20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem nú liggur fyrir til 3. umr., er um breyt. á l. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins og efni þess er, að áhafnadeild sjóðsins skuli greiða eigendum fiskibáta með þilfari, sem ekki hafa lögskráningarskyldu, hluta af fæðiskostnaði sjómanna þeirra báta, en samkv. lögunum, eins og þau nú eru, fá útgerðarmenn slíkra báta, þ. e. a. s. þilfarsbáta undir 12 rúml., ekki slíka greiðslu úr sjóðnum. Það hefur verið á það bent þessu til rökstuðnings, að af afla þessara báta séu inntar af hendi greiðslur í sjóðinn og sé því eðlilegt, að til þessara báta komi einnig greiðslur úr honum með þeim skilyrðum, sem nánar eru tilgreind í 1. gr. frv.

Nú vil ég leyfa mér að benda á það, að töluvert er gert út hér á landi af opnum vélbátum og af afla þeirra er greitt gjald í sjóðinn, en þessari útgerð opinna vélbáta er ekki ætlað skv. frv. eins og það nú er að njóta hlunninda.

Brtt. mín á þskj. 594 er þess efnis, að ákvæði frv. nái einnig til hinna opnu vélbáta, sem stunda fiskveiðar. Vil ég freista þess að fá hv. d. til að fallast á þetta, sem mér virðist sanngirnismál.