16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

215. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. menntmn. fyrir að hafa tekið þetta frv. til flutnings. Þar sem það hefur verið undirbúið í menntmrn. og á sér nokkuð langan og vandasaman aðdraganda, gæti það verið gagnlegt, að ég léti því fylgja nokkur fleiri skýringarorð en fram komu í annars mjög glöggri framsöguræðu hv. form. menntmn.

Ástæða þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að tilkoma sjónvarps á Íslandi hefur gjörbreytt rekstrargrundvelli íslenzkra kvikmyndahúsa, og mun mega fullyrða, að á s. l. ári hafi kvikmyndahús á Íslandi í heild verið rekin með tapi. Það er ekkert einsdæmi fyrir Ísland, að sjónvarp gjörbreyti allri aðstöðu kvikmyndahúsa. Þetta hefur gerzt í öllum löndum, þar sem um víðtækan kvikmyndahúsarekstur hefur verið að ræða. Víðast hvar hefur orðið verulegur samdráttur í rekstri kvikmyndahúsa, en þar sem ríkisvaldið hefur áður innheimt skemmtanaskatt, hefur hann ýmist verið lækkaður eða felldur alveg niður, eins og átt hefur sér stað í sumum nálægra landa.

Hins vegar var hér sérstakur vandi á höndum í þessu sambandi, vegna þess að skemmtanaskattur rennur hér ekki í ríkissjóð, eins og á sér víða stað, heldur stendur hann undir tekjuöflun í þágu mikilvægrar menningarstarfsemi. 45% skemmtanaskattsins hafa um langt skeið runnið til rekstrar Þjóðleikhússins, 45% til þess að styrkja byggingu félagsheimila og 10% til rekstrar sinfóníuhljómsveitar. Niðurfelling eða lækkun skemmtanaskattsins hefur því gjörbreytt allri fjárhagsaðstöðu þeirrar þrenns konar starfsemi, sem ég nú nefndi. Þar við bættist, að sérstakt vandamál var því samfara, að verulegur hluti kvikmyndahúsa hefur á undanförnum árum fengið undanþágu frá því að greiða skemmtanaskatt, þannig að nokkurt misrétti hafði skapazt innbyrðis í kvikmyndahúsastarfseminni. Undanþága kvikmyndahúsanna frá greiðslu skemmtanaskatts hefur þó í öllum tilfellum verið háð því, að kvikmyndahúsin skiluðu rekstrarhagnaði til ákveðinna menningarmála; til byggingar eða rekstrar elliheimila, reksturs sjúkrahúsa, til rekstrar tónlistarskóla, til eflingar bindindisstarfsemi o. fl. mætti þar til nefna. Ef þessum húsum hefði verið gert skylt að greiða skemmtanaskatt, án þess að gripið hefði verið til annarra ráðstafana, þá hefðu ýmsir mikilvægir menningaraðilar misst tekjur, sem þeir hafa haft um langt skeið undanfarið, og hefði það því getað orðið mjög til truflunar á þessum rekstri. Allt þetta hefur gert málið mjög vandasamt til úrlausnar, og hefur sú tillögugerð, sem nú er hér lögð fyrir hv. Ed., í raun og veru verið mjög langan tíma í smíðum.

Ég vona, að sú niðurstaða, sem birtist í þessu frv., þyki sanngjörn og skynsamleg og þó sérstaklega nauðsynleg, til þess að ekki verði óeðlileg truflun á rekstri kvikmyndahúsanna annars vegar, sem gegna mikilvægu menningarhlutverki á Íslandi, og hins vegar þeirra menningarstofnana, sem notið hafa góðs af því, að um það bil helmingur íslenzkra kvikmyndahúsa hefur verið undanþeginn greiðslu skemmtanaskatts.

Ég held, að gagnlegt sé, að ég geri grein fyrir niðurstöðu athugunar, sem gerð var hjá tollstjóraembættinu að beiðni menntmrn., þegar þetta frv. var í undirbúningi. Athugunin var gerð á s. l. vetri eða s. l. hausti á því, hver væri aðgangseyrir þeirra kvikmyndahúsa, sem greiddu skatt, á árinu 1968, þ. e. síðasta árinu, sem þá var hægt að fá fullkomnar tölur um, og hins vegar þeirra kvikmyndahúsa, sem ekki greiddu skatt. Á því ári, 1968, reyndist aðgangseyrir í þeim kvikmyndahúsum, sem greiða skatt, 39.6 millj. kr., en aðgangseyrir þeirra húsa, sem ekki greiddu skatt, reyndist 41.3 millj. kr. Greiddur aðgangseyrir í kvikmyndahúsum reyndist þess vegna á því ári samtals 80.9 millj. kr.

