26.01.1970
Efri deild: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

145. mál, sala Eystra-Stokkseyrarsels og hluta af Vestra-Stokkseyrarseli

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. það til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Eystra-Stokkseyrarsel og hluta af Vestra-Stokkseyrarseli, sem hér er til 1. umr.

Jarðir þær, sem hér er um að ræða, hafa verið í eyði um nokkurt skeið, en frú Anna Valdimarsdóttir, sem býr með börnum sínum ungum á eignarjörð sinni, Stekkum, hefur haft þær undir og nytjað þær hin síðari ár, enda liggja löndin vel við heimajörðinni. Þessi fjölskylda býr myndar búi og hefur með dugnaði og áhuga tekizt að koma upp byggingum og auka ræktun, svo að heimajörðin er helzt til þröng fyrir þann bústofn, sem svarar til húsakosts og ræktarlands. Hefur því komið í góðar þarfir að eiga þess kost að fá aukna bithaga í landi Stokkseyrarsels, enda allar framkvæmdir við það miðaðar, að sú skipan héldist.

Nú liggur það fyrir, að elzti sonur ekkjunnar er mjög hneigður til búskapar og dugandi maður í starfi, og hefur hún því hug á því, að tryggja frekar en orðið er rétt sinn til landsins, með því að festa kaup á því sér til öryggis og börnum sínum.

Þegar þetta mál er skoðað, er það að sjálfsögðu mikilvægt, að í heimabyggðinni sé sú ráðstöfun lands, sem hér er ráðgerð, talin eðlileg og að hinir kunnugustu menn sjái ekki á því annmarka. Í grg. með frv. er þess getið, að hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps hafi tjáð sig samþykka því, að frú Anna fengi jörðina keypta. En ég vil geta þess til skýringar, að Stokkseyrarsel er í Stokkseyrarhreppi. Nú hef ég fengið í hendur útdrátt úr fundargerðabók hreppsnefndar Stokkseyrarhrepps frá 1. nóv. 1969, og segir þar svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefndin samþ. samhljóða, að hreppurinn hafni forkaupsrétti sínum á Stokkseyrarseli, ef frú Anna Valdimarsdóttir gerist kaupandi að því.“

Að mínu viti sýnir orðalag þessarar samþykktar það, að hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps telur þessa ráðstöfun jarðarinnar þá eðlilegustu og sjálfsögðustu. Þá vil ég og benda á umsögn hreppsnefndar Sandvíkurhrepps, sem prentuð er með frv. sem fylgiskjal. Ég tel, að það styðji líka þá skoðun, að þessi sala jarðarinnar sé til hagsbóta fyrir búrekstur í Stekkum og því sjálfsögð og eðlileg.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til, að fjölyrða frekar um þetta frv., en leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.