27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég get lýst því yfir, að ég tel, að sú brtt., sem hér var nú borin fram af hv. 3. þm. Norðurl. e., mundi að mínum dómi fyllilega tryggja þann tilgang, sem vakti fyrir flm. frv., og mundi leysa aðalvandann að mínum dómi. Ég get því greitt þeirri till. atkv. út af fyrir sig, og það er einmitt í samræmi við það, sem ég sagði hér í upphafi míns máls.

Það var hægt að breyta þessari gr. á fleiri en einn veg. Það var í rauninni hægt að breyta henni á enn einfaldari hátt, með því aðeins að fella brott orðið „kauptún“ og setja þar „sveitarfélag“. En hvað um það. Það mundi ná þeim tilgangi, sem stefnt var að með frv., að samþykkja þessa breytingu, sem hv. þm. leggur hér til.

En brtt. mín var miðuð við það, að allir meðlimir verkalýðsfélaga í landinu yrðu aðnjótandi þessa réttar, sem felst í atvinnuleysistryggingunum. Ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um, að það fær ekki staðizt lengur, að þar sem um er að ræða 100, 200 eða 250 manna þorp og þar sem fólk vinnur sem verkafólk, að þar sé hægt að halda þeim utan við þessa tryggingalöggjöf. Hún er orðin svo þýðingarmikil. Ég vil veita þeim þau réttindi, sem löggjöfin gerir ráð fyrir, og ég álít því, að það eigi að stíga þetta skref að fullu, og því miða ég mína brtt. við það.

brtt., sem hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, hefur hér flutt, mundi duga til þess að ná því marki, að meðlimir verkalýðsfélaga í kauptúnum og kaupstöðum, þó að þeir búi í dreifbýli, gætu orðið aðnjótandi réttinda laganna. Ég mundi alveg sætta mig við þá takmörkuðu breytingu, þó að ég álíti, að það eigi að stefna að því að ná því marki, sem felst í minni till., og það er sannarlega kominn tími til þess að mínum dómi.