Af þessu sést það, sem ég gat lauslega um áðan, að árið 1968 var svo komið og hafði verið svo um allmörg ár, að meiri hluti íslenzkra kvikmyndahúsa var orðinn undanþeginn greiðslu skemmtanaskatts.

Skemmtanaskattur sá, sem greiddur var 1968, nam 10.9 millj. kr. Þar af komu 8.3 millj. kr. úr Reykjavík, en 2.6 millj. kr. frá stöðum utan Reykjavíkur, samtals 10.9 millj. kr. Undanþegnar skemmtanaskatti hafa svo verið allar skemmtanir, — þ. á m. kvikmyndasýningar, — í kaupstöðum eða í héruðum, sem hafa færri íbúa en 1500, þannig að skemmtanaskattur hefur aðeins verið greiddur í kaupstöðum, sem hafa yfir 1500 íbúa. Skemmtanahald á öllum öðrum stöðum í landinu hefur verið undanþegið öllum skemmtanaskatti.

Gerð var á því athugun hjá tollstjóra að beiðni menntmrn., hvað skemmtanaskattur gæti lækkað, ef þau kvikmyndahús, sem hafa verið undanþegin skemmtanaskatti, greiddu skattinn einnig. Niðurstaðan varð sú, að þá gæti skemmtanaskattur lækkað úr 27.5% í 13.5%. Ef hins vegar væri gert ráð fyrir því, að skemmtanaskattur væri einnig greiddur á þeim stöðum í landinu, sem hingað til hafa engan skemmtanaskatt greitt til ríkisins, þá kemur í ljós, að skemmtanaskatturinn gæti lækkað úr 27.5% í 11.9%.

Grundvallarhugsun þessa frv. er sú, að lækka skemmtanaskattinn með þeim hætti, að allir greiði skemmtanaskatt, einnig þau kvikmyndahús, sem undanþegin hafa verið honum og auk þess skemmtanahald á þeim stöðum, sem hingað til hafa verið skemmtanaskattfrjálsir, og að lækkun skemmtanaskattsins hjá öllum aðilum skuli vera svo mikil, að heildartekjur af skemmtanaskatti haldist nokkurn vegin óbreyttar frá því, sem verið hefur. Þannig er sú tala fundin, að lagt er til að skemmtanaskattur lækki úr 27.5% í 15%. — Einhver kann kannske að benda á það, að ég hafi sagt, að ef öll kvikmyndahús greiddu skatt, þá gæti hann lækkað í 13.5%, og ef skemmtanaskattur yrði greiddur um allt land af öllu skemmtanaskattskyldu skemmtanahaldi, þá gæti hann lækkað í 11.9%, en samt er hér lagt til, að skatturinn lækki ekki meir en í 15%. Það er af því, að skattstofninn hefur farið verulega minnkandi síðan 1968. Aðsókn að kvikmyndahúsunum hefur minnkað mjög verulega síðan þá, og talan 15% er áætlunartala, miðað við það, sem fróðustu menn telja að aðgangseyrir að kvikmyndahúsum muni reynast á árinu 1970. En þegar skattstofninn minnkar, þá þarf prósenttalan á skattstofninum auðvitað að vera örlítið hærri, til þess að tekjurnar haldist óbreyttar.

Nú er eðlilegt að menn spyrji: Er þá meiningin, að svipta þá menningaraðila, sem hingað til hafa notið góðs af skattfrelsi kvikmyndahúsanna, þeim tekjum, sem þeir hafa af þessu haft?

Svo er ekki. Hér var um einn mesta vandann að ræða í sambandi við samning þessa frv., en svo er ekki samkvæmt ákvæðum frv., því að tollstjóra er heimilað að endurgreiða þeim kvikmyndahúsum, sem hingað til hafa notið skattfrelsis, greiddan skemmtanaskatt með því skilyrði, að þau noti hinn endurgreidda skemmtanaskatt í þágu sama málefnis og þau fengu skattfríðindin upphaflega vegna. Ef í ljós kemur, að tap verður á rekstri slíkra kvikmyndahúsa, eftir að skemmtanaskattinum hefur verið skilað, þá verður hlutaðeigandi menningaraðili að sjálfsögðu að bera hallann. En því málefni, sem skattfríðindin voru upphaflega veitt út á, eru tryggðar sömu tekjur og það hefur haft fram að þessu.

