27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir þremur breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar. Breytingarnar eru við 4. gr. gildandi laga og eru í fyrsta lagi um það, að meðlimir eins og sama verkalýðsfélags skuli allir njóta sama réttar, án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir á félagssvæðinu. Þetta atriði varðar nokkuð mörg verkalýðsfélög hér á landi, einkanlega þau, sem á seinni árum hafa víkkað út félagssvæði sitt og ná yfir bæði kaupstaðabyggð og strjálbýli. En við það hefur það komið í ljós, að félagsmenn utan þéttbýlissvæðisins, þó að þeir séu í sama verkalýðsfélagi, hafa ekki orðið aðnjótandi allra sömu réttinda og þeir, sem í þéttbýlinu bjuggu. Þessu fyrsta ákvæði er ætlað að ráða bót á þessu, þannig að allir meðlimir sama stéttarfélags njóti sama réttar, án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir á félagssvæðinu, og sýnist mér, að það sé nauðsynleg breyting.

Í öðru lagi er svo með þessu frv. lagt til, að ráðh. geti ákveðið, að lögin taki til svæða eða byggðarlaga, sem hafa innan við 300 íbúa. Það er að vísu heimilt nú í gildandi lögum, ef sveitarfélagið, sem í hlut á, mælir með því og verkalýðsfélagið á staðnum æskir þess, þó að atvinnurekendur hins vegar leggi ekki samþykki sitt á það. Þeir hafa nú í raun og veru, eins og lögin eru, neitunarvald um þetta, og þó að þeir hafi almennt fallizt á, að atvinnuleysistryggingarnar skyldu taka til byggðarlaga með færri en 300 íbúa, ef sveitarstjórn og verkalýðsfélög hafa óskað þess, eru þó til dæmi um það, að þeir hafi streitzt á móti og þannig í raun og veru beitt neitunarvaldi um þetta. Það er ekki gott, því það sviptir íbúana réttinum til að njóta atvinnuleysisbóta og í raun og veru atvinnureksturinn líka að fá fjármagn inn í byggðarlagið, sem oft hefur verið veitt, t. d. til hafna, í lánsformi og jafnvel til þess að treysta grundvöll atvinnulífsins.

Í þriðja lagi er svo fólgin breyting í 2. gr. þessa frv., um að tryggja þeim trillubátamönnum, smáútvegsmönnum, sem bæði stunda smábátaútgerð og róa á eigin fari og eru einnig verkamenn, þó að þeir stundi ekki verkamannavinnu að meiri hluta, rétt til að koma undir atvinnuleysistryggingarnar, enda er líka ákvæði í frv. um það, að þeir verði gjaldskyldir til atvinnuleysistrygginganna. Þegar frá því er gengið á þann hátt, þá sýnist ekki vera rétt að útiloka menn, sem ýmist eru vinnandi á sjó eða landi og gera það aðeins á eigin fari, og að þeim sé gert það að skyldu til þess að njóta réttindanna, að vera að meiri hluta verkamenn í landi. Þá kæmi það í ljós, að það yrðu að teljast agnúar á gildandi löggjöf. En við vitum, að það er mýmargt annað, sem þyrfti að breyta í atvinnuleysistryggingalögunum. Nú er nefnd að athuga lögin í heild, en þetta er vandasamt verk og endurskoðuninni hefur ekki verið lokið enn þá, og var þó gert ráð fyrir í upphafi, að lögin yrðu endurskoðuð eftir tveggja ára reynslu af þeim.

En þessi atriði held ég, að séu öll þannig vaxin, að enginn ágreiningur geti verið um þau, og mælir n. með því, að frv. verði samþ. Það hefur þegar hlotið samþykki hv. Ed.