24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

215. mál, skemmtanaskattur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér um ræðir, frv. til l. um skemmtanaskatt, er óneitanlega snöggsoðið á ýmsa lund og virðist svo, að í ljós hafi komið, að undirbúningur þess hafi ekki mátt minni vera. Þetta kemur m. a. fram í því, hversu erfitt hefur reynzt að fá upplýsingar um ýmis atriði, sem þó skipta máli, og það kemur einnig fram í því, að hér er að mínum dómi eingöngu — og á það legg ég áherzlu eingöngu verið að reyna að setja nýjar bætur á gamalt fat, sem er í rauninni fyrir löngu orðið úr sér gengið. Það hefði verið þörf á því fyrir löngu að gera um þessi mál öll nýja löggjöf og að ýmsu leyti út frá nýju sjónarmiði.

Ég held, að það sé enginn efi á því, að löggjöfin um skemmtanaskatt, a. m. k. allverulegur hluti hennar, þ. e. að því er tekur til kvikmyndahúsanna, hefur verið og er byggð á þeirri hugsun, að kvikmyndasýningar séu nánast dæmdar til að vera eins konar annars eða þriðja flokks skemmtanir, sem sjálfsagt sé að skattleggja, að vísu til stuðnings ýmsum góðum málefnum, en þó býsna óskyldum kvikmyndahúsarekstri og kvikmyndagerð.

Ég skal ekki fara mjög langt út í þessa sálma. Ég viðurkenni, að það er í rauninni ógerningur að gera þær breytingar á þessu frv., sem nægðu til þess að fullnægja nútímakröfum að því er varðar löggjöf um og stuðning við kvikmyndarekstur með menningarlegu sniði og innlenda kvikmyndagerð, en á því er hin fyllsta þörf. Ég vildi aðeins, áður en ég færi að fjalla um einstök atriði þessa frv., leggja á það ríka áherzlu, að þrátt fyrir þær breytingar, sem hér er verið að gera og sumar eru að vísu, eins og hv. form. menntmn. lagði áherzlu á, til að einfalda dálítið þetta skattheimtukerfi og að því leyti alveg tvímælalaust til bóta, — þá er hér í heild verið að gera tiltölulega lítilfjörlegar breytingar á löggjöf, sem er fyrir löngu orðin gersamlega úrelt. Við þurfum ekki að leita nema til næstu nágranna okkar til þess að sjá, að um þessi mál öll, þ. e. kvikmyndasýningar, rekstur kvikmyndahúsa og stuðning við innlenda kvikmyndagerð, gildir heildarlöggjöf, sem hefur alveg tvímælalaust, t. a. m. í Danmörku og Svíþjóð, haft mjög veruleg áhrif í þá átt að bæta rekstur þessarar greinar og styrkja innlenda kvikmyndagerð mjög stórlega.

Áhugamenn um þessi mál, þeir menn, sem standa hér að Kvikmyndaklúbbnum h. f., hafa tekið saman mjög fróðlega greinargerð og sent menntmn. Ed., og hún fjallar einmitt um þessi atriði, sem ég hef nú vikið lauslega að. Því miður hefur þessi greinargerð og bréf, sem henni fylgir, komið það seint, að ekki hafa verið tök á að fjalla um málið í n., en ég vil ekki láta hjá líða að vekja athygli á því, að hér liggja fyrir að mínum dómi mjög fróðlegar upplýsingar um það, hvernig þessum málum öllum er háttað, ekki aðeins varðandi skemmtanaskatt, heldur fyrst og fremst varðandi kvikmyndahús og kvikmyndahúsarekstur. Það liggja hér fyrir upplýsingar um það, hvernig þessum málum er háttað í stórum dráttum í ýmsum Evrópulöndum og alveg sérstaklega hvernig Danir hafa mótað þessi mál hjá sér með löggjöf og að því að talið er, með mjög jákvæðum árangri.

Ég vil aðeins með leyfi hæstv. forseta, lesa hér tvo stutta kafla úr bréfi Kvikmyndaklúbbsins, sem er dags. 20. apríl s. l. Það var sent menntmn. beggja d. Alþ. í tilefni af þessu frv., en þar er fyrst og fremst fjallað um þessi mál á breiðari grundvelli en um er fjallað í frv. Í bréfinu segir m. a.:

„Á Íslandi hefur kvikmyndamálum aldrei verið mörkuð nein heildarstefna með löggjöf. En viðfangsefni slíkrar löggjafar mundu einkum vera þessi: a) rekstur kvikmyndahúsa, b) dreifing kvikmynda, erlendra og innlendra, c) innlend kvikmyndagerð, skipulag hennar og fjármögnun, d) kvikmyndasafn, e) fræðslumyndasafn.“

