16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. um aflatryggingasjóð var vísað til sjútvn. hinn 15. jan. s. l. N. hefur athugað frv., en í því felst sú breyting, að áhafnadeild aflatryggingasjóðs verði gert skylt að greiða skipverjum á bátum undir 12 rúmlestum fæðispeninga.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við samningana um áramótin 1968 og 1969 var samið um, að skipverjum skyldi greiddur ákveðinn hluti af fæðiskostnaði og tekna til þess aflað á sérstakan hátt, með því að leggja 1% útflutningsgjald á útfluttar sjávarafurðir. Samningar þessir náðu til sjómannafélaganna innan Alþýðusambandsins, þ. á m. Sjómannasambandsins og Farmannasambandsins annars vegar og Landssambands ísl. útvegsmanna hins vegar. Þessir samningar náðu aðeins til báta yfir 12 rúmlestum, en eins og gengið var frá lagasetningu í sambandi við málið, voru skipverjum greiddar 85 kr. fyrir hvern fæðisdag á bátum upp að 100 lestum, en 100 kr. á bátum yfir 100 lestum. En þetta frv., sem flutt er af hv. þm., Matthíasi Bjarnasyni, Sverri Júlíussyni og Pétri Sigurðssyni, felur í sér þá breytingu, að þetta gildi einnig um sjómenn á bátum undir 12 rúmlestum. Það er nú þannig, að útflutningsgjaldið, sem ég talaði um áðan, nær einnig til þess afla, sem þeir bátar fá, þótt þeir væru í upphaflega frv. undanskildir með fæðisgreiðslur, þar sem ekki er lögskráð á þá báta.

Ég sagði áðan, að sjútvn. hafi fengið þetta til athugunar, og leitaði hún umsagnar 4 aðila, eins og fram kemur á þskj. 566, þ. e. a. s. Fiskifélagsins, sem fer með stjórn aflatryggingasjóðs eða afgreiðslu hans, en fiskimálastjóri er formaður sjóðsins og jafnframt formaður og framkvæmdastjóri Fiskifélagsins. Fiskifélagið gaf ýmsar upplýsingar um stöðu sjóðsins, en tók ekki efnislega afstöðu til brtt. þessa frv. M. a. benti það á, að það mundi koma til með að vanta tekjur í áhafnadeildina, ef þessi viðbót yrði samþ. Í frv. er gert ráð fyrir, að þetta verði greitt allt frá 19. febr. 1969, eða frá þeim tíma er þessi skipan var upp tekin. Þeir telja að það muni geta kostað bæði þessi ár, 1969 og 1970, 9–10 millj. kr. aukningu á útgjöldum áhafnadeildarinnar, ef frv. verður samþ. En m. ö. o., við getum gengið út frá því, að þessi aukning geti numið allt að 5 millj. kr. á ári.

Umsögn Sjómannasambandsins er jákvæð, en þeir leggja til, að til viðbótar því, sem segir í frv. á þskj. 184, þá verði eigendur 12 rúmlesta báta og minni skyldaðir til þess að kaupa líf- og örorkutryggingar, sem séu í samræmi við heildarkjarasamninga á milli sjómannasamtakanna og samtaka útvegsmanna.

Landssamband ísl. útvegsmanna fékk þetta einnig til umsagnar. Meiri hluti stjórnar þess mælti á móti samþykkt frv., og þó það komi ekki fram í bréfinu, þá get ég skýrt frá því, að aðalsjónarmiðið, er réð afstöðu þeirra, var, að smærri bátar taka frekar menn frá stærri bátunum, sem vissulega þarf að halda úti, og geta þess vegna stefnt útgerðarrekstri þeirra í hættu. En eins og ég sagði, voru um þetta skiptar skoðanir, en ég mæli eindregið með því, að þessi till., sem hér er fram borin, verði samþ., og vil einmitt benda á, að það, sem liggur til grundvallar, er í fyrsta lagi það, að þessir aðilar eru raunverulega skattlagðir eins og aðrir, og svo er einnig um það að ræða, að það er alltaf spurning um, hvar eigi að draga mörkin, þegar um slíkar lagasetningar sem þessa er að ræða.

Ég hef hér fyrir framan mig skýrslur frá 4 bátum. Einn þessara báta nær 12 lestum, á tímabilinu frá 19. febr. til 8. des. hefur honum verið haldið til veiða og sjóferðir eru 75. Þessi bátur á samkv. gildandi lögum að fá greiðslu. Svo kemur bátur, sem er 11.69 lestir. Honum er haldið til veiða á sama tíma. Hann hefur farið 96 sjóferðir, eða 21 sjóferð fleira en hinn, er ég áðan nefndi. Hann á engar bætur að fá, engar greiðslur í sambandi við þetta. Þriðja tilfellið er 10.2 lesta bátur. Þar er mjög svipaður úthaldstími. Hann byrjar aðeins fyrr og hans sjóferðir eru 82.

