07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. og er flutt til breyt. á 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lög um atvinnuleysistryggingar hafa verið svo til óbreytt hvað snertir ákvæði um réttindi og þau ákvæði, sem þetta frv. fjallar um, frá því að þau voru sett á árinu 1956. Á s. l. þingi var þó gerð allveruleg breyting á þessum lögum hvað snertir bótarétt atvinnulausra manna. Það hefur komið í ljós, að það er ýmislegt í þessum lögum, sem gjarnan mætti vera á annan veg. Reynsla af framkvæmd þeirra hefur fyrst og fremst orðið á s. l. 2 árum, þegar hér í fjölmenninu sérstaklega varð allverulegt atvinnuleysi og einnig í landshlutum, sem atvinnuleysi hefur ekki áður snert um áraraðir.

Ég ætla ekki að ræða almennt um lögin en vil aðeins geta þess, að þær breytingar, sem samþ. voru á þinginu í fyrra, voru undirbúnar af sérstakri nefnd, sem fékk það verkefni, að endurskoða lögin einmitt í ljósi þeirrar reynslu, sem á framkvæmd þeirra var komin. Þessi nefnd skilaði aðeins hluta af sínu verkefni í fyrra. Hún hefur nú í vetur haldið áfram störfum sínum. Það má kannske segja, að það sé viðkvæmari og vandasamari hluti laganna, sem hún hefur fjallað um nú í vetur, en engu að síður eru þó ýmis atriði, sem náðst hefur nokkurn veginn samkomulag um, að breytt verði. Þar á meðal er það ákvæði, sem hér um ræðir.

Í 1. gr. þessa frv. segir, að ákvæði laganna skuli taka til atvinnurekenda, verkalýðsfélaga og meðlima þeirra í kaupstöðum og kauptúnum með 300 íbúum og fleiri, svo og til atvinnurekenda og meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag, sem nær til kaupstaða eða kauptúna, sem telja 300 íbúa eða fleiri. Hér er verið að koma til móts við nokkurn vanda, sem orðið hefur á framkvæmd laganna. En að mínum dómi leysir þetta mjög lítinn hluta þess vanda, sem um er að ræða. Það er svo, að lögin taka nú til kaupstaða og kauptúna með 300 íbúum eða fleiri, og síðan geta kaupstaðir eða kauptún, sem fámennari eru, ef þau uppfylla viss skilyrði, fengið sérstakt leyfi ráðh. til þess, að lögin nái líka til þeirra. En vandinn, sem við hefur verið að etja, er sá, að hvort heldur sem um er að ræða kaupstaði, og þar með talin Reykjavík, eða kauptún með fleiri eða færri íbúa en 300, þá liggja yfirleitt sveitahreppar að þessum stöðum, þar sem er vinnandi fólk, fólk sem er í verkalýðsfélögunum í viðkomandi kaupstað eða kauptúni, en á engin réttindi nema því aðeins að atvinnurekendur á þessu svæði, viðkomandi sveitarstjórn og verkalýðsfélag hafi óskað eftir, að þau næðu einnig til þessara sveitahreppa. Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi, þar sem þessi vandi hefur komið upp. Þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir því að leysa þann vandann, sem snýr að því, að þetta skuli einnig ná til kauptúna, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag, sem nær til kaupstaða eða kauptúna, sem telja 300 íbúa eða fleiri. Þetta leysir sem sagt ekki nema mjög lítinn hluta þess vandamáls, sem við er að eiga.

Sú nefnd, sem ég áðan gat um og hefur haft lögin til endurskoðunar í vetur, hefur gjarnan viljað líta nokkurn annan veg á þetta mál. Ekki vil ég þó fullyrða, að það sé fullt samkomulag um það að afnema þau mörk, sem eru í lögunum, með öllu og láta þau ná til allra, sem á annað borð vinna þau störf, sem tryggingarskyld eru; fá sem sagt að fella niður þessar takmarkanir, sem í lögunum hafa verið. Þetta mundi að litlu leyti bæta um.

Ég vildi geta þessa, áður en þetta frv. fer til n., en að mínum dómi leysir þetta ekki nema sáralítið af þeim vanda, sem mér skilst raunar að hafi verið ætlunin að það ætti að leysa.

Um 2. gr. frv. vil ég út af fyrir sig ekki segja mikið, en bendi á það, að það eru ýmsar aðrar starfsgreinar, þar sem svipað er ástatt um menn og þá, sem stunda sjósókn á eigin fari hluta af árinu. Þessi nefnd, sem ég gat um, hefur einnig haft þetta mál til meðferðar, og gert sér sínar hugmyndir um lausn þess. Þær eru að ýmsu leyti svipaðar því sem hér um ræðir, en ekki er endanlega gengið frá því, og ekki heldur öðrum atriðum. Ég vildi gjarnan óska þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, kynnti sér betur þann vanda, sem við er að eiga, og þær hugsanlegu lausnir, sem að mínum dómi er í raun og veru samkomulag um, að gætu orðið.