Síðan er tekið fram í bréfinu, að um ekkert þessara atriða gildi viðhlítandi löggjöf, nema þá helzt um Fræðslumyndasafn ríkisins, lög frá 1961, sem margt gott megi um segja. Undir lok bréfsins komast þeir kvikmyndaklúbbsmenn svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir því mælumst við til þess við hv. menntmn., að þær beiti sér fyrir því þegar í sambandi við afgreiðslu þessa frv., að hafinn sé umsvifalaust undirbúningur að sérstökum kvikmyndalögum fyrir Ísland, sem afgr. verði á næsta þingi. Einnig bendum við á það, að við þetta frv., sem væntanlega tekur lagagildi innan skamms, mætti vel auka ákvæðum um sjálfsagðar menningarskyldur kvikmyndahúsanna: a) einhvers konar lágmark um val mannsæmandi kvikmynda, b) verulegt eftirlit með efnisvali á barnasýningum og íslenzkt tal á allar barnamyndir, c) skyldu til að sýna íslenzkar aukamyndir, eitthvert lágmark sýningafjölda. Þá væri heldur engin goðgá að mynda af skemmtanaskatti bíóanna eða a. m. k. hluta hans fyrsta vísi að hérlendum kvikmyndasjóði.“

Ég sé ástæðu til þess að vekja athygli á þessu erindi. Legg ég á það áherzlu, að ég tel, að hér sé hreyft mjög veigamiklu máli og sé orðin brýn þörf á að undirbúa heildarlöggjöf um þessi efni.

Eins og ég áðan sagði, þá sé ég, að þess eru ekki tök að bæta þannig um þetta frv., sem hér er flutt um skemmtanaskatt, að það geti á nokkurn hátt með einhverjum breytingum komið í staðinn fyrir heildarlöggjöf um öll þessi kvikmyndamál.

Það má segja, að það frv. um skemmtanaskatt, sem nú er flutt, hafi tvenns konar tilgang. Annars vegar hefur það þann tilgang að koma til móts við þau kvikmyndahús hér í þéttbýlinu, sem hafa borið sig illa að undanförnu og sýnt fram á það, að því er talið er með töluverðum rökum, að þau hafi nú um sinn verið rekin með tapi. Það er komið til móts við þessi hús á þann veg, að skemmtanaskattur á þau er lækkaður verulega, eða úr 271/2% niður í 15%. Ég býst við, að það sé alveg rétt, að þau kvikmyndahús hér, sem hafa orðið að greiða þennan tiltölulega háa skemmtanaskatt og hafa jafnframt orðið að taka á sig mjög verulegar hækkanir á leigu fyrir kvikmyndir, m. a. og þó ekki sízt vegna ítrekaðra gengisfellinga, hafi barizt í bökkum og jafnvel verið rekin með tapi síðustu árin, eftir að samkeppnin við sjónvarpið fór verulega að segja til sín. Það er einnig ljóst af tölum, að aðsókn að kvikmyndahúsum hefur minnkað mjög tilfinnanlega, eða að því er virðist um allt að þriðjung á örfáum árum. Hins vegar get ég ekki annað en látið í ljós þá skoðun, að bíóeigendur og bíóstjórar hér hafa staðið sig heldur slælega í því, er til þess tekur að mæta nýjum viðhorfum, mæta þeirri auknu samkeppni, sem þeir verða að horfast í augu við nú, eftir að sjónvarp er komið. Þá kemur maður enn að því, sem ég minntist á hér í upphafi þessa máls, að engin löggjöf er til um það, sem alls staðar virðist vera bundið með lögum í nálægum löndum, að þeir, sem reka kvikmyndahús, þurfi að uppfylla vissar lágmarksþekkingarkröfur áður en þeir fá slíkt leyfi. Um ekkert slíkt er hér að ræða, ekki einu sinni þótt svo sé, sem mun nú vera tiltölulega óvíða í nálægum löndum, að sömu aðilarnir, örfá kvikmyndahús hér í Reykjavík, flytja inn allar kvikmyndir, sem sýndar eru hér á landi. Það munu ekki vera nema aðeins örfá hús, sem það gera, nálega engin kvikmyndahús utan Reykjavíkur munu fást við slíkan innflutning. Þetta er eitt af því, sem tvímælalaust ætti að taka til athugunar, þegar heildarlöggjöf verður sett um kvikmyndahúsarekstur á Íslandi.

