24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki hér á síðustu annríkisdögum hv. d. koma með neina doktorsritgerð um þetta frv. eins og hv. form. fjhn. las hér áðan, en örfá orð vildi ég þó segja um þetta mál fyrir hönd okkar þriggja fjhnm., er stöndum að sérstöku nál. á þskj. 586 og erum andvígir þessu frv., teljum enga ástæðu til þess, að það hljóti samþykki hæstv. Alþ. Ég vil að vísu strax taka fram, að ég get helzt lekið undir ýmislegt af því, sem hv. form. fjhn., sagði um þau vandamál, sem sköpuðust við EFTA-aðild okkar, m. a. að hún gerði kröfu til allt annarrar hagstjórnar en við höfum búið við hér á undanförnum árum og breytingar fyrirtækja, betri nýtingar fjármagns og annars slíks. Um þetta er ég honum alveg sammála og reyndar ýmislegt annað, sem hann sagði, en mér fannst lítið koma þessu sérstaka máli við, sem hér er til umræðu.

Ef við athugum þetta frv., eins og það liggur fyrir, er það ljóst í sambandi við 1. gr. frv., þar sem ákveðið er, hvert verksvið Fjárfestingarfélagsins eigi að vera, að þar eru engin þau ákvæði, sem á nokkurn hátt stangast á við íslenzk lög, og til þess þarf engar lagasetningar að setja af hálfu hv. Alþ., að það sé hverjum fullmyndugum fjárhagsaðila í landinu mögulegt og leyfilegt að stofna félag í þeim tilgangi, sem þar greinir. Í 1. gr. segir m. a., að verkefnin eigi að vera þau og tilgangi sínum eigi félagið að ná með því að fjárfesta í fyrirtækjum, og er auðvitað um það að segja, að rétt til þess hafa allir, sem hafa fé og vilja verja því til fjárfestingar í fyrirtækjum, skv. íslenzkum lögum.

Í öðru lagi á verkefnið að vera að útvega lán, ábyrgjast lán og síðast en ekki sízt að veita lán til atvinnufyrirtækja, þó með þeim fyrirvara, sem enginn annar fjárfestingarsjóður í landinu hefur, að þar á aðeins að vera um að ræða að greiða fyrir fyrirtækjum, sem þetta Fjárfestingarfélag á hlut að eða beitir sér fyrir. Hér er engum blöðum um það að fletta, að eitt meginverkefni þessa Fjárfestingarfélags á að vera það að vera nýr fjárfestingarlánasjóður, en starfsemi hans á aðeins að binda við þau fyrirtæki, sem forgangsaðilarnir og þeir, sem því ráða, hafa velþóknun á.

Í þriðja lagi á hlutverk félagsins að vera það að taka þátt í rannsóknum á atvinnunýjungum og tilraunum með þær og annast tæknilega og viðskiptalega ráðgjafarþjónustu. Enginn bannar mönnum að bindast frjálsum samtökum, í hvaða formi sem er, til þess að vinna að slíku. En niðurstaðan er sú, að á öllum þeim sviðum, sem 1. gr. frv. fjallar um, er um að ræða verkefni, sem fjölmargir aðilar í landinu fást við, fleiri en ég er hér viðbúinn upp að telja. Þetta gera sjálfsagt margir þessir aðilar með ófullnægjandi hætti, eins og frsm. meiri hl. sagði, en samt er unnið að því, eftir því sem starfskraftar og fjármagn fást til þeirra hluta, sem þessum aðilum er ætlað að fást við.

