26.01.1970
Neðri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

2. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu síðasta þingmanns, sem talaði hér fyrir hönd heilbr.– og félmn., þá varð n. sammála um það að mæla með því, að þetta frv. yrði samþ., því að það er mjög til bóta fyrir alla lántakendur, sem eiga hlut að máli og byggt hafa í Breiðholti. Ég sé ekki ástæðu til að fara að hefja hér miklar umræður um Breiðholtsbyggingarnar, sem væri þó kannske freistandi í sambandi við þetta frv., sem liggur hér fyrir. Það hefur verið rækilega gert í þessari hv. d. af þdm. og væri einungis verið að lengja þingtímann, ef ég færi að endurtaka það, sem þar hefur komið fram. En hins vegar vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að ég hef leyft mér, ásamt hv. 9. þm. Reykv., að bera fram brtt. á þskj. 251 við þetta mál. Er breytingin við 1. gr., og leyfi ég mér að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

„a. Í stað „nýr stafliður“ komi: nýir töluliðir.

b. Aftan við gr. komi nýr töluliður, sem verði hinn 4., svo hljóðandi:

Heimilt skal veðdeild Landsbanka Íslands að veita lántakanda gjaldfrest í 2 ár, ef hlutaðeigandi hefur orðið fyrir fjárhagslegum áföllum vegna atvinnuleysis eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum“.

Í umr., sem fram fóru um þetta mál í Ed. og samkv. upplýsingum, sem hafa verið lagðar fram í þessu máli, þá hefur verið skýrt frá því, að Landsbankinn hafi farið vægilega í sakirnar við að innheimta afborganir og vexti hjá þeim aðilum, sem líkt stendur á hjá, eins og þeim, sem hér er talað um í frv. Það er það, ef menn hafa orðið fyrir atvinnuleysi eða alvarlegum veikindum, þá verði frestað að innheimta umsamdar afborganir og vexti, en við flm. teljum að það sé eðlilegra, að eins og málum er háttað verði þetta gert að lagaákvæði, í stað þess að það sé vegið og metið niðri í Landsbanka, hvort aðstæðurnar séu eins og sagt er og hvort þessi á að fá frest eða ekki. Þannig verði ákvæði í l., sem heimili það að fresta afborgunum og vöxtum, ef óviðráðanlegar orsakir hamla greiðslugetu lántakenda.