Það er t. d. býsna einkennilegt, sem upplýsingar hafa verið gefnar um nú nýlega, að af þeim kvikmyndum erlendum, sem sýndar voru hér á landi t. d. árið 1969, eru rétt um 80% — ég endurtek: 80% af öllum þessum erlendu kvikmyndum eru bandarískar myndir. Þetta er nánast furðulegt, og hér hefur orðið afar einkennileg breyting á allra síðustu árum. Ég hygg, að ég fari rétt með, að fyrir kannske 15–20 árum hafi þessi hlutföll verið dálítið lík þessu. Þá var yfirgnæfandi meiri hluti allra kvikmynda hér bandarískur. Síðan breyttist þetta allverulega, þannig að bandarísku kvikmyndirnar munu hafa verið komnar niður undir helming, þegar bezt lét, að því er snertir sýningar á erlendum kvikmyndum. En nú er þetta orðið þannig á nýjan leik, að því er mér er tjáð, að það eru hvorki meira né minna en 80% af öllum kvikmyndum, sem hingað voru keyptar 1969, bandarísk framleiðsla. Og verður þó víst sízt sagt, að Bandaríkjamenn hafi á síðari árum staðið þjóða fremst að því er snertir gerð góðra kvikmynda, þó að jafnan framleiði þeir talsvert af góðum myndum af þeim mikla fjölda, sem þar er framleiddur, og með því mikla fjármagni, sem til þeirra hluta er varið. En hér er skýringin m. a. og kannski ekki hvað sízt sú, að þessir fáu aðilar, sem flytja hér inn kvikmyndir til sýningar, virðast margir hverjir hafa samningabundizt við bandaríska framleiðendur, sem hafa þann ágæta sið, að þeir selja þessa framleiðslu sína í kippum. Ef kvikmyndahús hefur áhuga á að sjá eina eða tvær myndir, sem þau álíta að séu góðar og æskilegar til sýningar, þá verða þau að sögn að gjöra svo vel að kaupa af þessum sama framleiðanda kannske 15–20 myndir af allt öðrum gæðaflokkum og þurfa þá að burðast við að sýna þær. Því miður verður það að segjast, að jafnvel þau kvikmyndahús, sem maður hefði e. t. v. vænzt af einhverrar forustu í menningarmálum, svo sem það kvikmyndahús, sem er eign og rekið af Háskóla Íslands, og ég veit ekki betur en sprenglærðir prófessorar, ef ekki sjálfur hæstv. menntmrh., séu þar í stjórn, — hafi því miður ekki skorið sig úr og síður en svo sýnt betri myndir en önnur. Ég hygg að Háskólabíó eigi metið í fjölda bandarískra kvikmynda. Þær munu vera um eða yfir 90% af kvikmyndum, sem það sýnir.

Þetta er e. t. v. dæmi um það, að það dugar trúlega ekki að setja það í löggjöf, að menn verði að vera sprenglærðir til þess að stjórna kvikmyndahúsum. Þeir verða að kunna eitthvað til þeirra sérstöku mála, en það er ekki nóg, að þeir kunni einhverja aðra hluti og kunni þá e. t. v. vel. Það er enginn efi á því, að hér verður að koma til ný löggjöf, sem miðar m. a. að því, eftir því sem hægt er með löggjöf, að bæta um myndaval og að styðja innlenda kvikmyndagerð og þá alveg sérstaklega nú fyrst um sinn gerð hinna minni heimildakvikmynda og minni leikinna mynda einnig. Þetta hefur verið brýnt lengi og er nú enn þá brýnna en áður, eftir að sjónvarp er komið hér til sögunnar, því það vantar að sjálfsögðu gott eða sæmilegt sjónvarpsefni, sem ekki liggur laust fyrir og verður ekki komið hér upp nema með góðri skipulagningu og töluverðum tilkostnaði.

Það er nú svo í sambandi við þessi mál, og þá sérstaklega íslenzka kvikmyndagerð, að löggjöf hefur verið af heldur skornum skammti, þó ekki hafi algerlega skort löggjöf um það efni, t. d. eru bæði í lögunum um Menningarsjóð og í lögunum um Fræðslumyndasafn ríkisins ákvæði um það, að þessir aðilar megi og jafnvel eigi að styðja íslenzka kvikmyndagerð. En hér hefur fyrst og fremst skort fé til að vinna að þessum hlutum á þann veg, að einhver verulegur árangur gæti orðið af.

Ég taldi ástæðu til að fara nokkrum orðum um þetta sérstaka atriði, enda þótt ég, eins og ég áður sagði, hafi ekki séð mér fært að flytja brtt. við þetta frv., t. a. m. um stuðning við íslenzka kvikmyndagerð eða annað slíkt, sem er þó brýn þörf á.