En þá má spyrja: Minnka þá ekki um leið heildartekjur af skemmtanaskatti, þannig að Þjóðleikhús, félagsheimili og sinfóníuhljómsveit geta ekki fengið jafnmiklar tekjur og þau hafa áður fengið? Ef miðað er við árið 1968, sem er eina árið, sem öruggar tölur eru til um, þá hefðu 15% af öllum aðgangseyri gefið í skemmtanaskatt um 12 millj. kr., og þar af hefði hluti skattfrjálsu kvikmyndahúsanna verið rúmar 6 millj. kr. M. ö. o.: skattfrjálsu kvikmyndahúsin, sem nú eru, hefðu greitt skattinn 1968 og fengið hann svo endurgreiddan. Þá hefðu tekjur af skemmtanaskatti rýrnað um h. u. b. 6 millj. kr., þ. e. Þjóðleikhús, félagsheimili og sinfóníuhljómsveit hefðu fengið 6 millj. kr. minna en ella. Hvar á það að lenda samkv. frv:? Um þetta er von að menn spyrji, og er nauðsynlegt, að menn geri sér alveg skýra grein fyrir því, hvað efnislega felst í frv. um þetta atriði.

Frv. kveður svo á um, að tekjur af skemmtanaskatti skuli framvegis greiddar til Félagsheimilasjóðs og sinfóníuhljómsveitar, 90% til Félagsheimilasjóðs og 10% óbreytt frá því sem nú er, — til sinfóníuhljómsveitar. Í þessu felst það, þó það sé ekki sagt beinum orðum, að Þjóðleikhúsið fær framvegis engar tekjur af skemmtanaskatti, ef frv. nær fram að ganga, og það jafngildir auðvitað því, að ríkissjóður tekur að sér að bæta Þjóðleikhúsinu upp tekjumissinn vegna samþykktar lagafrv.

Takið vel eftir því, að framvegis greiðir ríkissjóður allan kostnað við rekstur Þjóðleikhússins. Hann hefur á síðari árum greitt verulegan hluta af rekstrarkostnaði hússins, því að tekjur af skemmtanaskatti og aðgöngumiðum hafa alls ekki dugað til, en framvegis mun ríkissjóður, ef frv. fær framgang, greiða allan kostnað af rekstri Þjóðleikhússins.

Hins vegar er þessi skattprósenta miðuð við það, þ. e. a. s. ef Félagsheimilasjóður fær 90% og sinfóníuhljómsveit 10% af væntanlegum 15% skemmtanaskatti, að tekjur Félagsheimilasjóðs verða óbreyttar, eða líklega heldur meiri en þær hefðu orðið að óbreyttu kerfi, og tekjur sinfóníuhljómsveitar svo að segja þær sömu.

Breytingin, sem verður, er því fyrst og fremst sú, að ríkissjóður tekur að sér að standa undir hluta Þjóðleikhússins í skemmtanaskattinum, ef frv. nær fram að ganga, en Félagsheimilasjóði eru tryggð 90% af honum, í stað 75% áður, og sinfóníuhljómsveitinni 10%, sem þýðir, að Félagsheimilasjóður fær í reynd ívið meira samkv. þessari nýju skipun en hann mundi hafa fengið að öllu öðru óbreyttu. Þetta eru í raun og veru meginatriði frv., og ég tel brýna nauðsyn bera til þess, að frv. nái í aðalatriðum fram að ganga. Ef það nær ekki fram að ganga, þá má búast við því, að stórfelld truflun verði á rekstri íslenzkra kvikmyndahúsa.

Samþykkt frv. þýðir hins vegar ekki það, að hlutur Félagsheimilasjóðs eða sinfóníuhljómsveitar sé að nokkru skertur, — ég mundi heldur segja þvert á móti, og ríkið stuðlar að því að leysa þann mikla vanda, sem hér er á ferðinni, þ. e. vanda kvikmyndahúsanna, vanda þeirra, sem notið hafa skattfrelsis kvikmyndahúsanna, og vanda Þjóðleikhússins, með því að taka að sér að greiða allan rekstrarkostnað Þjóðleikhússins.

