24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

215. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum, síðan 1. umr. fór fram um málið. Á þessum fundum hafa mætt Þórður Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómari, sem samdi frv., sá starfsmaður tollstjóraembættisins, sem hefur með innheimtu skemmtanaskatts að gera, og íþróttafulltrúi, en áður höfðu mætt á fundi hjá n. ráðuneytisstjórinn í menntmrn., ásamt fulltrúa þar, og þá mætti einnig fyrrnefndur starfsmaður tollstjóraembættisins.

Eins og áður hefur verið rakið og kemur einnig fram í grg. með frv., þá eru meginbreytingarnar samkv. þessu frv. frá því, sem nú gildir, þær, að kvikmyndasýningar eru settar í sérflokk með 15% skemmtanaskatt. Þá er gjaldskyldan færð út, þannig að skemmtanaskattskyldan nær nú skv. frv. til allra staða á landinu, en samkv. núgildandi lögum nær hún aðeins til kaupstaða með 1500 íbúa og þar yfir. Þá rennur samkv. frv. allur innheimtur skemmtanaskattur, að frádregnum innheimtulaunum og framlagi til sinfóníuhljómsveitar, í Félagsheimilasjóð, en samkv. núgildandi lögum skiptist skatturinn til helminga milli Félagsheimilasjóðs og Þjóðleikhússins. Þá er með frv. lagt til, að skattprósentan sé miðuð við brúttóverð miða, en nú er miðað við nettóverð. Þá eru felldar niður heimildir til 200% álags á skatt af kvikmyndasýningum og 20% álags á skatt af öðrum skattskyldum skemmtunum og einnig fellur niður 10% álag, sem nú rennur til sinfóníuhljómsveitarinnar, en hins vegar fær sinfóníuhljómsveitin samkv. frv. 10% af innheimtum skemmtanaskatti, þegar innheimtulaun hafa verið dregin frá. Þá er sú breyting á gjaldi til Menningarsjóðs, að í stað þess að það er nú föst krónutala, þ. e. a. s. 1 kr. af hverjum aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og 2 kr. af dansleikjum, þá er með frv. lagt til, að menningarsjóðsgjaldið verði ákveðin prósenttala af andvirði aðgöngumiða, 1½% af miðum að kvikmyndasýningum og 2% af miðum að dansleikjum. Þessi prósenttala gefur í aðra hönd nokkuð svipað eða aðeins meira en einnar og tveggja krónu gjaldið, sem nú gildir.

N. leitaðist við að gera sér, a. m. k. að einhverju marki, grein fyrir því, hvaða áhrif breytingar á skattheimtunni samkv. frv. hefðu annars vegar á heildarupphæð skemmtanaskattsins og hins vegar á rekstur þeirra skemmtistaða, sem nú eru undanþegnir skemmtanaskatti, og þá aðallega rekstur félagsheimilanna. Það er skemmst frá því að segja, að það er ekkert hægt að fullyrða um það, hver heildarskatturinn yrði eftir breytinguna. Skattur af kvikmyndasýningum lækkar verulega, og þó niður falli skattfrelsi vissra kvikmyndahúsa, sem hafa verið skattinum undanþegin, þá má búast við því, að sá skattur, sem þau samkv. frv. kæmu til með að greiða, rynni að verulegu eða mestu leyti aftur til þeirra stofnana eða í þarfir þeirra málefna, sem þessum húsum er ætlað að standa undir.

Spurningin er þá sú, hve mikið megi áætla, að útfærsla skattskyldunnar til alls landsins geti gefið í aðra hönd. Á svo naumum tíma sem n. hefur haft frv. til meðferðar hefur mjög takmarkaðar upplýsingar verið hægt að fá og það mundi áreiðanlega taka vikur, ef ekki mánuði, að safna slíkum upplýsingum, sem yrðu þó væntanlega alls ekki tæmandi. Ég skal þó nefna eina tölu, sem n. var látin í té frá tollstjóraembættinu, en þar segir, að í bréfi Efnahagsstofnunarinnar til menntmrn. frá því í október á fyrra ári séu m. a. þær upplýsingar, að brúttósala aðgöngumiða að kvikmyndasýningum á árinu 1968, á stöðum með 300–1500 íbúa, hafi numið 10 millj. 989 þús. kr., þ. e. a. s. tæpum 11 millj. kr. En í þessa skýrslu vantaði þó upplýsingar frá 10 stöðum, sem nánar eru tilgreindir. 15% skemmtanaskattur af þessum 11 millj. kr. mundi þá hafa orðið 1650 þús. kr. Lætur nærri, að það sé þriðjungur af því, sem 5 kvikmyndahús hér í Reykjavík hefðu greitt á árinu 1969 með sömu skattprósentu.