Ég held, að það sé ekki vandamál, eins og hv. frsm. meiri hl. vildi vera láta, að sjóðirnir væru of margir í landinu, sem hefðu það verkefni með höndum að veita stofnlán, og vandinn sé ekki sá, að við höfum ekki nægilega margar úthlutunarnefndir og úthlutunaraðila til þess að dreifa því fjármagni, sem þjóðin hefur yfir að ráða í formi sjóða og í bankakerfinu. Ég held einmitt, að höfuðvandi okkar, til þess að betri nýting fáist á það fjármagn, sem þjóðin hefur yfir að ráða og fjárfestingarsjóðir hennar og lánakerfi hafa yfir að ráða, sé sá, að það sé í allt of margra höndum, þar sem það vill oftast nær verða, ef svo háttar málum, að hægri höndin veit ekki, hvað sú vinstri gerir. Mönnum er kannske hjálpað út í miðja ána og þeir svo skildir þar eftir. Það er byrjað á rekstri fyrirtækja, stórum sem smáum, án þess að í upphafi hafi á nokkurn fullnægjandi hátt verið séð fyrir fjármagnsþörf þeirra. Ég held einmitt, að stefnan í þessum málum ætti miklu frekar að vera sú, að einfalda allt lánakerfið og bankakerfið. Ég teldi það eina mestu framförina og kannske eitt af því, sem auðveldaði okkur að njóta EFTA-aðildarinnar sem skyldi, að hér væri settur á laggirnar einn fjárfestingarbanki, sem sameinaði innan sinna vébanda flesta eða jafnvel alla fjárfestingarsjóði, sem við höfum í landinu. Ég held þess vegna, að við séum síður en svo bættari með það, þó að við bætum einum nýjum fjárfestingarsjóði við og þegar þess er sérstaklega gætt, sem ég síðar skal aðeins koma nánar að, að höfuðfjármagnið, sem nýi fjárfestingarsjóðurinn á að hafa yfir að ráða, er tekið af öðrum vanmáttugum fjárfestingarsjóðum í landinu. Það er staðreynd, sem engum dylst, sem frv. les.

Varðandi rannsóknarstarfsemi atvinnuveganna, þá höfum við lögfest um það hér á Alþ. mjög mikið og flókið kerfi. Við höfum Rannsóknaráð og við höfum fjölda stofnana, sem eiga að þjóna hinum einstöku atvinnugreinum í þessum efnum. Við höfum Iðnaðarmálastofnun, sem á að vera ráðgjafi í fjárhagslegum og tæknilegum efnum, og við höfum fjölda annarra stofnana undir yfirumsjón Rannsóknaráðs til þess að annast leiðbeiningaþjónustu í sambandi við landbúnað, iðnað, sjávarútveg o. s. frv. Ætla ég ekki að þreyta menn á því að lesa upp nöfn allra þeirra stofnana, sem um það fjalla. En að þessu leyti er spurningin í sambandi við þetta frv. að mínu viti þessi: Eru þessi verkefni betur komin í höndum enn eins nýs aðila, eða styður hann örugglega það, sem fyrir er? Ég segi, að svarið við því gæti e. t. v. verið játandi, ef þeir aðilar, sem ætla sér fyrst og fremst að standa að þessu Fjárfestingarfélagi, kæmu með nýtt fjármagn, sem þeir hafa hingað til veitt í óarðbærari og ónytsamari hluti en þetta. En það er nú svo, að flestir þessir aðilar hafa ekki látið afskaplega mikið af því á undanförnum árum, að þeir væru aflögufærir. Mér sýnist helztu aðilarnir vera þeir, sem mest þurfa sjálfir á lánum að halda og fá í sinn hlut mjög verulegan, ef ekki einn stærsta hlutann af lánsfjármagni þjóðarinnar. Þeir eru þess vegna vissulega ekki neitt líklegir til þess að koma með eitthvað nýtt fé, sem þannig gæti verið stuðningur við þá starfsemi, sem fyrir er í landinu.

