15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt hér, ásamt 10. landsk. þm. og 10. þm. Reykv., er um breyt. á l. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins.

Eins og þdm. er í fersku minni, voru gerðir í febrúar á s. l. ári samningar á milli sjómanna og yfirmanna á bátaflotanum og útvegsmanna, og í miðlunartill., er sáttasemjari ríkisins lagði fram til lausnar kjaradeilu yfirmanna á bátaflotanum og útvegsmanna 12. febr. 1969 og voru lögfestar 18. febrúar sama ár, fólst að aflatryggingasjóður greiðir nú hluta af fæðiskostnaði lögskráningarskyldra sjómanna. Til þess að standa straum af þessum kostnaði hét ríkisstj. að hlutast til um, að lagt verði 1% almennt útflutningsgjald á fob-verðmæti fiskafurða, sem greitt er útflutningsgjald af. Þetta gjald var svo lögfest á s. l. vori og er greitt til áhafnadeildar aflatryggingasjóðs. Það er greitt með þeim hætti, að sjómenn á bátum, sem hafa lögskráningarskyldu, fá greitt ákveðið gjald á hvern úthaldsdag þessara skipa og þá eftir stærð skipa í tveimur flokkum, en áhafnir báta, sem ekki hafa lögskráningarskyldu, eða báta, sem eru undir 12 rúmlestum, fá ekkert upp í sinn fæðiskostnað, enda var ekki deilt í þessum samningum um kjör þeirra, svo að þeir urðu því eftir.

Með flutningi þessa frv. leggjum við til, að áhafnir báta innan 12 rúmlesta fái einnig greiðslu upp í fæðiskostnað sinn, eins og áhafnir skipa, sem hafa lögskráningarskyldu, og leggjum til, að 85 kr. verði greiddar á úthaldsdag og á hvern áhafnarmann eins og er á skipum innan við 120 rúmlestir. Jafnframt því teljum við rétt, að setja skyldur á útvegsmenn þessara minni báta, því það má segja að það sé tryggt, að öll skip, sem hafa lögskráningarskyldu, taki hina frjálsu slysatryggingu, sem svo er kölluð, fyrir sínar áhafnir, en því miður hefur verið mikill misbrestur á því, að eigendur hinna minni báta hafi tekið slíkar slysatryggingar, því að enginn opinber aðili hefur getað fylgzt með því, þar sem ekki hefur verið um lögskráningarskyldu að ræða. Nú kann einhver að spyrja, hvers vegna við flytjum þá ekki frv. um það að lækka lögskráningarskyldumarkið, sem væri einmitt æskilegast að gera. En við fórum ekki þá leið, heldur þessa, að breyta lögum um aflatryggingasjóð, vegna þess að við teljum, að þó lögskráningarskyldan verði færð niður, þá muni verða misbrestur á því, að lögskráð verði á þessi minni skip, og því sé betra og skynsamlegra að sameina það, að menn fái fé úr þessum sameiginlega sjóði, en verði þá um leið að taka á sig ákveðnar skyldur í þessum efnum. Ég hygg, að með þessari aðferð sé langbezt tryggt, að þessar frjálsu tryggingar verði almennt teknar.

Enn fremur þykir okkur rétt að setja frekari skilyrði, eins og það að áhafnir þessara báta hafi fulla atvinnu af þessum störfum eigi skemmri tíma en 6 mánuði á ári, því að við ætlumst ekki til þess, að þeir, sem stunda veiðar á litlum bátum tiltölulega stuttan tíma og það oft meira sem sport heldur en aðalatvinnu, njóti þessa. Þess vegna setjum við þetta ákvæði inn í 1. gr. Frv. er flutt til þess að koma í veg fyrir, að það sé misræmi á milli báta, sem gerðir eru út á sömu veiðar á sama tímabili, þ. e. að áhafnir báta yfir 12 rúmlestir fái greiðslu upp í sinn fæðiskostnað, en á bátum, sem eru undir 12 lestum, þar fái áhöfnin enga greiðslu. Í einstaka verstöðvum við einstakar veiðar er hér um misræmi að ræða, sem hefur verið ákaflega illa séð og illa tekið af sjómönnum, en við teljum nú að sé leiðrétt, með því að samþ. þetta frv.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn. að lokinni þessari umr.