona smáklæki stjórnvizku. En ég held, að lýðræði okkar sé dálítið hætt, ef við förum að fara inn á svona stefnu, og ég held, að flokkum, sem fara inn á svona hluti, fari að verða ofurlítið hætt.

Ég hef gaman af sögu og hef oft lesið talsvert um þau efni. Þar virðist vera nokkuð algengt, þegar valdhafarnir fara að vinna óhæfuverk, að þeim verður steypt úr stóli. Við vitum t. d. um Hákon jarl í Noregi, sem var allra þjóðhöfðingja vitrastur, glæsilegastur í sjón og klókastur. Meðan hann breytti nokkurn veginn rétt og heiðarlega, vegnaði honum vel. Hann vann sigur í orrustum og hann varð vinsæll. Þegar hann fór að vinna óhæfuverk, taka konur af bændum og leggja hjá sér, þá var hann drepinn. — Ég hef stöku sinnum varað sjálfstæðismenn við, þegar þeir hafa ætlað að fara að gera miklar vitleysur. Nú vara ég þá við að fara inn á þessa braut að ætla að búa á misjafnan hátt að borgurum þjóðfélagsins. Það er ákaflega hættuleg stefna. Það getur vel verið, að þeir meini ekkert illt með því, en þetta er hættulegt, og Karkur getur alls staðar verið nálægur. (Gripið fram í: Hvernig fór fyrir Hákoni?)

Karkur rak hníf í gegnum barkann á honum og skar út úr, og Karkur hefur kannske ekki verið langt frá sjálfstæðismönnum í dag. Þeir mega vara sig á því að fara inn á þessa braut. En meðan þeir halda sig við réttlæti og heiðarleika, hugsa ég, að þeir lifi sæmilegu lífi. En þarna eru þeir að fara inn á hluti, sem ekki eru réttlátir og þeir vita þetta sjálfir.

Ég kom hér inn í verzlun til góðra kunningja minna. — Ég er ekkert illa kynntur hjá ýmsum sjálfstæðismönnum, eins og þið vitið. Þeir spurðu mig, hvernig það gengi með „mafíuna“. Þeir vissu, að þetta frv. var vísir að lítilli, íslenzkri mafíu, enda hugmyndin sótt til Ameríku.

Ég skil það vel, að þið getið ekki verið að fella þetta afkvæmi ykkar hér í d. Ég skil það vel, að þið látið þetta fara hér í gegn, og ég tel það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt. En þið eigið að svæfa þetta örverpi í Ed. Ef þið ekki hafið hyggindi til þess að gera það, getur ykkar saga endað líkt og þessa ágæta þjóðhöfðingja, Hákonar jarls. Hans örlög urðu þau, að þrællinn skar hann á háls, og ég vona, að það verði ekki örlög minna ágætu vina í Sjálfstfl.