Eins og ég vék að áðan, þá er í 1. gr. frv. raunverulega ekki um að ræða nein laganýmæli, sem þörf er á að setja, vegna þess að allt, sem þar stendur, er hægt að framkvæma án þess. En laganýmælin, sem í þessu frv. felast, eru fyrst og fremst í 3. gr., þar sem ákveðnum aðilum, þ. e. a. s. Verzlunarráði, Félagi ísl. iðnrekenda og SÍS, er falin forsjá þessa félags og forganga, og í öðru lagi er það nýmæli og mjög athyglisvert, að það er ætlazt til þess, að félagið verði fyrst og fremst fjármagnað af einkabönkum, opinberum sjóðum og með almennu hlutafjárútboði, eins og segir þar. Og kem ég þá enn að því, sem ég sagði áðan, að ég sé ekki, að það geti verið nokkur bót að því, ef einhverjir opinberir sjóðir kynnu að fallast á það, — sem ég vil reyndar segja, að mér finnst ákaflega ólíklegt, að þeir muni gera í nokkrum verulegum mæli, — að fá enn einum nýjum aðila úthlutunarvaldið í hendur. Þá er ekki líklegt, að út úr þessu komi stórir hlutir, en þótt þeir kæmu, þá yrðu þeir eingöngu til þess að skerða það, sem þegar er fyrir, og þá lánastarfsemi, sem þegar er til í landinu.

Um almennt hlutafjárútboð vil ég segja það, að ég vil að vísu ekki líkja því við almennt hlutafjárútboð eins og var t. d. í sambandi við Almenna útgerðarfélagið hérna í fyrra. Ég vil ekki gera það. En mér finnst afar ólíklegt, að þetta fyrirtæki fengi það traust hjá almenningi, a. m. k. í fyrstu, að sparifjáreigendur yrðu mjög fúsir til að leggja í það fé. Til þess að það væri aðgengilegt eða líklegt, þá þyrfti þetta félag að sanna það með nokkurra ára reynslu a. m. k., að það væri gróðafélag, sem skilaði meiri arði en sparifjáreigendur gætu fengið með öðrum hætti. En ef út á þá braut væri farið, sem reyndar virðist ekki vera ólíklegt, sýnist mér hæpið, að þeim fallega tilgangi, sem lýst er í 1. gr., verði náð.

Þriðja nýmælið í þessu frv. er svo það, að þetta einstaka þriðjungaskiptahlutafélag, — ég verð nú að segja, að allur tilbúnaður í sambandi við þetta frv. minnir mig á helmingaskiptapólitíkina, sem rekin var hér á samstarfsárum Framsfl. og Sjálfstfl., — að þetta eina væntanlega gróðafélag í landinu á að njóta skattfrelsis um fjölda ára samkv. 6. gr. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það. En í fyrsta lagi sýnist mér, að öllum hljóti að vera auðsætt, að í því felst stórkostleg mismunun, sem aðrir fjármálaaðilar í landinu mundu illa þola og það ekki að ástæðulausu, og í raun og veru engin rök fyrir því, að slíkt skattfrelsi sé gefið, þar sem um er að ræða hlutafélag, sem reka á í gróðavænlegum tilgangi. Eina frambærilega röksemdin, sem fyrir því gæti verið að gera slíka stofnun eða hlutafélag eða hvað sem við viljum kalla það skattfrjálst, er það, að hér væri eingöngu um fjárfestingarsjóð að ræða og ekkert annað.

Ég vil svo segja það, og ég hygg, að það sé líka skoðun þeirra, sem standa að nál. með mér, fulltrúa Framsfl. í fjhn., að það er ekkert nema gott um það að segja, ef þessir aðilar geta frá sjálfum sér eða með erlendum og heilbrigðum lánum bætt um fyrir þeim stofnunum, sem vinna að þeim sömu verkefnum og félaginu er ætlað að starfa að. En þó teldi ég, að það fé væri miklu betur komið í því kerfi, sem við nú höfum og er, eins og frsm. meiri hl. viðurkenndi, að mörgu leyti vanmáttugt vegna skorts á, ég mundi nú segja fyrst og fremst fjármagni, en hann nefndi einnig skort á starfskröftum. Og þetta mundi tryggja það alveg sérstaklega, að rannsóknarstarfsemin í landinu yrði í höndum yngri manna en nú væri. Nú held ég, að það sé staðreynd, sem hv. frsm. er sjálfsagt þó miklu kunnugra en mér, að rannsóknarstarfsemin í landinu er yfirleitt í höndum yngstu kynslóðar vísindamanna okkar. Það eru ekki nein ellimörk á þeirri stétt. Forusta Rannsóknaráðs er í höndum ungs manns og rannsóknamennirnir í öllum þeim stofnunum, sem um rannsóknirnar fjalla, tilheyra yngstu kynslóðinni, þeirri yngstu kynslóð, sem komin er til starfa á þeim vettvangi. Það kann vel að vera, að ýmislegt af þeim verkefnum, sem um er fjallað í þessu frv., hafi, eins og frsm. meiri hl. orðaði það, ekki verið leyst viðunanlega, en þó er það mín bjargfasta skoðun, að hér verði ekki um það bætt, að hér sé fyrst og fremst um það að ræða að mynda nýja stofnun á kostnað þeirra, sem fyrir eru.

