24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

94. mál, almannatryggingar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Við hv. 4. þm. Sunnl. flytjum brtt. við þetta frv., sem hér er til umr., og er hún á þskj. 636 og er við 12. gr.l. um almannatryggingar. En síðasta mgr. 12. gr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Nú andast maður, sem frestað hefur töku lífeyris fram yfir 67 ára aldur, og lætur eftir sig maka á lífi, og skal þá hinn eftirlifandi maki til viðbótar eigin ellilífeyri eiga rétt á þeirri hækkun, sem hinn látni átti rétt á, vegna frestunar, sem átt hafði sér stað eftir 1. janúar 1961.“

Brtt. okkar er í því fólgin, að gera alla jafnréttháa gagnvart lögunum, hvort heldur þeir frestuðu töku ellilífeyris fyrir 1. jan. 1961 eða eftir þann tíma. Þessi breyting á lögunum mun ekki ná til margra, því að varla eru þeir margir nú á lífi, sem frestuðu töku ellilífeyris fyrir 1961. Ég sé heldur ekki, hvers vegna þeir aðilar eiga ekki að hafa sama rétt og hinir, sem fresta töku ellilífeyris eftir 1961. Þess ber líka að geta, að ellilífeyrir er nú ekki orðinn ýkjahár samanborið við þarfir hinna öldruðu, og hafa því máli verið gerð fyllilega skil hér í þessari hv. d. á yfirstandandi þingi, og skal ég því ekki koma nánar inn á það.

En ég vil benda á það í þessu sambandi, að á Alþ. í vetur er þegar búið að samþykkja þrjú frv. um breyt. á almannatryggingalögunum og þetta verður fjórða frv., sem verður samþ., — sem ég geri ráð fyrir, að verði, því að n. mælir öll með frv., enda þótt við flytjum hér brtt. tveir, sem erum í n. Og auk þess liggja fyrir hv. Alþ. fjögur frv. í viðbót um breyt. á almannatryggingalögunum og ein þáltill. um endurskoðun laganna, þannig að það virðist sem það séu býsna mörg atriði í þessari löggjöf, sem þurfi endurskoðunar við, og býst ég við, að þessi löggjöf verði endurskoðuð, áður en langir tímar líða.

Eigi að síður fannst okkur ástæða til þess nú að flytja þessa brtt. í von um það, að hv. þd. og hv. Alþ. samþykki þá till., og ef svo illa fer, að hún verði ekki samþykkt nú, að hún lægi þá fyrir til athugunar, þegar nánari endurskoðun laganna fer fram.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta nú, en ég vænti þess, að hv. þdm. sé ljóst, við hvað er hér átt, þ. e. að allir eigi jafnan rétt, hvort heldur þeir hafa frestað töku ellilífeyris fyrir 1961 eða eftir þann tíma. Ég sé ekki ástæðu til að gera þarna upp á milli.