28.04.1970
Efri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér breyt. á l. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins þess efnis, að áhafnadeild aflatryggingasjóðs skuli greiða eigendum fiskibáta með þilfari, sem ekki hafa lögskráningarskyldu, hluta af fæðiskostnaði sjómanna þeirra báta, 85 kr. á úthaldsdag, þ. e. sömu upphæð og nú er greidd til minni fiskibátanna.

Svo sem kunnugt er, var við lausn samninga á bátaflotanum í byrjun árs 1969 um það samið, að aflatryggingasjóður skyldi greiða hluta af fæðiskostnaði lögskráðra sjómanna á bátaflotanum. Til þess að standa straum af þessum kostnaði, var ákveðið að leggja á 1% gjald af fob-verði útfluttra sjávarafurða, annarra en þeirra, sem koma frá hvalveiðistöðvum og selveiðum. Það má þá segja, að til áhafnadeildar greiði allir framleiðendur fiskafurða. En áhafnir báta, sem eru undir 12 smálestum, fá hins vegar engar greiðslur úr sjóðnum upp í fæðiskostnað. Að sjálfsögðu má um það deila, hvar mörkin skuli draga, en með þeim takmörkunum, sem þetta frv. kveður á um, varðandi þessa stærð báta, ætti að vera séð við því, að óeðlileg greiðsla til þátttöku í fæðiskostnaði eigi sér stað.

Þá hafa n. borizt erindi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Sjómannasambandi Íslands, þar sem þeir aðilar skýra frá því, að samkomulag hafi orðið um það við samningsgerð fyrir síðustu vetrarvertíð, að báðir þessir aðilar beittu sér fyrir því, að upphæðir þær, sem áhafnadeildin greiðir til þátttöku í fæðiskostnaði, skuli breytast, eftir því sem fæðisvísitala framfærslukostnaðar breytist, miðað við 1. jan. 1970.

Sjútvn. telur rétt að verða við þessari ósk samningsaðila og hefur því leyft sér að bera fram á sérstöku þskj. brtt. við frv., sem felur í sér slíkt ákvæði. Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, en vænti þess, að till. sjútvn. verði samþ. og frv., þannig breyttu, vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.