15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það var aðeins út af aths. hæstv. forsrh., að ég vildi segja nokkur orð. — Í sambandi við greiðslu til áhafnadeildarinnar við aflatryggingasjóð er nú farið eftir lögskráningu eingöngu, en nú vitum við það, að þó að lögskráð sé á skip, hamlar veður oft veiðum langtímum saman, svo að lögskráningarskyldan og lögskráningin ein gildir í þeim efnum, enda eru menn þá ráðnir til þeirra starfa, þó að þeir kannske borði ekki um borð hvern dag. En í sambandi við þá breytingu, sem við leggjum til að gerð verði, tökum við í raun og veru upp enn þrengra skilyrði gagnvart hinum minni bátum, bátum neðan við lögskráningarskylduna, þar sem það er háð því, að trúnaðarmenn Fiskifélags Íslands staðfesti bæði úthaldsdagafjöldann og áhafnarstærð. Nú verður maður að ætla að trúnaðarmenn Fiskifélagsins staðfesti aldrei annað en það, sem er satt og rétt, og sömuleiðis hitt, að frv. gerir ráð fyrir, að þetta sé ákaflega takmarkaður fjöldi skipa, sem kemur til með að auka tiltölulega lítið útgjöld áhafnadeildar aflatryggingasjóðs, sérstaklega vegna þess að yfirleitt er útgerð báta af þessari stærð svo stuttan tíma af árinu, að þeir eru tiltölulega mjög fáir, sem eru gerðir út í 6 mánuði eða lengur. Yfirleitt eru þessir litlu bátar, 5–7 eða 8 tonna bátar, gerðir út yfir hásumarið og þá kannske 3–4 mánuði, og til þessa nær þetta frv. ekki.

Hins vegar má aftur segja, eins og ég nefndi áðan, að það sé auðvitað hróplegt misræmi, þegar bátar, sem eru gerðir út og menn hafa aðalstarf af, — þá verður mér hugsað til báta eins og t. d. rækjubáta bæði á Ísafirði, við Arnarfjörð, við Húnaflóa og víðar, sem eru gerðir út meginhluta vetrar, en eru gerðir út á handfæraveiðar yfir sumarmánuðina, — þessir bátar eru með það langan úthaldstíma, flestir hverjir með um 9 mánuði, sem eru einmitt þau takmörk, sem t. d. Vátryggingarsjóður setur um greiðslur af iðgjöldum skipanna, að ég tel, að ef báturinn er undir 12 tonnum, þá sé það auðvitað misrétti að áhafnir þess báts fái ekki upp í fæðiskostnað eins og áhafnir báta, sem eru yfir 12 rúmlestir. Það er einmitt þetta misræmi, sem við erum að reyna að leiðrétta og við teljum að kosti tiltölulega lítið. Hitt er svo alveg rétt og auðvitað þörf ábending hjá hæstv. forsrh., að það er aldrei hægt að segja um það fyrir fram, hvort þessar tekjur nægi til þess að standa undir tilteknum útgjöldum, en það, sem lagt var til grundvallar, þegar þessi löggjöf var sett í fyrravor, var 1% af fob-verði útfluttra sjávarafurða, sem þá var talið að mundi nægja til þess að inna þessar greiðslur af hendi. Úr því að það var talið nægja að setja 1% gjald á þá, tel ég, að það muni nægja eftir árið 1969, þegar varð töluverð aukning afla og það hefur komið meira í þennan sjóð heldur en reiknað var með. Það er hærra fiskverð og hærra afurðaverð, sem gerir það að verkum, að það á að koma meira inn í sjóðinn. En hitt er svo höfuðatriði málsins, að þeim, sem fiska á þessum bátum undir 12 rúmlestum, hefur verið gert að skyldu að greiða í þennan sjóð, eins og hinum, og það finnst mér vera höfuðatriði þessa máls og réttlæti, að þessi breyting sé gerð. Hitt er auðvitað alltaf erfitt að segja til um, hvort þessi tekjustofn nægi um langa framtíð, en þá er það auðvitað alltaf til athugunar að breyta þar um og auka féð, til þess að það hrökkvi fyrir útgjöldum úr þessum sjóði sem öðrum.