25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Í tilefni af því, að beint var til fjhn. vissum tilmælum frá hv. 4. þm. Norðurl. e. í lok 2. umr., og svo með tilliti til þess, að vefengdar voru upplýsingar, sem hv. 7. landsk. þm. gaf við umr. um afstöðu Sambands ísl. samvinnufélaga til Fjárfestingarfélagsins, vil ég leyfa mér að upplýsa það, að ég sneri mér fyrst til varaformanns stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga, og voru þar hæg heimatökin, vegna þess að hann er hér í næsta herbergi við okkur, en það er hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson. En hann tjáði mér og leyfði mér að hafa það eftir sér hér, að það hefði verið samkvæmt ósk stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga, að frv. var breytt þannig, að gert var ráð fyrir Sambandinu sem forgangsaðila. Um hitt kvaðst hann ekki mega fullyrða, hvort stjórnin hefði nú þegar tekið ákvörðun um aðild að Fjárfestingarfélaginu, en vísaði mér í því efni til framkvæmdastjóra Sambandsins, Erlends Einarssonar. Til hans hringdi ég svo í gærkvöld, og leyfði hann mér að hafa það eftir sér, að stjórnin hefði þegar samþ., að ef af stofnun félagsins yrði, þá yrði Samband ísl. samvinnufélaga þar meðal forgangsaðila.

Ég hygg, að þetta nægi til að sýna fram á það, að forustumenn Sambands ísl. samvinnufélaga líta öðrum augum á þetta frv. en fram kom hjá þeim hv. 11. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e.