30.04.1970
Neðri deild: 94. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

215. mál, skemmtanaskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Menntmn. hefur nú lokið athugun á tveimur frv., sem fyrir hana voru lögð, og hv. frsm. hefur nú gert grein fyrir störfum hennar. Það er ekki hægt að neita því, að þessi afgreiðsla á frv. báðum er ákaflega flaustursleg, og það er ekki nema skylt að óska þess eindregið, að svona vinnubrögð séu ekki viðhöfð, nema í ítrustu nauðsyn.

N. hafði fyrst í gærmorgun fund um þessi tvö mál. Þar komu fram ýmsar aths. við frv., sérstaklega annað þeirra, um skemmtanaskattinn, og ég held, að allir nm. hafi verið á því máli, að það þyrfti að breyta þeim, en þeirri athugun var alls ekki lokið, sem nm. höfðu þó óskað, og því síður að n. fengi nokkrar viðhlítandi upplýsingar um það, hvaða áhrif frv. hefðu þegar þau væru komin til framkvæmda. En um miðjan dag í dag, er allt í einu hafizt handa um að ljúka afgreiðslu frv. og að mér skilst í gegnum báðar d., því frv. þurfa að fara, a. m. k. annað þeirra, til hv. Ed. á ný. Nú á að ljúka afgreiðslu málanna á þessum næstsíðasta degi þingsins, sem gert er ráð fyrir og án þess að nm. og þá væntanlega þm. almennt hafi haft ráðrúm til þess að skoða málin nægilega.

Ég get nefnt aðeins örfá atriði, sem bar á góma og aths. hafa komið fram um í n., en ekki eru gerðar neinar brtt. um.

Í 2. gr. frv. um skemmtanaskattinn, 5. fl., er rætt um veitingahús og samkomuhús, þar sem vínveitingar eru og enginn skemmtanaskattur er greiddur. Það er öllum kunnugt, að hér í Reykjavík er heill hópur af slíkum samkomuhúsum. Þar fara fram dansskemmtanir hvert einasta kvöld, að ég ætla, eða því sem næst. Þar er enginn skemmtanaskattur greiddur, aðeins ómerkilegur aðgangseyrir, sem ég ætla að sé um 10 kr. Misræmið sést, þegar á þetta er litið annars vegar og hins vegar, að víða annars staðar, þar sem skemmtanir eru haldnar, hvort sem það er hér eða annars staðar á landinu, þar sem ekki eru vínveitingahús, þar þarf að greiða allháan skemmtanaskatt, eða samkvæmt frv. 20% skatt, ef um dansleik er að ræða, sem mundi í flestum tilvikum nema allt að 40–50 kr. á hvern mann, sem kemur á þessar samkomur. En hérna geta menn farið inn í danshúsin með því að greiða aðeins 10 kr. Svona ósamræmi þarf að leiðrétta, en það er ekkert ráðrúm til þess með svo miklum hraða sem þetta mál þurfti að hafa samkvæmt ósk hæstv. ríkisstj.

Það hefur verið gerð hér grein fyrir brtt. um kvikmyndahúsin, og skal ég ekkert fjölyrða um þær.

Þá bendi ég á eitt atriði í 5. gr. frv., sem ég kann ákaflega illa við, en er ekki nóg að lagfæra aðeins í þessu frv., því það þarf allsherjarathugun á því máli. Þessi 5. gr. er ósköp stuttorð: „Lögreglustjóri innheimtir skemmtanaskattinn og fær 2% í innheimtulaun. Setja skal nánari ákvæði um innheimtu með reglugerð.“ Þetta er sjálfsagt ekki stórt mál. En hvernig stendur á því, að það er verið að greiða embættismönnum innheimtulaun eða aukalaun fyrir störf, sem þeir vinna sem embættismenn? Þetta er ekkert sérstakt um lögreglustjóra, eða um þetta frv. og þennan skatt. Ég heyri sagt, að það séu greidd innheimtulaun af ýmsum ríkistekjum, en mér er ekki kunnugt um að það sé neitt samræmi í slíkum greiðslum. Ég hef litið svo á, að embættismenn eða opinberir starfsmenn eigi að hafa laun fyrir sín störf, fullkomin laun, en svo eigi að sleppa öllu af þessu tagi. Þetta minni ég aðeins á, af því að það kemur hér fyrir í þessu frv., en ekki af því, að ég sé að gera neinar kröfur um, að það sé verið að breyta þessu að þessu sinni.

Þá er í 9. gr. smávægilegt ákvæði, sem ég vil þó nefna, en þar stendur: „Gjalddagi skemmtanaskatts er næsti virkur dagur eftir skemmtunina.“ Það á ekki að bíða með að innheimta hann. Hvernig ætli þetta gangi, þegar verið er að halda samkomur víðsvegar um landið, kannske uppi í sveitum og hingað og þangað, og æðilangur vegurinn til innheimtumannsins? Næsta dag á að borga. Þetta er nefnilega óframkvæmanlegt í mörgum tilvikum, en samt stendur þetta svona. Þetta þyrfti að laga.

En það, sem mér finnst þó miklu alvarlegra, er í 2. málsgr. þessarar sömu gr.: „Eigandi húsnæðis þess, sem skemmtun er haldin í, ber ábyrgð á greiðslu skattsins.“ M. ö. o.: ef skatturinn er ekki greiddur á gjalddaga, þá er hægt að ganga að eiganda hússins. Það er hægt að selja þessi samkomuhús, þó vanskilin séu alls ekki eiganda hússins að kenna, heldur þeim, sem halda viðkomandi skemmtanir.

Ég skal ekki telja fleira upp af því, sem athugavert er og engin tilraun er gerð til þess að leiðrétta af hálfu n. En ástæðan til þess, að n. hefur orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, er eingöngu sú, að fallizt var á að breyta tveimur stórvægilegum atriðum í þessu frv. um skemmtanaskatt: Annars vegar að fella niður skattgreiðslu af dansleikjum, sýningum og öllum almennum skemmtunum, þar sem íbúar eru færri en 1500, en þetta átti þó allt að vera gjaldskylt samkv. frv., hversu fámenn sem héruðin eru, sem halda þessar samkomur. Þetta ákvæði hefði getað valdið því, að skemmtanahald hefði orðið útilokað víða einmitt af þessum ástæðum, þar sem þetta átti að ná til dansleikja og hvers konar annarra samkoma og skemmtana, hvort sem það var í fjölbýli eða dreifbýli. Meira að segja var frv. þannig úr garði gert, þegar það var fyrst lagt fram, að það átti að skattleggja samkomur í dreifbýlinu alveg eins og annars staðar. Allar tegundir skemmtana áttu að vera skemmtanaskattsskyldar. Ed. breytti þó frv. þannig, að 1. og 2. flokkur voru felldir undan, en það hefur nú náðst samkomulag í menntmn. þessarar hv. d. um að fella líka 3. flokk undan. Það er svo stórvægilegt atriði, að þetta samkomulag skyldi nást, að það er fyrst og fremst vegna þess að við höfum allir fallizt á að málið nái fram að ganga.

Hitt atriðið, sem varð til þess að samkomulag náðist, er það, sem hv. frsm. n. nefndi líka, að heimildir, sem eru enn í lögum fyrir einstök sveitarfélög til að skattleggja skemmtisamkomur í þágu sveitarfélagsins, verði ekki felldar niður. En hv. Ed. felldi þær niður. Nú eru það um 45 bæjarfélög eða sveitarfélög í landinu, sem hafa staðfestar reglugerðir um að mega skattleggja þannig skemmtanir, og þetta hefði allt fallið niður, ef frv. hefði verið samþ. eins og það kom frá hv. Ed. En þess ber að geta, að þó sveitarfélag skattleggi þannig samkomur, þá hækkar skatturinn ekkert við það, heldur dregst skattur sveitarfélags frá þeim skatti, sem ríkissjóður eða hið opinbera á að fá. Þessi heimild á því, eftir till. n., að haldast áfram: Sveitarfélögin, sem hafa þessar heimildir, halda þeim áfram.

Aðaltilgangurinn með breytingu á skemmtanaskattinum samkv. þessu frv. sýnist mér vera sá, að talið er nauðsynlegt áð lækka skattinn á kvikmyndahúsum í Reykjavík, og mér þykir líklegt, að ef það hefði ekki komið til, þá hefðu þessi frv. ekki verið flutt. En því miður höfum við ekki fengið neinar upplýsingar um það, hvernig kvikmyndahúsarekstur gengur í Reykjavík. Við vitum ekkert um það. Upphaflega hugmyndin var að þessa tekjurýrnun hins opinbera, sem af lækkun skattsins leiddi, ætti að bæta upp með nýrri skattlagningu í dreifbýlinu, þar sem enginn skattur var áður. Þá sjá menn, hvort það hefði verið sanngjarnt að samþykkja frv. óbreytt. Nú hefur þetta fengizt leiðrétt sem betur fer og við getum því sætt okkur við það, að þetta mál nái fram að ganga, þó ég verði að endurtaka það, að undirbúningur málsins var lélegur, upplýsingarnar, sem lágu fyrir n., voru mjög takmarkaðar og það er flaustursverk á afgreiðslunni.