24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

214. mál, félagsheimili

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta frv. til athugunar milli umr. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um frv. Bæði er það, að efni þess var nokkuð rakið við 1. umr., og svo hefur það einnig nú á þessum þingfundi mjög komið til umr. í sambandi við frv. til l. um skemmtanaskatt. Ég skal láta nægja að gera aðeins grein fyrir tveimur brtt. á þskj. 638, sem menntmn. flytur við frv.

Fyrri brtt. er við 1. gr. frv., og er á þá leið, að niður falli orðin „og á þann hátt, sem ráðh. samþykkir“ í niðurlagi gr. Með síðustu mgr. þessarar frvgr. er kveðið svo á, að 10% af tekjum Félagsheimilasjóðs skuli renna í menningarsjóð félagsheimila. Úr þeim sjóði má svo veita styrk til menningarstarfsemi einstakra félagsheimila úti um landið, með því skilyrði, að hluti af aðgangseyri að samkomum félagsheimilisins renni í sérstakan menningarsjóð þess. Þennan sjóð á svo að varðveita heima í héraði og þar er það stjórn hlutaðeigandi félagsheimilis, sem varðveita skal sjóðinn, og honum verður eingöngu varið til menningarstarfsemi í því félagsheimili. Við töldum, að það ætti að nægja að hafa í lögunum ákvæði um það, að þessum sjóði, sem varðveittur er heima í héraði, skuli eingöngu varið til menningarstarfsemi í hlutaðeigandi félagsheimili og að ekki þyrfti að leita samþykkis ráðh. um það, á hvern hátt það yrði gert. Það virðist, að það ætti að vera hægt að trúa stjórnum félagsheimilanna fyrir því, að þessir sjóðir verði notaðir á þann hátt, sem lög mæla fyrir um.

Síðari brtt. er við 2. gr. frv. 2. mgr., en þar stendur í næstsíðustu línu: „Sé sótt um styrk úr menningarsjóði félagsheimila eða sérstökum deildum hans“. Við leggjum til, að niður falli orðin „eða sérstökum deildum hans“, og er það ákvæði satt að segja eftirlegukind frá því, sem frv. mun hafa verið í handriti, sem síðar hefur svo verið breytt, en láðst hefur að taka þetta út. Eins og þetta stendur þarna, þá getur maður eiginlega ekki fundið neina meiningu í því.

Þessar tvær brtt. eru fluttar af n. Menntmn. stendur öll að þeim, og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv.