27.04.1970
Efri deild: 80. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

215. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Áður en hlé var gert á þessari umr., hafði komið fram ósk um það, að menntmn. fengi á sinn fund kvikmyndahúsaeigendur eða þeirra fulltrúa, til þess að upplýsa, hvaða áhrif þetta frv., ef að lögum verður, hefði á rekstur þeirra. N. hefur síðan orðið við þessari ósk og mætti stjórn kvikmyndahúsaeigenda á fundi hennar.

Það var leitað eftir upplýsingum um þetta atriði, sem ég áður nefndi, og hafði stjórnin þær ekki á hraðbergi fyrir öll kvikmyndahúsin, en hins vegar fengust upplýsingar um nokkur þeirra, og ef ég nefni þá fyrst skattfrjálsu kvikmyndahúsin, þá gaf stjórnin okkur þær upplýsingar, að t. d. Bæjarbíó í Hafnarfirði hefði verið á árinu 1967 með 800 þús. kr. halla. Árið 1968 var halli á rekstrinum 1.2 millj. Þá er það Háskólabíó. Þar stóð rekstur í járnum s. l. ár og eru þá inn í reksturinn teknar afskriftir, þ. e. vextir og afborganir, 1.5 millj. kr. Þeir gáfu okkur þær upplýsingar, að ef ákvæði þessa frv. hefðu þá verið komin til framkvæmda, þá hefði skattgreiðsla bíósins væntanlega u. þ. b. étið upp þessa hálfu öðru milljón, eða hreinn rekstur hefði komið nokkurn veginn slétt út, en þó líklega orðið einhver halli. Um önnur undanþágubíó hér í Reykjavík, Tónabíó og Laugarásbíó, töldu þessir aðilar sig ekki hafa í höndum upplýsingar. Um eitt af skattskyldu bíóunum, Gamla bíó, er það að segja, að hallinn, sem var á árinu 1969, hefði nokkurn veginn jafnazt eða horfið, ef beitt hefði verið skattlagningarákvæðum samkvæmt frv., og þó hefði væntanlega orðið einhver halli. Þessar upplýsingar hef ég hér með tíundað, og ég ætla, að það hafi ekki verið fleira beinlínis varðandi þetta, sem þeir létu okkur í té upplýsingar um, þ. e. stjórn Félags kvikmyndahúsaeigenda.

Fyrr við umr. lýsti ég afstöðu minni til tveggja brtt., sem fram voru komnar, þ. e. a. s. á þskj. 708, frá Páli Þorsteinssyni og Kristjáni Thorlacius, og á þskj. 707, frá Jóni Þorsteinssyni. Þá hefur komið fram frá Birni Jónssyni brtt. við 2. gr., þar sem lagt er til, að síðari málsliður a-liðar 3. flokks falli niður, en hann er svo hljóðandi:

„Haldi félag dansleik og sé aðgangur ókeypis, er lögreglustjóra heimilt að ákveða skattinn.“

Þetta ákvæði er alveg samhljóða því, sem er í núgildandi lögum, og ég skal gefa þær upplýsingar, sem ég hef fengið hjá tollstjóraembættinu, að þetta er framkvæmt þannig, að á dansskemmtunum, þar sem ekki eru vínveitingar, er tekið visst gjald á klukkutíma. Þetta eru, ef ég man rétt, 100 kr. á klukkutímann. Þetta er ekki gjald sem neinu nemur. Á vínveitingastöðunum er aftur á móti tekið hið svokallaða rúllumiðagjald, 25 kr., sem menn kannast við. 8 kr. af því eru skemmtanaskattur, 2 kr. menningarsjóðsgjald, síðan renna 5 kr. af þessu gjaldi til viðkomandi húsa og 10 kr. eru fatageymslugjald.

Það er ekki ætlunin með þessu frv., að nein breyting verði á þessari gjaldheimtu. Vínveitingahúsin selja yfirleitt ekki aðgang að dansi og þau taka sitt fé inn með öðru móti, og ég held, að það sé engin goðgá, þó eitthvert gjald sé af þessu tekið með skemmtanaskatti. Ég vil því fyrir mitt leyti lýsa mig andvíga þessari brtt.

Ég held þá, að það sé ekki annað, sem ég hef um málið að segja.