Hitt meginatriði þessa frv., sem ég ætlaði að koma að, — það fyrra var ég búinn að nefna, en það var að bjarga, ef svo mætti segja, þeim kvikmyndahúsum, sem rekin hafa verið með tapi nú að undanförnu, — er að bæta hinn mjög svo slæma hag Félagsheimilasjóðs, sem ár eftir ár hefur verið að dragnast með sífellt lengri og lengri skuldahala, sem mun nú vera orðinn milli 50 og 60 millj. kr. Þessi breyting, að skemmtanaskatturinn á nú svo til allur að renna til Félagsheimilasjóðs og honum á sömuleiðis að vera heimilt að gefa út ríkisskuldabréf, verður væntanlega til þess, að eitthvað verður hægt að stytta þennan skuldahala. Ég vil lýsa því hér yfir sem minni skoðun, að ég tel, að það hefði átt og það eigi að leysa vandamál Félagsheimilasjóðs hreinlega á þann veg, að ríkissjóður leggi þar fram myndarlegt fjármagn eða hóflega upphæð árlega, til þess að sjóðurinn geti gegnt eðlilegu hlutverki sínu, en ekki eigi til frambúðar að hagnýta skemmtanaskattinn til þeirra hluta. Hins vegar treysti ég mér ekki til þess nú, eins og komið er, að gera till. um þessar breytingar, fyrr en þá er það yrði gert í samræmi við nýja löggjöf um kvikmyndamál á Íslandi.

Ég vil svo að lokum aðeins víkja nokkrum orðum að Menningarsjóði og því gjaldi, sem hann hefur notið, bæði nokkru gjaldi af kvikmyndahúsum, þ. e. a. s. þar hefur verið um að ræða 1 kr. af hverjum seldum bíómiða að öðrum sýningum en barnasýningum, og í öðru lagi hefur verið um að ræða 2 kr. gjald af dansleikjum. Það hefur farið svo um fjármál Menningarsjóðs, eins og sumra þeirra stofnana, sem hafa fengið tekjur bundnar við eitthvert ákveðið krónugjald eða fastagjald, að þessar tekjur hafa stórlega verið að rýrna að verðgildi á undanförnum árum. Síðar, þegar það bætist við, að aðaltekjustofninn, sá sem í nokkur ár reyndist einna traustastur og var langveigamestur, þ. e. a. s. þetta krónugjald af bíómiðum, fór einnig lækkandi í krónutölu, var ekki við góðu að búast. Þetta gjald, þ. e. a. s. bæði bíómiðagjaldið og dansleikjagjaldið, hefur nú á fjórum síðustu árum lækkað að krónutölu úr 3.3 millj. kr., sem það var hæst, niður í 2.2 millj. kr., eða um réttan þriðjung, og sér þá hver maður, hvernig komið er hag þeirrar stofnunar, sem á að hafa þennan tekjustofn sem aðalhaldreipi sitt. Ég skal taka fram, að Menningarsjóði er lögum samkvæmt gert að styrkja ýmsa aðila. Í fyrsta lagi á hann að leggja ákveðna fjárupphæð árlega til Vísindasjóðs. Í öðru lagi á hann aðleggja 1/6 hluta af brúttótekjum sínum til listaverkakaupa handa Listasafni ríkisins. Sitthvað er það fleira, sem er hreinlega bundið með lögum. Síðan á hann, samkv. eigin reglum, m. a. að styrkja innlenda tónlist, innlenda myndlist og innlenda kvikmyndagerð, auk þess sem hann hefur staðið undir allmikilli bókaútgáfu, þ. á m. útgáfu fræðirita, sem aðrir aðilar hafa yfirleitt veigrað sér við að gefa út, sakir kostnaðar. Öll þessi starfsemi sjóðsins má nú heita gjörsamlega lömuð vegna fjárskorts.