Eitt nefndi hann þó, sem ætti að benda til þess, að það væri auðveldara fyrir enn einn nýjan aðila að fást við þessi mál, og það væri það, að tiltekin erlend lán væru auðfengnari til þessa sjóðs en annarra. Ég verð að játa, að ég er ekki það fróður, að ég geti fullyrt um þetta, en alla vega sýnist mér, að séu þær erlendu lánastofnanir, sem hann nefndi, þeim fordómum haldnar, að þær vilji frekar lána einkafyrirtækjum en opinberum sjóðum eða opinberum stofnunum, sem ríkið stendur á bak við, þá mundi það þó vera auðvelt fyrir þá forgönguaðila, sem að þessu Fjárfestingarfélagi ætla að standa, að fá þau lán og nota þau, án þess að þeim væru um leið veitt stórkostleg fríðindi umfram alla aðra fjármálaaðila í þessu landi. Mín skoðun er sú, að í raun og veru hafi það sjaldnast eða ekki verið okkar stóri vandi í sambandi við fjármagnsskort í landinu, að við höfum ekki getað tekið nægilega mikið af erlendum lánum. Ég held, að vandi okkar í þeim efnum sé fyrst og fremst fólginn í því, að við höfum ekki notað þau erlendu lán sem skyldi. Þau hafa í stöðugt auknum mæli og sérstaklega undir forustu þeirrar ríkisstj., sem nú ríkir, verið notuð til þess að fjármagna ýmsar opinberar framkvæmdir, sem þjóðin hafði áður og lengst af fjármagnað með samtímatekjum, og það tel ég vera eins og vera ber, þegar um óarðbærar fjárfestingar er að ræða. En allt öðru máli gegnir, þegar um er að ræða fyrirtæki og sérstaklega gjaldeyrisaukandi fyrirtæki, sem skila arði sínum aftur í erlendum gjaldeyri. En núv. ríkisstj. hefur ekki takmarkað sig við það, nema síður væri. Lántökur og fyrirhugaðar lántökur til algerlega óarðbærra, en í mörgum tilfellum óhjákvæmilegra framkvæmda hafa verið fjármagnaðar með þeim hætti.

Ég er þess vegna á því, að það sé hvorki nú í dag né verði í nánustu framtíð okkar höfuðvandi að fá erlent fjármagn til landsins, hvorki sem lánsfjármagn né áhættufjármagn í þeim mæli, sem þjóðin telur heppilegt og eðlilegt. Ég held, að okkar vandi verði fyrst og fremst fólginn í því að nota það fjármagn, sem við getum fengið, með sem allra mestu skipulagi og sem allra mestu viti. En fleiri aðila til þess að taka slík lán, til þess að úthluta því fé, sem þjóðin hefur yfir að ráða, tel ég vera spor í algerlega öfuga átt við þau markmið, sem m. a. frsm. fjhn. nefndi í upphafi máls síns, þ. e. a. s. þá hagstjórn, sem okkur er nú brýn nauðsyn að taka upp og alveg sérstaklega eftir að EFTA-aðildin er orðin staðreynd.