24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Kristján Thorlaclius:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki miklu við það að bæta, sem ég sagði í umr. hér áðan, og ekki heldur miklu að svara af því, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði hér um þau orð, sem ég viðhafði um samvinnuhreyfinguna. En ég vil enn vekja athygli á því, að frv. gerir ekki ráð fyrir samvinnufélagaformi í atvinnurekstri. Það má rétt vera og er vafalaust rétt, að það sé hvergi bannað í frv. að stofna til fyrirtækja með samvinnusniði. En tölul. í 1. gr. telja upp hlutverk félagsins á þann hátt, sbr. t. d. 2. lið, að félaginu er ætlað „að kaupa, eiga og selja hlutabréf í atvinnufyrirtækjum og skuldabréf þeirra.“ Og í 3. lið: „að greiða fyrir útgáfu hlutabréfa og skuldabréfa atvinnufyrirtækja með beinni eða óbeinni þátttöku í útboðum og annarri dreifingu á þeim.“ Í 4. lið: „að útvega, veita og ábyrgjast lán til atvinnufyrirtækja, sem félagið tekur þátt í eða beitir sér fyrir.“

Í öllum þessum liðum er gert ráð fyrir hlutafélagaforminu einu saman. Að vísu er í 1. lið gert ráð fyrir því með almennari orðum, að félaginu sé heimilt „að vera frumkvöðull að stofnun, endurskipulagningu og sameiningu atvinnufyrirtækja“. Í liðunum, sem á eftir koma, er svo gert ráð fyrir hlutafélagaforminu, en ekki öðrum formum.

Það má vel vera, að þetta sé misskilningur hjá mér, en ég get ekki skilið þetta frv. öðruvísi, enda hefur í öllum umr. um það komið fram, að hér sé um að ræða eins konar vísi að kauphöll, til þess að verzla með verðbréf, — hlutabréf í þessu tilfelli. Og ég fæ þess vegna ekki séð, að hv. þm. hafi á neinn hátt hrakið þau ummæli mín, að þessu Fjárfestingarfélagi er ekki ætlað skv. þessu frv. að vera til stuðnings samvinnufyrirtækjum.