27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér varð það enn ljósara nú af seinni ræðu hv. 4. þm. Austf. heldur en af fyrri ræðu hans, að hann er að mæla fyrir miklu stórfelldari breytingu á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni heldur en komið er í námunda við með þessu frv. Hann vill að atvinnuleysistryggingalöggjöfin nái yfir öll sveitarfélög á Íslandi og sé engin viðmiðun við bæi eða kauptún. En atvinnuleysistryggingalögin, eins og þau eru núna, skulu ná til allra kaupstaða og þau skulu ná til kauptúna með yfir 300 íbúa. En í frv. er fólgin heimild til að þau nái til fámennari kauptúna, —ekki sveitahreppa, — en til fámennari kauptúna, ef atvinnurekendurnir, sveitarfélagið og verkalýðsfélagið mæla með því. Slík kauptún hafa fallið undir atvinnuleysistryggingarnar, en önnur alls ekki, og þau hafa ekki verið tæk, ef atvinnurekendurnir hafa mælt í móti því. Þetta er ljóst.

Nú heldur hv. þm. því fram, að orðalag 1. gr. nái ekki til íbúanna í Norðfjarðarhreppi, en ég held nú einmitt að þau geri það. Núna ná atvinnuleysistryggingarnar ekki til meðlima Dagsbrúnar, ef þeir eru búsettir utan Reykjavíkursvæðisins, kaupstaðarins Reykjavíkur. En með sínu orðalagi nær frv. til þeirra. Þá er bara spurt um eitt: Er hann meðlimur í verkalýðsfélagi? Ef maðurinn uppi í Kjós er meðlimur í verkalýðsfélagi, þá hefur hann réttinn. Frv. nær til meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum og þeim byggðarlögum, sem fámennari eru. Dagsbrún er sjálf í Reykjavík, en rétturinn á samkvæmt þessu að ná til allra meðlima Dagsbrúnar. Verkalýðsfélagið í Neskaupstað hefur hluta af sínu félagssvæði inni í Norðfjarðarhreppi. Ef maðurinn er í verkalýðsfélagi Neskaupstaðar og þó að hann sé í sveitabyggð, þá mun hann vera meðlimur verkalýðsfélags. Og lögin segja, að rétturinn skuli ná til meðlima verkalýðsfélaga. Þetta væri enn þá skýrara, ef þarna stæði „til allra meðlima verkalýðsfélaga.“ Félögin eru í kaupstað eða kauptúnabyggð, af því að lögin ná ekki til annarra staða en þeirra. En nú segir þetta frv., að rétturinn skuli ná til allra meðlima verkalýðsfélaga. (Gripið fram í.) Já, það stendur „meðlima verkalýðsfélaga.“ Það yrði bara spurt: Er hann meðlimur verkalýðsfélags eða ekki? Með þessu móti er einmitt ætlunin að ná til allra meðlima verkalýðsfélaga, þó þeir séu ekki sem einstaklingar búsettir í kaupstað eða kauptúni. En löggjöfin nær alveg ótvírætt ekki til annarra verkalýðsfélaga eða atvinnurekenda heldur en eru í kaupstöðum eða kauptúnum. Það er skyldutrygging í kauptúnum niður í 300 íbúa, en þá þurfa þessi þrjú atriði að koma til, ef kauptúnin eru fámennari. Þess vegna er þetta orðalag þarna sífellt um kaupstaði og kauptún. Það er átt við verkalýðsfélögin sjálf á þessum tryggingarskyldu stöðum, en frv. á að ná til allra meðlima þessara verkalýðsfélaga. Svo framarlega sem það upplýsist, að maðurinn úr dreifbýlisbyggðinni sé meðlimur verkalýðsfélags, þá er hann kominn undir atvinnuleysistryggingarnar.

Þetta er alveg öruggt, þetta hefur verið grandskoðað og yfirfarið, einmitt eftir að vafi þótti leika á þessu. Þegar málið var lagt fyrir þessa hv. d., þá var farið að athuga þetta orðalag. Niðurstaðan varð sú, að „kaupstaðir og kauptún“ á við félögin sem þar eru staðsett, en frv. nær til allra meðlima þeirra, hvar sem þeir eru búsettir á félagssvæðinu. Það fullyrði ég, og þess vegna, ef hv. þm. er ekki jafnframt í leiðinni að reyna að færa allar sveitir á Íslandi undir atvinnuleysistryggingalöggjöfina, sem er miklu stórfelldari breyting en bara að tryggja meðlimina, sem eru í dreifbýlinu á félagssvæðunum, þá er brtt. hans óþörf, nema hann vilji hamra það í gegn að koma stórbreytingum fram, sem eru um allt annað heldur en þetta frv. nær til. Ég játa það, að það væri skýrara ef þarna stæði „og alla meðlimi verkalýðsfélaga,“ en þegar bara er sagt „meðlimi verkalýðsfélaga“, þá hlýtur það að ná til þeirra allra. En verkalýðsfélögin sjálf verða að vera á tryggingarskyldu svæði, kaupstað eða kauptúni. Ég held, að þetta sé alveg öruggt og að brtt. sé þess vegna alveg óþörf. En málinu er stofnað í hættu og ég óska þess eindregið enn þá, að hv. þm. taki till. aftur, því réttur þeirra manna, sem við berum báðir fyrir brjósti, er tryggður með frv. eins og það er.