Hæstv. menntmrh. og menntmrn. hafa lengi vitað að hverju fór í þessu efni og að stöðugt seig á ógæfuhliðina, og hæstv. menntmrh. hefur í rauninni fyllilega viðurkennt þörfina á að bæta þarna úr, m. a. með því, að fyrir rúmu ári var sett á laggirnar að hans frumkvæði sérstök nefnd þriggja ágætra manna til þess að fjalla um vanda þessarar ríkisstofnunar. Þar var einn fulltrúi frá menntmrn., annar frá fjmrn. og sá þriðji frá menntamálaráði, formaður þess. Þessi n. skilaði áliti fyrir næstum því ári, samróma áliti, og gerði þar ýmsar till., bæði aðaltill. og varatill., að ég hygg, um úrbætur á fjárhagsvanda Menningarsjóðs, en því miður hefur ekki verið talið fært af hálfu hæstv. ríkisstj. að sinna þessum till. enn. Ég var nú satt að segja að vænta þess, að í sambandi við afgreiðslu þessa máls yrði eitthvað verulega á þennan vanda Menningarsjóðs litið, en ég get ekki sagt annað en það, að ég hef þar orðið fyrir allverulegum vonbrigðum. Að vísu fæst það nú fram, sem hefði þurft að vera í löggjöfinni frá upphafi, úr því að gjald af bíómiðum var ákveðið sem aðaltekjustofn sjóðsins, að nú er því breytt úr krónugjaldi í prósentugjald. Má þá vænta þess, að það haldi héðan af hlutfalli sínu miðað við verðlag og dýrtíð í landinu, sem það hefur alls ekki gert sem bezt sést á því, að þegar þetta krónugjald var sett á 1957, var það rétt um 6% af verði bíómiðans, en er nú komið niður í 1½%.

Einnig er til bóta og ber sízt að vanmeta það, að meiri hl. menntmn. flytur þá brtt., að í stað 2% af aðgöngumiðum á dansleiki verði gjaldið til Menningarsjóðs 3%. Þetta nemur ekki ýkjamiklu, en gæti þó e. t. v. gefið Menningarsjóði 200–300 þús. kr., að því er ég áætla mjög lauslega.

En þetta er þó engan veginn neitt nálægt því að bæta Menningarsjóði þann gífurlega halla, sem hann hefur orðið fyrir í sambandi við alla verðbólguþróun á undanförnum árum, þar sem aðaltekjustofn hans hefur svo að segja brostið. Ég ræddi það í n., hvort nm. sæju sér ekki fært að hækka prósentugjaldið á bíómiðana, og menntamálaráð hafði komið þeim tilmælum á framfæri, að það yrði hækkað úr 1½% í 3%. Það var ekki talið fært og ekki heldur þó að minna væri, en ég hygg þó, að það sé svo, að einstakir nm. séu alveg óbundnir í sambandi við þetta mál.

Ég hef leyft mér, á þskj. 647, að flytja litla brtt. við frv., en hún er um það, að í stað þess að þetta bíómiðagjald til Menningarsjóðs er í frv. ákveðið 1.5%, þá komi 2%. Þetta er að vísu algjörlega ófullnægjandi fyrir sjóðinn, en væri þó nokkur bót. Það mundi bæta úr allra brýnustu þörf sjóðsins. Það er að vísu erfitt að reikna út, hvað það mundi gefa, en mér sýnist að það ætti ekki að gefa minna en hálfa millj. kr.

Ég skal svo að lokum geta þess, að örlitla viðbót fær Menningarsjóður í sambandi við það, að ákvæðið um að binda bæri skemmtanaskattinn og menningarsjóðsgjaldið við byggðarlög, kauptún og kaupstaði, með 1500 íbúa eða fleiri, fellur niður. Þó er mjög erfitt að gera sér grein fyrir, hvað það nemur miklu, þar sem upplýsingar eru af ákaflega skornum skammti.

Fjárþörf sjóðsins, til þess að hann beinlínis geti staðið nokkurn veginn undir brýnustu ætlunarverkum sínum, sem hann hefur haft með höndum undanfarin ár, er það mikil, að ég tel, að til þess að bæta úr til bráðabirgða sé bráðnauðsynlegt að fallast á þessa litlu hækkun á prósentutölunni einnig að því er varðar kvikmyndahúsin, þ. e. að í stað 1.5% komi 2%.

Herra forseti. Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en vil að lokum minna á það, sem ég sagði í upphaf í, að þetta frv., eins og það er nú, getur ekki talizt annað en alger bráðabirgðalagfæring í sambandi við viss atriði, en ég legg á það áherzlu, að heldur fyrr en síðar og það raunar, ef vel ætti að vera, fyrir næsta Alþ. þyrfti að taka öll þessi kvikmyndahúsamál og þar með gjarnan skemmtanaskattinn til nýrrar yfirvegunar og líta þar á það, sem bezt hefur gefizt meðal nágrannaþjóða okkar. Undirbúa þarf heildarlöggjöf um þessi mál, sem gæti orðið til þess, að kvikmyndahúsareksturinn og þó sérstaklega innlend kvikmyndagerð ætti nokkra framtíð fyrir sér og gegndi menningarlegu hlutverki.