Það hefði vissulega verið æskilegt, að fyrir hefðu legið ítarlegri upplýsingar en raun er á um þau atriði, sem ég áður hef nefnt, en afgreiðsla frv. á þessu þingi væri þá útilokuð, ef slíkra upplýsinga ætti að bíða.

Á hitt verður og að líta, að það virðist sem það sé alveg óumflýjanlegt, að leiðrétting fáist á skemmtanaskatti kvikmyndahúsanna, eins og rekstri þeirra er nú komið. Fimm kvikmyndahús hér í Reykjavík greiða nú u. þ. b. helming af öllum innheimtum skemmtanaskatti. Þetta er því langstærsti gjaldstofn skemmtanaskattsins, og ef ekki verður þegar eitthvað að gert, þá verður ekki betur séð en sá gjaldstofn sé í þann veginn að bresta.

Eins og ég áður sagði, reyndi n. að gera sér einhverja grein fyrir því, hvaða áhrif frv. — ef að lögum yrði hefði á rekstur þeirra staða, sem nú eru ekki skattskyldir, og þá aðallega á rekstur félagsheimilanna. Íþróttafulltrúi mætti á fundi hjá n. og gaf okkur margar mjög athyglisverðar upplýsingar. Ég skal hér stikla á nokkru af því, sem hann lét okkur í té.

Félagsheimilin eru nú 136 á öllu landinu. Þau skiptast þannig á byggðarlög, að 98 eru í sveitum og kauptúnum, 7 eru í kaupstöðum. Þeir kaupstaðir eru: Sauðárkrókur, Ólafsfjörður, Húsavík, Neskaupstaður, Seyðisfjörður, Vestmannaeyjar og Kópavogur. — Af þessum 7 kaupstöðum eru 2, sem tvímælalaust eru skemmtanaskattsskyldir. Hinir munu ekki hafa greitt skemmtanaskatt vegna íbúaákvörðunar laganna, nema þá líklega Húsavík upp á síðkastið. — Þetta voru 7 félagsheimili í kaupstöðum. Þá eru 5 félagsheimili í dreifbýli, sem eru sameign skóla og félaga. Þá eru loks 26 félagsheimili, sem eru eign einstakra félaga, en yfirleitt hefur þar verið um minni háttar framkvæmdir að ræða. Af þessum 26 eru t. d. 11 skátaheimili, sem hafa hlotið styrki úr Félagsheimilasjóði, — 11 skátaheimili víðs vegar um landið, reyndar ekkert hér í Reykjavík.

Við sjáum af þessu, að sá helmingur af skemmtanaskattinum, sem skv. núgildandi lögum fellur í hlut Félagsheimilasjóðs og kemur nú frá kaupstöðum með 1500 íbúa eða fleiri, hann rennur að langsamlega mestu leyti til dreifbýlisins og annarra staða, sem engan skemmtanaskatt greiða. Í sambandi við þetta má aðeins minnast á, að staðir eins og t. d. Selfoss, sem mun hafa yfir 1500 íbúa, eru alls ekki skattskyldir, vegna þess að þeir eru ekki kaupstaðir.

