27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

214. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og það er flutt ásamt frv. um breyt. á l. um skemmtanaskatt, enda náskylt því máli, sem enn er til meðferðar í hv. Ed. Í því frv. er gert ráð fyrir lækkun skemmtanaskatts af kvikmyndasýningum úr 27% í 15%, en skemmtanaskattur gengur nú að 45% til Þjóðleikhúss, 45% til félagsheimila, en 10% til sinfóníuhljómsveitar.

Ef skatturinn lækkar úr 27% í 15%, þá gefur auga leið, að þeir þrír aðilar, sem notið hafa góðs af skemmtanaskatti, munu ekki geta fengið jafnmikið fé í tekjur af honum og þeir hafa fengið hingað til. Niðurstaðan varð sú að leggja til, að Félagsheimilasjóður haldi sínum tekjum nokkurn veginn óbreyttum og sinfóníuhljómsveitin haldi sínum tekjum í krónum talið nokkurn veginn óbreyttum, en hins vegar hætti Þjóðleikhúsið að njóta nokkurs styrks af skemmtanaskatti. Mun því ríkissjóður, ef þessi tvö frv. verða samþ., framvegis greiða allan kostnað af rekstri Þjóðleikhússins.

Í þessu frv. felst, að skemmtanaskattur skuli allur ganga til styrktar félagsheimilum og sinfóníuhljómsveit, þ. e. að 90% af skattinum skuli ganga til að styrkja byggingu félagsheimila, en 10% til sinfóníuhljómsveitar. Jafnframt er sú breyting gerð, að nokkuð hefur verið hert á ákvæðum varðandi byggingu félagsheimila og það gert að skyldu að bera byggingu nýs félagsheimilis undir menntmrn., þ. e. a. s. það á að samþykkja byggingu nýs félagsheimilis.

Enn fremur er það mjög mikilvægt nýmæli í þessu frv., að Félagsheimilasjóði er heimilað að gefa út skuldabréf með ríkisábyrgð til 15 ára til þess að greiða þann styrk, sem Félagsheimilasjóð hefur hingað til skort tekjur til þess að greiða. Ef þetta frv. verður samþ., má gera ráð fyrir því, verði heimildin að sjálfsögðu notuð, að aðstaða Félagsheimilasjóðs til þess að greiða þann styrk, sem honum er lögheimilaður, þ. e. 40% byggingarkostnaðar, muni stórum batna.

Þetta er meginatriði málsins, og leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. að lokinni þessari umr.