Þá er og í því frv., sem er flutt jafnhliða þessu frv., og er í raun og veru eins konar hliðarfrv. við það, frv. um Félagsheimilasjóð, gert ráð fyrir alveg sérstökum ráðstöfunum til þess að leysa loksins þann mikla fjárhagsvanda, sem Félagsheimilasjóður er í vegna þess, að tekjur hans hafa ekki nægt til þess að standa undir æskilegum styrkveitingum til byggingar félagsheimila. Hugmyndin er að veita Félagsheimilasjóði heimild til að gefa út ríkistryggð skuldabréf til allt að 15 ára til þess að greiða með styrki, í trausti þess að bygging félagsheimila geti komið þessum skuldabréfum í peninga og greitt úr fjárhagsvandamálum sjóðsins.

Það væri kannske gagnlegt, herra forseti, að ég í lok þessa máls míns mætti leyfa mér að taka saman í örstutt mál helztu atriði beggja þessara frv., ef það mætti verða til glöggvunar, vegna þess að hér er óneitanlega um margslungið og talsvert flókið mál að ræða. En þessi meginatriði eru:

Í fyrsta lagi: Skemmtanaskattur af kvikmyndasýningum lækkar úr 27,5% í 15%.

Í öðru lagi: Skemmtanaskattur af öðrum skemmtunum helzt óbreyttur.

Í þriðja lagi: Einnar og tveggja krónu gjaldið til Menningarsjóðs breytist í hundraðstölugjald af núverandi aðgöngumiðaverði, þannig að krónutala þess breytist framvegis í samræmi við breytt aðgöngumiðaverð.

Í fjórða lagi: Skemmtanaskattur af kvikmyndasýningum greiðist af öllum kvikmyndasýningum, einnig af þeim, sem nú eru undanþegnar skemmtanaskatti. Tollstjóri skal hins vegar endurgreiða eigendum undanþágubíóanna skemmtanaskattinn með þeim skilmálum, að féð verði notað í því skyni, sem var ástæða undanþágunnar.

Í fimmta lagi: Skemmtanaskattur og menningarsjóðsgjald verði greitt alls staðar á landinu, þannig að niður verði felldar undanþágur vegna dreifbýlis.

Í sjötta lagi: Allar tekjur af skemmtanaskatti renni til Félagsheimilasjóðs og til sinfóníuhljómsveitar, en til hennar renni 10% skattsins.

Í sjöunda lagi: Lögum Félagsheimilasjóðs er breytt þannig, að leyfi menntmrh. þarf til að hefja byggingu nýs félagsheimilis, ef það á að njóta byggingarstyrks úr sjóðnum, enda þarf þá að samþykkja staðsetningu þess og teikningu.

Í áttunda lagi: Félagsheimilasjóður fær heimild til að gefa út skuldabréf til allt að 15 ára með venjulegum vöxtum til greiðslu á styrk til þeirra félagsheimila, sem byggingu er lokið á eða eru í byggingu. Menntmrn. gerir að fengnum till. stjórnar Félagsheimilasjóðs áætlun um, hvernig væntanlegum tekjum sjóðsins skuli skipt milli styrkja til félagsheimila og endurgreiðslna á skuldabréfunum ásamt vöxtum. Og skulu þó tekjur sjóðsins áætlaðar varlega. Heimild úr ríkissjóði á og við þessi skuldabréf.

Í níunda og síðasta lagi: 10% af tekjum Félagsheimilasjóðs skal verja í Menningarsjóð félagsheimila og skal honum varið til að stuðla að menningarstarfsemi í félagsheimilunum. Menntmrh. ákveður fjárveitingu úr sjóðnum að fengnum till. stjórnar Félagsheimilasjóðs. Heimilt er að binda styrkveitinguna til menningarstarfsemi einstakra félagsheimila því skilyrði, að tiltekinn hluti af aðgangseyri renni í menningarsjóð félagsheimilisins og sé hann þá séreign þess og notaður í því skyni, sem menntmrh. samþykkir.

Að svo mæltu leyfi ég mér að endurtaka ósk mína um það, að hv. Alþ. sjái sér fært að afgreiða þetta frv., þar eð það er bjargföst skoðun mín, að með því muni miklu verða bjargað, sem annars væri í hættu, ef frv. yrði ekki samþ., og í því felist veruleg spor fram á við á mikilvægum sviðum.