Þá eru upplýsingar um styrkveitingar úr Félagsheimilasjóði og eru þær einnig frá íþróttafulltrúa og miðaðar við það, sem var í desember 1969. Þá voru það 75 félagsheimili, sem ekki höfðu fengið full 40% byggingarkostnaðar úr Félagsheimilasjóði, og til þess að svo gæti orðið, vantaði 56.4 millj. kr. Tekjur Félagsheimilasjóðs hafa frá upphafi, þ. e. a. s. frá árinu 1948 þar til í desember s. l., numið samtals 74 millj. kr. Þegar félagsheimilalögin voru sett, þá voru þau látin verka aftur fyrir sig, þannig að þau náðu til þeirra framkvæmda við félagsheimili, sem voru byrjaðar á árinu 1944, og heildarupphæð framkvæmda allt það tímabil og á öllum stöðum samanlagt er um 240 millj. kr.

Í þessu sambandi er bezt að minna á það, sem ég ætla að hafi komið fram við 1. umr. málsins, að skemmtanaskattur árið 1968, að frádregnum innheimtulaunum og framlagi til sinfóníuhljómsveitar, nam tæpum 14 millj. 730 þús. kr., sem skiptast svo til að jöfnu milli Félagsheimilasjóðs og Þjóðleikhússins.

Um rekstur félagsheimilanna sagði íþróttafulltrúi okkur, að í heild tekið væri hann ekkert vandamál. Smærri húsin eru mörg hver kannske nokkur þúsund kr. yfir eða undir því að í járnum standi, en annars eru nokkur áraskipti að og stærri heimilin, sum hver a. m. k., skila nokkrum ágóða, kannske rösklega 100 þús. kr., en önnur minna. En tæmandi upplýsingar gátum við að vísu ekki fengið eða réttara sagt, það hefði tekið þann tíma að útvega þær, að eftir því hefði ekki verið hægt að bíða.

Þegar ég segi, að íþróttafulltrúi hafi tjáð okkur, að rekstur félagsheimilanna væri ekki vandamál, þá er þar við að athuga, að þar er eingöngu talað um hreinan rekstur. Þá er ekki tekið neitt tillit til afskrifta. En langflest félagsheimilin eru með einhverjar skuldir, meiri eða minni, sum hver eru þó ekki með meiri skuldir en sem nemur því, er þau eiga eftir að fá úr Félagsheimilasjóði. En það er að sjálfsögðu vandamál á þessum stöðum að greiða vexti og afborganir af þessum skuldum. Á það jafnt við um þessar framkvæmdir og yfirleitt aðrar í þjóðfélaginu. Í frv., sem n. flytur einnig að beiðni hæstv. menntmrh., um breyt. á lögum um félagsheimili, sem er á dagskrá þessa fundar og kemur væntanlega til umr. hér síðar, er farið fram á heimild til handa Félagsheimilasjóði til að gefa út skuldabréf til þess að greiða fyrir félagsheimilunum. Ég held, að það sé ekki of mikil bjartsýni að líta svo á, bæði nú, þegar skemmtanaskatturinn á allur að renna í Félagsheimilasjóð og til kemur að auki útgáfa slíkra skuldabréfa, að þá ætti þarna að vera ráðin veruleg bót á erfiðleikum félagsheimilanna.

Ég hef þá, hv. forseti, gert nokkra grein fyrir þeim upplýsingum, sem n. hefur aflað sér milli umr., og athugunum hennar á frv. og vil að lokum segja það, að það yrði ekki lítil bót að því, ef þetta frv. yrði að lögum, að fá þá einföldun á öllum ákvæðum skemmtanaskattsins og innheimtu hans, sem frv. hefur að geyma, því að með öllum þeim breyt., sem orðnar eru á lögunum, er þetta satt að segja eins og hálfgerður frumskógur fyrir menn að fara í gegnum.

Ég skal þá víkja lítillega að brtt. þeirri, sem við 5 þm. úr menntmn. flytjum við frv. og eru á þskj. 637.

