27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég held að aths. hv. 4. þm. Austf. byggist á misskilningi. Ég tel, að orðalagið, eins og það er í 1. gr. frv., nái til allra meðlima verkalýðsfélaga, sem eru þannig sett, að félagssvæðið nær bæði yfir kaupstað eða kauptún og sveitarbyggð. Frv. er einmitt ætlað að leiðrétta þetta, að því er snertir t.d. meðlimi Dagsbrúnar, sem hafa ekki notið atvinnuleysisbóta, er þeir bjuggu hér uppi á Kjósarsvæðinu. En verkalýðsfélagið Esja í Kjós var lagt undir Dagsbrúnarsvæðið fyrir nokkrum árum, og þetta misrétti hefur síðan átt sér stað fram að þessu. En eins og orðalagið er, þá tel ég, að það sé alveg ótvírætt, að það á að ná til meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum og kaupstöðum, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag, og það á að ná til allra meðlimanna. (LJós: Já, í kauptúnum.) Nei, það félag, sem er í kauptúni eða kaupstað, á að ná til allra félaga þess félags. — Jú, jú, það er enginn vafi á því, að orðalagið, eins og það er, er einmitt miðað við að auðvelda það, að allir meðlimir sama verkalýðsfélags njóti sama réttar.

Ég mundi þess vegna vilja fara þess eindregið á leit við hv. flm. till. að taka hana aftur, því ég sé ekki annað en málinu sé stefnt í fullkomna tvísýnu, ef ekki algerlega um það séð, að það verði ekki samþykkt á þessu þingi, því þá yrði það að fara aftur til Ed., sem þegar hefur afgr. það. En orðalagið er þannig, að það er ætlazt til þess, að orðalag 1. gr. taki til félaga, sem bæði ná yfir kauptún, eða kaupstaðar- og sveitarbyggð, eins og t. d. Esju, — þ. e. verkamannafélagið Dagsbrún nær yfir þéttbýlið hér á Reykjavíkursvæðinu og einnig upp í Kjós. Frv. er líka flutt með tilliti til félaganna við Eyjafjörð, sem eru bæði í kauptúnunum þar og Akureyrarkaupstað og út um sveitabyggðirnar. Ef verkalýðsfélag er á þessum stöðum, þá á rétturinn að ná til allra meðlima viðkomandi verkalýðsfélaga.

1. gr. er aðeins um réttinn í kauptúnunum. Ákvæði þessara laga taka til „atvinnurekenda, verkalýðsfélaga og meðlima þeirra í kaupstöðum og kauptúnum, með 300 íbúum eða fleiri, svo og til atvinnurekenda og meðlima verkalýðsfélaga“, hvar sem þeir eru búsettir á félagssvæðinu, „í kauptúnum, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag, sem nær til kaupstaða eða kauptúna, sem telja 300 íbúa eða fleiri“, og þar með jafnvel til Reykjavíkur, — kaupstaða eða kauptúna, sem hafa fleiri en 300 íbúa. Það nær til allra á félagssvæðunum. Það er alveg greinilegt. Þetta er bara misskilningur á orðalagi frv. Það er flutt til þess að bæta úr þessu misrétti, að það séu ekki sumir réttlausir á félagssvæði Dagsbrúnar og sumir á félagssvæði verkalýðsfélaganna við Eyjafjörð og víðar, sem hafa á seinni árum stækkað félagssvæði sín. Og ég fullyrði það, að þessi ákvæði, eins og lögin eru orðuð nú, ná til allra meðlima þessara verkalýðsfélaga, hvort sem þeir eru búsettir utan þéttbýlis á félagssvæðinu eða innan. Það nær til allra meðlima þessara félaga, hvort sem þeir eru búsettir í bænum, kauptúninu eða í sveitabyggðinni, og þess vegna tel ég, að brtt. hv. þm. byggist á misskilningi og sé óþörf, en stofni hins vegar frv. í hættu, af því að nú er komið að síðustu dögum þingsins.

Ég endurtek því ósk mína til hans um það, að taka till. aftur, því ég held, að hennar sé ekki þörf, þó hann telji, að 1. gr. verði þannig skýrar orðuð.