26.01.1970
Efri deild: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

138. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. og formaður sjútvn. hefur þegar skýrt frá, er ég út af fyrir sig meðmæltur þeirri breyt., sem felst í frv., sem hér er um að ræða, á l. nr. 79 frá 31. des. 1968 um ráðstafanir í sjávarútvegi.

Hins vegar kaus ég að skila sérstöku nál. til þess að leggja á það ríka áherzlu, að ég er mjög andvígur þeirri löggjöf frá 31. des. 1968 og tel hana mjög rangláta, enda þótt á henni verði gerð sú tiltölulega litla breyt., sem í þessu frv. felst. Ég skal í megindráttum vísa til þess nál., sem ég hef leyft mér að leggja fram og er á þskj. 238 og mun þess vegna ekki fjölyrða um þá löggjöf, en vil aðeins minna á, að hún er að mínum dómi hið mesta víti til varnaðar. Hún sýnir, að það getur verið og er varhugavert, þegar embættismenn eru látnir ráða of miklu við undirbúning viðkvæmrar löggjafar, þegar þar eru látnir ráða, að því er virðist öllu, bankastjórar, hagfræðingar og aðrir slíkir, oft sprenglærðir menn, en menn, sem eru auðsjáanlega, eins og dæmin sanna, vanari því að umgangast tölur og vélar heldur en lifandi fólk. Glöggt dæmi um þetta eru þau átök, sem urðu fyrir nokkrum dögum, einmitt í sambandi við tiltölulega nýja löggjöf héðan frá Alþ. um verðjöfnunarsjóð og þó einkanlega um framkvæmd þeirrar löggjafar.

Sú löggjöf, sem með þessu frv., sem nú liggur fyrir d., er lagt til að gerð sé nokkur breyting á, var sett í sambandi við breyt. á gengi ísl. krónu haustið 1968. Einn þáttur þessarar löggjafar var að raska mjög svo stórlega hlutaskiptafyrirkomulagi, sem gilt hefur á íslenzkum bátaflota bæði við síldveiðar og ýmsar aðrar veiðar. Með þeim l. var ákveðið, að greiða skyldi í stofnfjársjóð fiskiskipa 20% af brúttó söluverði afla og einnig skyldi greiða af óskiptu 10%, sem rynni til útgerðarmanna til þess að standa straum af kostnaði. – Ég bið afsökunar. Ég fer hér ekki nákvæmlega með réttar tölur. Það voru 10% í fyrsta lagi og svo 17% af fiskverði, sem að jafnaði var tekið, áður en hlutaskipti fóru fram til þess að standa straum af ýmsum útgerðarkostnaði og til þess að greiða í stofnfjársjóð fiskiskipa. Sem sagt, það voru að jafnaði 27%, sem tekin voru samkvæmt l. þessum af óskiptu og gat þó farið allt upp í 37% alls landaðs aflaverðmætis, sem þannig var tekið, áður en farið var að skipta sjómönnum út úr aflahlutnum.

Nú er ætlunin að gera lítils háttar breytingu á þessari löggjöf, þannig að í staðinn fyrir að taka 17% af fiskverði, áður en hlutaskipti fari fram, er nú ráðgert, að verði tekin 11 %. Ég er að sjálfsögðu fylgjandi þeirri breytingu. En ég vil leggja á það áherzlu, að eftir sem áður skulu tekin samkvæmt löggjöfinni frá í fyrra 21-31% af óskiptum afla, áður en farið er að skipta sjómönnum þeirra aflahlut.

Ég legg á það áherzlu, að ég tel þessa löggjöf frá siðasta ári mjög rangláta og hið eðlilega sé, að sjómenn og útgerðarmenn sitji eins og áður við sama borð, að því er snertir réttinn á verðmætinu fyrir aflann og það eigi að sjálfsögðu ekki að vera löggjafaratriði, heldur samningsatriði eins og löngum hefur verið, hvernig svo aftur á móti skiptahlutföllin á milli þeirra eru.

Það mun hafa komið fram í fyrra í sambandi við löggjöfina, sem þá var sett, að það væri nauðsynlegt að gera lagabreytingu, að dómi flm. frv. vegna þess, að sjómenn hefðu verið svo óbilgjarnir í samningum, að því er snerti skiptahlutföllin. Í því sambandi vil ég þó minna á það, að þeir höfðu ekki verið óbilgjarnari en svo, að þessi skiptahlutföll höfðu breytzt mjög verulega þá á allmörgum undanförnum árum, m.a. vegna breyttrar hagkvæmni um borð og breyttra veiðiaðferða, svo sem þegar hringnót var tekin upp á sínum tíma við síldveiðar í stað hinna gömlu og mannfrekari veiðiaðferða með tveimur nótabátum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég er fylgjandi þeirri breyt., sem þetta frv. gerir ráð fyrir og sömuleiðis þeirri brtt., sem n. flytur og ég tel eðlilega. En ég vildi ekki og gat ekki látið þetta tækifæri ónotað til þess að mótmæla hinum mjög svo ranglátu lögum frá í fyrra — þeim lögum, sem nú er verið að breyta lítils háttar.