30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

132. mál, almannatryggingar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 40 frá 1963. Þetta er þmfrv., komið úr Nd. Þar var þetta frv. samþ. með lítils háttar breytingum.

Með endurskoðun og breytingum, sem gerðar voru á sjómannalögunum frá 1963, var allmjög aukinn réttur til handa sjómönnum til greiðslu úr hendi útgerðarmanna í slysa- og veikindatilfellum. Það er vegna þessara auknu greiðslna, sem útgerðarmenn telja æskilegt að geta tryggt sig hjá almannatryggingunum. Aðalefni þessa frv. mun vera að heimila slíkar tryggingar.

Samtök útvegsmanna hafa lagt mikla áherzlu á, að þetta frv. næði fram að ganga. Sömuleiðis hefur Sjómannasamband Íslands eindregið mælt með frv. Það lagði að vísu til, að gerðar yrðu á því dálitlar breytingar, og þær voru teknar til greina og gerðar í Nd. Hins vegar hefur Tryggingastofnun ríkisins lýst sig andvíga þessu frv.

Niðurstaðan í heilbr.- og félmn. Ed., sem fékk þetta mál til meðferðar, var sú að mæla með samþykkt frv., en einn hv. nm., 1. þm. Vesturl., var þó fjarstaddur við afgreiðslu málsins.