Nú er í frv. gert ráð fyrir því, að fæðiskostnaðargreiðsla fari eftir úthaldsdögum, og í frv. okkar þremenninganna var gert ráð fyrir, að það yrði nokkuð þrengra en hjá bátum yfir 12 rúmlestum. N. telur, að það sé fyrirbyggt að hinir svokölluðu sportfiskimenn geti fengið þessar greiðslur, heldur aðeins þeir, sem hafa atvinnu af þessu.

Hv. sjútvn. þessarar virðulegu d. hefur, eins og ég sagði áðan, athugað þetta mál mjög gaumgæfilega og leggur einróma til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, eins og segir á þskj. 566, með leyfi hæstv. forseta:

„Síðari hluti 1. gr. frv. á eftir orðunum „skemmri tíma en“ orðist svo:

5 mánuði á ári og eigendur þessara báta tryggi áhafnir sínar sömu slysatryggingum svo og líf- og örorkutryggingum, sem samið er um í heildarkjarasamningum sjómanna og útvegsmanna.“

Þarna er bætt inn líf- og örorkutryggingum, sem eru 400 þús. kr. á ári. Þessi kvöð verður sett á, ef þeir eiga að njóta þessara réttinda. Einnig breytti n. því, að í staðinn fyrir 6 mánuði, sem frv. gerði ráð fyrir, sé miðað við 5 mánuði. Það, sem þar réð mestu um, er, að það eru einmitt bátar af þessari stærð, sem sækja sjó t. d. frá Austfjörðum og til Langaness á sumrin, og eru þá oft og iðulega tvo og jafnvel þrjá daga úti í einu. Til þess að tryggt sé, að þeir komi undir þessi ákvæði, þá var þessi breyting gerð. Það má segja, að þarna sé vissulega nokkur þrenging frá því, sem nú er, samkvæmt fyrri ákvæðum eða þeim lögum, sem í gildi eru, en það er gert til þess að það séu eingöngu þeir, sem hafa af þessu atvinnu, en ekki þeir sem hlaupa í þetta af nokkurri sportmennsku, sem njóta þessa.

Ég er því miður ekki með orðalagið á samningnum um líf- og örorkutryggingar, sem ég ætlaði þó að hafa hér við höndina, en hann er prentaður í samningi, sem gerður hefur verið milli þeirra aðila, sem ég hef rætt hér um, og ber að líta á það orðalag sem skilyrði fyrir því, að þessi greiðsla verði innt af hendi, ef brtt. sú, sem n. flytur, verður samþ. og nær fram að ganga.

Að síðustu vil ég segja, að þegar samið var um greiðslu fæðispeninga til áhafna, þá var ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður þyrfti að greiða neitt í sambandi við það mál, heldur væri þetta eina prósent af útflutningsgjaldinu nægilegt til þeirra hluta. Það vita allir, að 1969 hófst vertíðin ekki á tilsettum tíma vegna deilu milli sjómanna og útvegsmanna, eða ekki fyrr en 19. febr., svo að þess vegna mun minni afli hafa komið á land heldur en ella hefði orðið og tekjur af þessu gjaldi árið 1969 urðu nokkuð lægri en þær hefðu þurft að vera. Nú liggur það ekki fyrir samkv. síðustu upplýsingum, sem ég hef fengið, hvað þetta eina prósent hefur gefið í tekjur, svo þess vegna er ekki hægt á þessari stundu að segja neitt ákveðið um það, hvort þessar tekjur muni hrökkva eða ekki. Þótt ríkissjóður hafi orðið að hlaupa undir bagga, með því að lána áhafnadeildinni, þá er það annars eðlis. En ég vil taka það fram, að það hefur ekki verið ætlazt til þess, að frá ríkinu kæmu peningar til þessara hluta, heldur væri þessi skattlagning látin duga.

Ég vildi taka þetta fram vegna þess, að ef það sýnir sig, að endurskoðunar þurfi við vegna þessa gjalds, þá getur það að sjálfsögðu komið til greina, en eins og ég hef þegar sagt, þá er ekki gert ráð fyrir því, að ríkið leggi sérstaklega í þessa deild aflatryggingasjóðs, þ. e. a. s. áhafnadeildina, heldur verði tekna aflað á þennan hátt og þá með breytingum til hækkunar, ef með þarf.

Herra forseti. Ég legg til fyrir hönd sjútvn., að brtt. á þskj. 566 verði samþ. og málinu síðan vísað til 3. umr.