27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ákaflega leiðinlegt að standa í svona deilum við menn, sem virðast vera alveg sammála um, hvað gera eigi. Það er aðeins ágreiningur um, hvort orðalagið á 1. mgr. frv. núna nái þeim tilgangi, sem ætlazt er til. Ég fæ ekki séð að það geri það, og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, enn lesa 1. gr. og bið menn um að gera það líka. Ég trúi því, að hv. alþm. vilji gjarnan fá þessa breytingu, en þá er spurningin sú, hvort þeir trúi því, að hún felist í þessu orðalagi, sem hér er:

„Ákvæði laga þessara taka til atvinnurekenda, verkalýðsfélaga og meðlima þeirra í kaupstöðum og kauptúnum með 300 íbúum eða fleiri, svo og til atvinnurekenda og meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag.“

Ég sé ekki, að þetta nái til annarra en félagsmanna verkalýðsfélagá í kauptúnum. Ég sé ekki, að það sé hægt að lesa annað út úr þessu.

Hv. 9. þm. Reykv. telur, að í till. hv. 4. þm. Austf. felist allt annað, hann vilji teygja þetta yfir allar sveitir landsins. Sannleikurinn er sá, að ég álít að sú breyting, sem menn eigi að gera og felst auðvitað í hans till., sé sú, að lögin taki til allra félagsmanna verkalýðsfélaga, sem að sjálfsögðu eru öll í kauptúnum eða kaupstöðum. Það á að vera tilgangurinn, og þessir félagsmenn geta gjarnan verið búsettir í sveitum landsins. Við 1. umr. lagði ég áherzlu á, að vandamálið, sem hér væri við að etja, væri einmitt félagsmennirnir sem búsettir eru í sveitahreppunum, sem liggja upp af kauptúnum eða kaupstöðum. Þeir eru vandamálið, en ekki þeir, sem búa í kauptúnunum. Ég taldi upp nokkur dæmi þá, og ég gæti nefnt alveg óteljandi dæmi í viðbót, og ef það væri til leiðbeiningar fyrir hv. þm. um afstöðu þeirra, þá skal ég gjarnan gera það.

Dagsbrún er t. d. staðsett í Reykjavík, það er alveg rétt. Félagssvæði hennar er einnig Seltjarnarnes, Kópavogur og allt upp í Hvalfjarðarbotn. Allt þetta svæði fellur undir atvinnuleysistryggingarnar, ekki bara Reykjavík, heldur allt svæðið upp að mörkum Kjalarness. Mosfellssveitin er komin þar undir og að sjálfsögðu Kópavogur og Seltjarnarnes. En aftur á móti á svæðinu fyrir ofan Mosfellssveitina er ekkert þorp, ekkert kauptún. Og þetta svæði er þannig vaxið, að ég efast um, að það væri nokkur leið að fá það undir lögin eins og þau eru í dag.

Hér fyrir austan fjall eru óteljandi dæmi. Þar eru sveitahreppar, sem liggja að mörkum t. d. Stokkseyrar og Selfoss, og mikið vandamál hefur verið með einmitt af þessum sökum. Þetta eru einnig byggðarlögin hér austur með Suðurlandinu og á Austfjörðunum öllum. Þetta er einnig vandamál á Vestfjörðum og Norðurlandi öllu.

Það er þetta, sem er vandamálið, en ekki kauptúnin. Þau eru ekki vandamálið. Þetta benti ég á við 1. umr. málsins og taldi, að þetta orðalag leysti ekki þennan vanda. Það er ekki ætlazt til þess, að þetta nái til allra sveita landsins, nema þar séu starfandi verkalýðsfélög eða menn búsettir þar séu félagsmenn í verkalýðsfélögum, sem lögin ótvírætt taka til. Það er þetta, sem er verið að reyna að leysa.

Það eru enn þá til verkalýðsfélög, þó örfá, sem eru í sveitum, án þess að þau taki til kauptúna eða kaupstaða. Það er hægt að finna slík dæmi, en þau eru orðin mjög fá.

Með því orðalagi, sem er á brtt. hv. 4. þm. Austf., sé ég ekki annað en þetta, sem báðir og allir vilja keppa að, sé leyst.