10.12.1969
Efri deild: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu frv., sem ég flyt hér til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar. Frv. felur í sér þrjár breytingar á lögunum og þær eru allar mjög skýrar og auðskildar, þannig að þær miða allar að því að bæta úr tilfinnanlegu misrétti, sem nú er á rétti til bóta, en engan veginn neina endurskoðun á lögunum. Það mun vera svo, að til er starfandi nefnd, sem hafði verið skipuð í febrúar s. l. að mig minnir, til þess að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar, og mun hún sjálfsagt einhvern tíma skila áliti, en það hefur nú verið reynslan um endurskoðun á þessum lögum, að heildarendurskoðun, sem átti upphaflega að fara fram lögum samkv. fyrir 1958, hefur ekki enn þá séð dagsins ljós. Það hefur því samt reynzt nauðsynlegt öðru hverju, eftir því sem vankantar á lögunum hafa komið fram, að gera á þeim nokkrar breytingar, og álít ég þessar breytingar, sem fjallað er um í þessu frv., svo brýnar, að ekki sé efni eða ástæða til að bíða eftir þeirri heildarendurskoðun, sem kannske má vænta á næsta ári og e. t. v. síðar.

Þessar breytingar, sem hér er lagt til, að gerðar séu, eru í fyrsta lagi þær, að allir meðlimir sama verkalýðsfélags njóti óskoraðs réttar án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir á félagssvæðinu. Það kann nú reyndar einhverjum, sem lögunum eru lítið kunnugir, að þykja kynlegt, að svo skuli ekki vera, en því fer mjög fjarri. Svo að dæmi sé nefnt, skulum við taka Mosfellssveitina og Reykjavík. Það er auðvitað sama félagssvæði, verkamannafélagsins Dagsbrúnar, og þessir menn vinna yfirleitt á sama vinnustað. Til skamms tíma hefur það verið svo, að íbúar í Mosfellshreppi hafa ekki notið bóta. Þetta hefur að vísu verið leiðrétt nú samkv. þeirri gr. laganna, sem heimilar slíkar breytingar, en þetta sýnir aðeins, hversu lögunum er ábótavant í þessum efnum. En það voru miklu fleiri en Mosfellshreppurinn, sem lögin ná nú til, sem þarna er um að ræða. Þarna er yfirleitt um að ræða íbúa, er búa nærri svo að segja hverju einasta sjávarþorpi í landinu, sem hafa verið dæmdir frá bótarétti, vegna þess að þeir búa ekki í þorpinu sjálfu. Sjá náttúrlega allir, hvaða misrétti hér er um að ræða, þegar þess er gætt, að þetta fólk vinnur á sama vinnustað og er í flestum eða mörgum tilfellum gjaldskylt til sjóðsins.

Við skulum taka sem dæmi verkamann hér ofan af Kjalarnesinu eða úr Kjósinni, sem er félagi í Dagsbrún. Hann vinnur austur við Búrfell. Þar er borgað af honum fullt gjald til atvinnuleysistryggingasjóðs, og nú er honum sagt upp vinnunni ásamt félögum sínum í Dagsbrún. Þá nýtur hann engra bóta, meðan Dagsbrúnarmaðurinn, sem búsettur er í Reykjavík, nýtur fullra bóta. Sú þróun hefur líka verið nokkuð ör á síðustu árum, að félagssvæðin taka yfir stærra svæði en áður. Ég nefni þar dæmi frá minni heimabyggð við Eyjafjörð, þar sem má segja, að eitt félag almenns verkafólks nái yfir allt Eyjafjarðarsvæðið frá Ólafsfirði til Akureyrar, en á því svæði eru þorp, sem ekki ná íbúatölunni 300, a.m.k. þrjú slík, og engir verkamenn eða verkakonur á svæðinu njóta sama réttar og félagar þeirra í Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri. Skiptir þar engu, þó að þeir hafi mestalla sína vinnu á svæði, sem er gjaldskylt. Ég játa að vísu, að sú breyting, sem hér er lögð til, bætir ekki fullkomlega úr þessu misrétti, sem hér er um að ræða, því að auðvitað ræður þar hið takmarkaða frelsi. Ef fullt jafnrétti ætti að ríkja í þessum efnum, þyrftu atvinnuleysistryggingalögin að ná til allra verkamanna og verkakvenna í landinu. Hér er samt ekki gengið svo langt, heldur aðeins miðað við það, að þeir, sem eru í sama verkalýðsfélagi, njóti sama réttar, og atvinnurekendur hafa að sjálfsögðu sömu skyldu og viðkomandi sveitarfélög til þess að gjalda í sjóðinn.

Þessi breyting á sér nægileg rök, svo sem ég hef nú sagt, og vissulega hefur það ekki verið neitt skemmtilegt verk fyrir stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs nú undanfarna atvinnuleysisvetur að dæma þessa menn frá bótum.

Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir þeirri efnisbreytingu í frv., að ráðh. geti ákveðið, að lögin taki til svæða, sem hafa innan við 300 íbúa, ef sveitarfélagið, sem í hlut á, mælir með því og verkalýðsfélagið á staðnum æskir þess. Eins og nú er háttað þarf hér einnig að koma til samþykki vinnuveitenda. Í langflestum tilfellum, þegar sveitarfélög og verkalýðsfélög hafa óskað eftir, hefur ekki verið fyrirstaða frá atvinnurekenda hálfu í þessum efnum. Þó eru á þessu undantekningar, og allstórt sjávarþorp á Vesturlandi kemst ekki undir þessar bætur, jafnvel þó að sveitarfélög hafi óskað eftir því, verkalýðsfélög sömuleiðis og hæstv. félmrh. sé því áreiðanlega fylgjandi. Þarna strandar aðeins á einum atvinnurekanda og hann heldur málinu í sjálfheldu til stórtjóns fyrir íbúa staðarins og sveitarfélagið, sem í hlut á. (Gripið fram í.) Ég álít, að það sé ærin trygging fyrir því, að hér sé ekki farið út í neina vitleysu, ef hreppsnefnd í sveitarfélaginu, verkalýðsfélagið á staðnum og ráðh. eru allir sammála um, að lögin eigi að taka til staðarins, og eigi þá ekki að koma til neitunarvald atvinnurekandans.

En tilefni eru að vísu að því að þessi brtt. er gerð. Þau eru að vísu ekki mörg, en þetta tilfelli, sem ég nefndi, er mjög bagalegt og þarf tafarlaust úr því að bæta. Þá hafa verið miklar deilur og mikil vandkvæði um bótarétt þeirra manna, sem öðrum þræði stunda sjávarútveg, en þarna er um að ræða trillumenn og að verulegu leyti einnig verkamenn. Þarna eru skilin nokkuð óglögg um það, hvort þeir stunda verkamannavinnu að meiri hluta og öðlast þá bótarétt, þegar þeir verða atvinnulausir um stund, eða hvort þeir að meiri hluta stunda sjósóknina, sem venjulegast er þá á litlu eigin fari. Það eru ófáar klaganir, sem hafa komið út af þessu, og stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs hefur ekki talið sér fært með hliðsjón af lögunum annað en dæma þessa menn frá bótum, ef það hefur ekki verið fullsannað, að þeir hafi að meiri hluta unnið verkamannavinnu. Nú er auðvitað sá hængur hér á, að þessir menn eru ekki gjaldskyldir til sjóðsins, þegar þeir eru með sinn smáatvinnurekstur, og ef á að veita þeim einhvern bótarétt sem verkamönnum, þá verða þeir gjaldskyldir, ef þeir stunda sinn smárekstur. Nú er það svo, að þessi hópur manna ber oft mjög skarðan hlut frá borði, og er jafnvel mjög algengt, að þeir séu tekjulægri en verkamenn almennt. Þeir geta ekki af eðlilegum ástæðum stundað atvinnu sína sem smáútvegsmenn nema einhvern hluta úr árinu eða þar fellur a. m. k. mikið úr. Það sjá t. d. allir, að fyrir Norðurlandi mun ekki vera auðvelt að stunda útgerð á opnum bátum yfir háveturinn, þó að það sé nú gert að nokkru leyti, og þess vegna er ekki annars úrkosta fyrir þessa menn heldur en að skipta starfshlut sínum milli þessara tveggja starfsgreina.

Ég held, að sú lausn á málinu, sem ég legg hér til, sé vel framkvæmanleg, þ. e. a. s. sú, að smáútvegsmennirnir, sem róa á eigin fari og eru að nokkru leyti verkamenn, greiði gjald til sjóðsins eins og þeir væru atvinnurekendur, þegar þeir stunda slíka vinnu, en njóti þá bóta til jafns við aðra verkamenn, þegar þeir eru atvinnulausir.

Þá er hér einnig lagt til, til að auðvelda framkvæmd á þessu, að hver róðrardagur sé reiknaður sem vinnudagur, þegar grundvöllurinn er ákveðinn.

Ég ætla, að þessi fáu orð, sem ég hef nú sagt um þessa þrjá tilfinnanlegu vankanta á lögunum, muni nægja til þess að menn skilji, hvað hér er um að ræða. Þetta er að vissu leyti stórt mál. Þetta tekur sennilega frekar til þúsunda heldur en hundraða af mönnum, sem með alveg óeðlilegum hætti hafa verið sviptir bótarétti, og ég hugsa, að ef löggjafinn hefði í upphafi skoðað þetta niður í kjölinn, þá hefði þetta ákvæði, sem fyrirbyggir svona misrétti, verið sett inn í lögin upphaflega.

Ég endurtek það svo, að þrátt fyrir það að starfandi sé endurskoðunarnefnd laganna, þá höfum við slæma reynslu af, hvað slíkar nefndir eru lengi að störfum, en málið hins vegar aðkallandi. Það varðar m. a. afkomu þessara manna nú á þessum vetri. Ég vona, að hv. þd. fallist á að samþykkja þessar breytingar, og ætti það ekki að þurfa að brjóta neitt í bága við það endurskoðunarstarf, sem nú er verið að vinna.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.