Fyrri brtt. við 6. gr. og er með henni mælzt til, að 2. mgr. þeirrar gr. falli niður. Í þessari mgr. frv. er gert ráð fyrir því, að sveitarfélög, sem þegar hafa fengið staðfestar reglugerðir skv. lögum frá 1918 og hafa þær enn þá í gildi, skuli áfram halda rétti til þess að innheimta gjald af skemmtunum, sem þau lög heimila. Með þessu frv. hefur verið lagt til, að þessi lög frá 1918 verði felld úr gildi. Með þeim lögum var bæjar- og sveitarstjórnum heimilað að leggja allt að 20% skatt á almenningsskemmtanir, sem aðgangur er seldur að. En álagning skattsins er háð því, að sveitarstjórn hafi samið reglugerð, sem hafi hlotið staðfestingu dómsmrh. Þessi lög frá 1918, náðu sem sé til allra sveitarfélaga í landinu. Með lögum um skemmtanaskatt og um þjóðleikhús frá 1927 var þessi heimild felld úr gildi, að því er varðaði kaupstaði með 1500 íbúum eða fleiri. Síðan var svo með lögum nr. 28 frá 1952 veitt almenn heimild sveitarstjórnum, hreppsnefndum og bæjarstjórnum til handa, án tillits til íbúafjölda, til að leggja sérstakt gjald á kvikmyndasýningar, allt að 10% af aðgangseyri að kvikmyndasýningum, að frádregnum skemmtanaskatti. Með þessum lögum var felld úr gildi heimild í lögunum frá 1918 um allt að 20% gjald að því er varðaði kvikmyndasýningar. Þetta frv., sem hér er til umr., haggar í engu lögunum um gjald af kvikmyndasýningum frá 1952, og þau lög munu standa óbreytt þó að frv. verði að lögum og sveitarstjórnir þannig halda sinni heimild áfram til að leggja gjald á kvikmyndasýningar.

N. leitaðist við að gera sér grein fyrir því, hvaða tekjur sveitarfélögin kynnu að hafa haft samkv. lögunum frá 1918. Nú hafa verið gefnar út alls 45 reglugerðir skv. þeim lögum. Af þeim eru allmargar fallnar úr gildi, þ. e. a. s. reglugerðir, sem gefnar voru út fyrir kaupstaði með 1500 íbúum eða fleiri. Eins og ég áður sagði, voru þessi lög afnumin, að því er þessa kaupstaði snerti, með lögunum um skemmtanaskatt og Þjóðleikhús frá 1927.

Ég vil skýra frá því, að tollstjóraembættið var beðið um að útvega upplýsingar um það, eftir því sem unnt væri og tími ynnist til, hvað sveitarsjóðir samkv. reikningum sveitarfélaganna kynnu að hafa haft í tekjur af þessu gjaldi á skemmtanir. Eftir þeim upplýsingum, sem n. fékk, — en það voru athugaðir sveitarstjórnarreikningar frá sveitarfélögum, sem nú eru skemmtanaskattsfrjáls, og það var gert af Hagstofunni að beiðni tollstjóraembættisins, — þá virðist sem sveitarfélögin hafi lítið eða ekkert notfært sér þessa heimild í lögunum frá 1918. Þó getur maður látið sér detta það í hug, að reikningar einhverra sveitarfélaganna séu þannig úr garði gerðir, að þar komi ekki fram þessar tekjur af skemmtanahaldi, og mætti jafnvel hugsa sér, að þær rynnu beint til einhverra ákveðinna málefna og kæmu þá hvorki inn á gjaldabálkinn né tekjubálkinn í sjálfum sveitarstjórnarreikningunum.

Það eru hér upplýsingar, sem ef til vill er rétt að kynna fyrir hv. þm., reyndar eru þær sjálfsagt teknar af handahófi, en þar er um að ræða nokkra stærri staðina. Þar er t. d. fyrst nefndur Selfoss, og segir þar, að samkvæmt upplýsingum frá oddvita þar hafi enginn skattur verið innheimtur 1969. Segir hér: „Kvikmyndahúsið er eign hreppsfélagsins. Enginn skattur innheimtur 1969. 1968 innheimtur skattur 10%, ca. 20 000 kr.“ Þá er Raufarhöfn. Þaðan eru upplýsingar oddvita, en í þeim segir, að félagsheimilið sé í skuld við hreppinn og enginn skemmtanaskattur hafi verið innheimtur, síðan það var reist. Úr Neskaupstað eru aftur á móti upplýsingar frá skrifstofu bæjarfógetans, sem segir, að enginn skemmtanaskattur sé innheimtur. Í Stykkishólmi gefur sýsluskrifstofan þær upplýsingar, að enginn skemmtanaskattur sé innheimtur í Stykkishólmi, Ólafsvík, Hellissandi eða Grundarfirði. Sveitarfélögin eigi sjálf samkomuhúsin og síðast hafi verið innheimtur 10% skattur í Stykkishólmi 1967, en þá hafi samkomuhúsið þar verið í einkaeign. Þetta eru að vísu dæmi af handahófi og varlegt að draga af þeim neina allsherjar ályktun um notkun sveitarfélaganna á gjaldheimildinni í lögunum frá 1918.

