27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil ekki trúa því, að það sé ekki hægt að koma þessu máli í gegnum þingið, þó gerð sé sú lagfæring á 1. gr., sem ég legg til og mundi tryggja þá framkvæmd í þessum efnum, sem gerð er grein fyrir í grg. frv., að hafi verið tilætlunin með flutningi frv. Það er þýðingarlaust að neita því, að orðalagið á 1. gr. núna útilokar alveg tvímælalaust þá, sem búa í dreifbýli eða í sveit. Það er alveg þýðingarlaust að neita því. Mér er það alveg ljóst, að sveitarstjórn, sem er óþæg í þessum efnum, getur neitað því samkvæmt orðanna hljóðan að eiga að borga til trygginganna, og það getur vinnuveitandinn líka, vegna þess að sé gr. bara lesin, þá kemur þetta skýrt í ljós. Ég tók einmitt eftir því, þegar hv. 9. þm. Reykv. las hér yfir gr., að hann stiklaði yfir það orð, sem hér skiptir mestu máli. Ég skal nú lesa gr. hægt og rólega, þannig að hv. þm. geti fylgzt með. Í gr. segir nú:

„Ákvæði laga þessara taka til atvinnurekenda, verkalýðsfélaga og meðlima þeirra í kaupstöðum og kauptúnum með 300 íbúum eða fleiri, svo og til atvinnurekenda og meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum“. Allra meðlimanna í kauptúnum stendur hér. Sumir búa ekki í kauptúnum. Það er því alveg þýðingarlaust að neita þessu. Það stendur hér alveg skýrum orðum, að þetta nær, auk þess sem áður er sagt, til meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum. En það stendur þannig af sér í mörgum tilfellum, að meðlimir verkalýðsfélaga búa ekki í kauptúnum, og það er einmitt í þeim tilvikum, fjöldamörgum tilvikum, að þeir eru nú sviptir þessum rétti.

Það er auðvitað alveg þýðingarlaust að vera að karpa um atriði eins og þetta. Menn verða vitanlega að fallast á það, að orðin þýði það, sem almennt hefur verið talið að þau þýði. Hefði þarna t. d. staðið „og til atvinnurekenda og meðlima verkalýðsfélaga í sveitarfélögum, sem fámennari eru,“ hefði gegnt öðru máli, en það stendur bara „til meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag, sem nær til kaupstaða eða kauptúna, sem telja 300 íbúa eða fleiri.“ Hér er auðvitað um að ræða, hvort á að tryggja það, að allir meðlimir verkalýðsfélags, hvort sem þeir búa í kauptúni eða í dreifbýli, eigi að njóta réttinda I. Það er enginn vafi á því, að flm. frv. hefur ætlazt til þess að þessu marki yrði náð. Það kemur fram í grg. fyrir frv. En orðalagið er ekki þannig að þessu sé fullnægt, og því hefur verið á þetta bent. Ég álít, að hér sé um svo mikið réttlætismál að ræða, að ég vil taka það skýrt fram, að allir meðlimir verkalýðsfélaga, hvar svo sem þeir eru búsettir, eigi að njóta réttinda l., og það eigi aðeins að miða þetta við það, að það sé verkalýðsfélag starfandi í viðkomandi sveitarfélagi. Þau ein sveitarfélög, sem ekkert verkalýðsfélag nær til, verða þá fyrir utan. En þá hefur ráðh. sérstaka heimild til framkvæmda í þeim efnum.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, ég veit að í raun og veru erum við hv. 9. þm. Reykv. sammála um efni málsins, um það, hvaða marki eigi að ná, og ég vil treysta því, að þó mín brtt. verði samþ. og málið þannig leyst, þá verði reynt að greiða fyrir afgreiðslu málsins, svo að það fái afgreiðslu á þessu þingi, því að hér er um aðkallandi mál að ræða. Ég sé mér því ekki fært að taka aftur brtt. mína, því að ég get ekki séð annað en við sætum eftir í sömu vandræðunum og við erum nú með þá meðlimi verkalýðsfélaga, sem ekki búa í kauptúnum.