24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

94. mál, almannatryggingar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða þmfrv., sem komið er frá Nd. og hefur verið samþ. þar ágreiningslaust. Samkv. tryggingalögunum, 16. gr., hefur tryggingaráð heimild til að ákveða, að greiddur sé barnalífeyrir með börnum einstæðra mæðra, ef móðirin er öryrki, en hins vegar er litið svo á, að lögin leyfi ekki að greiða barnalífeyrinn áfram, ef móðirin fellur frá. Þetta hefur væntanlega ekki verið tilætlun löggjafans og verður að telja, að þetta sé smíðagalli á lögunum, sem verður að lagfæra, og það er einmitt það, sem gert er hér með þessu frv.

Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn. Fyrir n. lágu meðmæli Tryggingastofnunar ríkisins með þessu frv. og n. mælir einnig með því, en þó hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. og styðja brtt., er fram kynnu að koma, enda hafa tveir hv. nm. flutt hér brtt. við frv. á þskj. 636. Ég get aðeins getið þess, að það náðist ekki samstaða um það innan n. að flytja þessar brtt., og var sú hugmynd, sem kemur þar fram, borin óformlega undir Tryggingastofnunina. Fékk hún ekki meðmæli þar, en hins vegar er rétt að taka það fram, að þetta var ekki sent skriflega til Tryggingastofnunarinnar, þannig að um þessa brtt. liggja ekki fyrir nein skrifleg ummæli þaðan. Brtt. er um efni, sem er auðvitað úr tryggingalögunum, en er ekki skylt þessu sérstaka ákvæði, sem frv. fjallaði um upphaflega.