24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

215. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Mér láðist að geta þess í fyrri ræðu minni, að menntmn. hefðu borizt tvö erindi, annars vegar frá Kvikmyndaklúbbnum. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera því erindi ítarlegri skil heldur en hv. 5. þm. Reykn. gerði hér áðan í sinni ræðu.

Hitt erindið var ályktun aðalfundar Félags kvikmyndahúsaeigenda, þar sem það fer fram á, að Alþ. afnemi með öllu skemmtanaskatt af aðgöngumiðaverði kvikmyndahúsa. Ég skal reyndar lesa þessa ályktun, hún er stutt og er svo hljóðandi:

„Aðalfundur Félags kvikmyndahúsaeigenda, haldinn 10. apríl 1970, skorar á Alþ. að afnema með öllu skemmtanaskatt af aðgöngumiðaverði kvikmyndahúsanna, eins og gert hefur verið í öllum nágrannalöndum vorum. Fundurinn bendir hins vegar á, að ekki sé óeðlilegt, að 5–10% af verði aðgöngumiða sé lagt í sérstakan menningarsjóð til styrktar íslenzkri kvikmyndagerð og öðrum skyldum greinum.“

Hér hafa verið fluttar tvær skrifl. brtt. við frv. Fyrri brtt., sem er frá hv. 2. þm. Austf. og hv. 11. þm. Reykv., er um það, að frv. nái aðeins til staða, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri. Ég get sagt það strax, að ég er andvíg þessari brtt. Með frv. er lagt til, að skemmtanaskattur renni nú allur í Félagsheimilasjóð, og þess fjár njóta fyrst og fremst staðir, sem hafa færri en 1500 íbúa. Mér finnst því ekki nema ofur eðlilegt og sanngjarnt, að þeir staðir taki að sínu leyti einhvern þátt í að byggja upp Félagsheimilasjóð. Það hefur verið talað um það og er sjálfsagt rétt, að það sé erfitt að láta skemmtanahald bera sig í dreifbýlinu. Það er hins vegar á það að líta, að það eru sjálfsagt líka í dreifbýlinu haldnar skemmtanir á öðrum stöðum en í félagsheimilunum. Þegar íþróttafulltrúi kom á fund hjá n., barst það í tal, að t. d. hérna í nágrannasveitum Reykjavíkur væri það oft svo, að hljómsveitirnar héðan úr höfuðborginni héldu skemmtanir í félagsheimilum og öðrum skemmtistöðum og leigðu aðeins húsin. Ég held, að út af fyrir sig hefði enginn séð neitt eftir því, þótt þessir aðilar greiddu skemmtanaskatt. Þetta mun að vísu hafa breytzt, eftir að félagsheimilin tóku sig saman um að útiloka að á þennan hátt væri stofnað til dansleikja. En eins og ég áður sagði, þá finnst mér ekki nema sanngjarnt, að þeir landshlutar, sem fyrst og fremst njóta Félagsheimilasjóðs, taki að einhverju leyti þátt í því að byggja hann upp. Það er vitað fyrir fram, að það kemur ekki nema lítill hluti af því, sem í Félagsheimilasjóð rennur, frá þessum stöðum á landinu. Hann verður áreiðanlega enn um sinn, þó þessi breyting verði gerð á, að langsamlega mestu leyti byggður upp með skatti úr þéttbýlinu.

Hv. 2. þm. Austf. talaði um, að af sveitarfélögum, sem hafa fengið staðfestar reglugerðir með stoð í lögunum frá 1918, mundu vera tæplega 40, sem notfærðu sér þessa gjaldheimtu. En eins og ég áður sagði, hefur ekki verið unnt að fá tæmandi yfirlit um, hvernig og að hve miklu leyti heimildin er notuð, en ég held, að full ástæða sé til þess að álíta, að hún muni vera mjög lítið notuð. Ég skil það vel, að þegar hv. þm. er búinn að bera fram brtt. um það, að ákvæði frv. nái ekki til annarra staða en þeirra, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri, þá vilji hann ekki láta afnema lögin frá 1918, — það er mjög rökrétt, — en hins vegar, ef brtt. yrði nú felld, þá liggur auðvitað ekkert fyrir um það, hvernig hann mundi bregðast við því að fella niður 2. málsgr. 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að sveitarfélög, sem hafa slíkar staðfestar reglugerðir, geti áfram haldið að leggja á gjald samkvæmt þeim eftir að þau lög, sem reglugerðirnar styðjast við, hafa verið úr gildi felld.

Þá hafa hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 11. þm. Reykv. flutt brtt. við 3. gr. frv. um, að allar fjáröflunarskemmtanir íþróttafélaga skuli vera undanþegnar skemmtanaskatti. Í 3. gr. er kveðið svo á, í f-lið, að íþróttasýningar skuli undanþegnar skatti, enda renni ágóðinn óskiptur til íþróttastarfsemi. Hins vegar nær sú undanþága ekki til allra skemmtana, sem íþróttafélögin halda. Ég er eftir atvikum einnig mótfallin þessari brtt. Það eru ýmis félög, sem halda skemmtanir, ekki undanþægar samkv. 3. gr., sem geta þó haft ýmis ágæt málefni á sinni dagskrá, en eiga ekki samkvæmt frv. að njóta skattfrelsis í þessu sambandi. Ég tel, þó að íþróttafélögin séu alls góðs makleg, að það sé ekki ástæða til þess að fella allar þeirra skemmtanir undir þessar undanþágur.

Þá er hér skrifleg brtt., — svo sú 3. bætist nú í hópinn, — sem ég ætla að leyfa mér að flytja. Hún er við 1. málsgr. 6. gr. frv. Mér hafði ekki verið það ljóst og ekki heldur öðrum í n., að í frv. um breytingu á félagsheimilalögum, sem hér er einnig á dagskrá og svo mjög er nátengt þessu frv., enda af sumum verið rætt eins mikið og það frv., sem nú er til umr., þar segir í 3. gr., að þegar lög þessi, þ. e. a. s. frv. um breyt. á félagsheimilalögum, hafi hlotið staðfestingu, þá eigi að fella meginmál þeirra ásamt 1. gr. laga nr. 47/1957 inn í lög nr. 77/1947, um félagsheimili, og gefa þau út svo breytt. Ef til þess kemur, að þetta frv. verði samþ. og texti þess verði felldur inn í lögin frá 1947, þá verða þau gefin út að nýju og þá mundi breytast ártal, dagsetning og númer. Þess vegna væri það óeðlilegt, ef í 1. málsgr. 6. gr. laga um skemmtanaskatt væri vitnað til laganna frá 1947, því það er ekki um að villast, hvert skemmtanaskatturinn á að renna. Hann á að renna í Félagsheimilasjóð, og það verður ekki misskilið, hvert honum er þá ætlað að fara. Þessi brtt., sem ég leyfi mér að flytja, er því svo hljóðandi: „Við 6. gr. Niður falli orðin „(sbr. lög nr. 77/1947)“ í 1. málsgr.

Ég endurtek, það er óþarft að þetta standi þarna og yrði villandi, ef þessi frv. næðu samþykki. Þessi brtt. er skrifleg og of seint fram komin. Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða um hana.