Þegar nú er lagt til að fella úr gildi lögin frá 1918, þá virðist manni satt að segja óeðlilegt, að heimildir þeirra standi þó áfram, varðandi nokkur sveitarfélög, en önnur geti þar ekki komið til greina, þ. e. a. s. þau, sem ekki hafa fengið staðfestar reglugerðir. Það sýnist því fremur eðlilegt, að fella niður þessa mgr. Þar virðist varla vera um að ræða nokkurt fjárhagsatriði, sem einhverju nemur, fyrir sveitarfélögin. Ég býst við, að fleiri en ég muni líta svo á, að þó frv. yrði samþ. með þessari mgr., þá yrði það aldrei um langa framtíð, sem slík heimild til handa einstökum sveitarfélögum yrði látin standa, og væri þá hreinlegra að nema þetta ákvæði úr frv. nú þegar. — Eins og áður sagði, er fyrri liður brtt. okkar fimmmenninganna um það, að svo verði gert.

Síðari liður brtt. okkar er varðandi menningarsjóðsgjaldið, sem um ræðir í 8. gr. frv. Þarna kemur prósenta af seldum aðgöngumiðum í stað 1 og 2 kr. gjalds, sem er samkv. núgildandi lögum. Í n. var nokkuð rætt um menningarsjóðsgjaldið og í því sambandi um fjárþörf Menningarsjóðs. Ég sé, að hv. 5. þm. Reykn. hefur flutt hér brtt. við frv. einmitt varðandi þessa gr., og þar sem hann er svo nákunnugur öllum málefnum Menningarsjóðs og fjárþörf hans, þá geri ég ráð fyrir, að þegar hann gerir grein fyrir sinni brtt., þá muni koma fram allt það sem máli skiptir varðandi það atriði.

Það lágu hér fyrir nokkrar upplýsingar um menningarsjóðsgjaldið, sem ég ætla að hafi verið nokkuð skýrt frá við 1. umr. málsins, og sé ég þó hér á plöggum, að menningarsjóðsgjald er eingöngu innheimt í Reykjavík. Með útfærslu gjaldskyldunnar til alls landsins hljóta tekjur Menningarsjóðs eitthvað að aukast. Hversu mikið, er ákaflega erfitt um að segja, eins og um skemmtanaskattinn yfirleitt, en eftir þær umr., sem fram fóru í n., urðum við fimmmenningarnir, sem stöndum að brtt. á þskj. 637, sammála um, að rétt væri að flytja brtt. við 8. gr., um að 2% af brúttóverði aðgöngumiða að dansleikjum breyttist í 3%, sem mundi þá auka nokkuð tekjur Menningarsjóðs. Hins vegar hefur einn okkar flm. þessarar brtt., hv. 5. þm. Reykn., flutt brtt. um hækkun á prósentunni á kvikmyndahúsmiða og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir henni hér á eftir.

Ég hef orðið nokkuð margorð um þetta frv. Ég taldi rétt, að þessar upplýsingar, sem ég hef rakið, kæmu fram. N. hefur varið allmiklum tíma til að kynna sér þetta frv. og, eins og ég áður sagði, leitazt við að gera sér grein fyrir áhrifum þeirra breytinga, sem samþykkt frv. mundi hafa í för með sér. Ég skal svo ekki fjölyrða að sinni um málið, nema þá tilefni gefist til síðar.