28.04.1970
Sameinað þing: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur nær og fjær. Gleðilegt sumar. Það er orðið býsna langt síðan ég hef átt þess kost að ræða stjórnmál við hlustendur ríkisútvarpsins. Á þessu kjörtímabili hefur það ekki gerzt fyrr en nú, og fyrir kosningarnar 1967 var löglegur framboðslisti minn beittur því siðlausa ofbeldi að samsæri stjórnmálaflokkanna allra, að hann var útilokaður með öllu frá því að túlka málstað sinn, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Þannig var ég þá að mestu málfrelsi sviptur. Auðvitað gat þetta því aðeins gerzt, að ríkisútvarpið er undir daglegri stjórn pólitískra ritstjóra flokkanna og æðstu yfirstjórn flokkspólitísks ráðh. Það er snjallt uppátæki, — finnst ykkur það ekki, góðir hlustendur? — að setja sjálfa áróðursmeistara stjórnmálaflokkanna til þess að stjórna óhlutdrægu ríkisútvarpi. Þannig er í rauninni andlegt frelsi á Íslandi keyrt undir einvaldskerfi gömlu stjórnmálaflokkanna. En þetta samsæri flokkanna gegn löglegum framboðslista mistókst. Kjósendurnir, fólkið sjálft, risu upp gegn flokksræðinu og lömuðu það og sögðu stutt og laggott: Hingað og ekki lengra. Og þess vegna er ég nú hér og hef málfrelsi frá ræðustól Alþingis. En því minni ég á þennan atburð, að hann hefur haft víðtækar pólitískar afleiðingar.

Í fyrstu héldu samsærisflokkarnir áfram ofbeldisstefnu sinni, svo sem ekkert væri, þrátt fyrir áminningu kjósendanna. Og þeir stóðu allir að lagasetningu, sem svipti minni hl. flokks þeim sjálfsagða, lýðræðislega rétti að mega leggja einnig sín sjónarmið undir dóm kjósenda með viðurkenndu framboði í kosningum. Og þessu ótuktarverki komu þeir fram. En þá var líka mælirinn fullur, svo að út af flóði. Það var unga fólkið, sem reis upp gegn flokksræðinu undir forustu ungs sjálfstæðismanns, sem nú er látinn. Unga fólkið fordæmdi hið blinda flokksræði, heimtaði opnun flokkskerfanna og slökun á alræði flokksstjórna. Þetta fékk slíkan hljómgrunn, að nokkurn geig setti að valdaklíkum flokkanna í bili. Heitið var bót og betrun. Komið skyldi til móts við kröfur unga fólksins. Valdauppbygging flokkanna skyldi vera lýðræðislegri. Upp skyldu t. d. teknar skoðanakannanir og prófkosningar o. s. frv., o. s. frv. Spurningin er bara sú, hvort þetta sé nokkuð nema yfirborðsaðgerð til að slá ryki í augu unga fólksins og leiða það af í bili, og hræddur er ég um, að svo sé.

Og svo fóru fram forsetakosningar. Þá var enn ljósara en áður, hvílík hyldýpisgjá hafði myndazt milli stjórnmálaflokkanna gömlu og fólksins sjálfs. Fólkið hafði uppgötvað, að flokksræðið var ekki almáttugt. Fólkið gat haft fyrirmæli valdaklíkna flokkanna að engu og farið sínu fram, ef því sýndist svo. Valdið var fólksins, aðeins ef það hafði andlegt þrek til að beita því. Og þannig er það í sérhverju lýðræðislandi.

Af einhverri tilviljun rakst ég á ritstjórnargrein í tímaritinu Stefni, sem Samband ungra sjálfstæðismanna gefur út. Þar er ritað um ólgu þá, sem þessar tvennar kosningar, I-lista-kosningarnar og forsetakosningarnar, hafi vakið. Síðan segir í forustugreininni: „Sagt hefur verið, að ríkjandi endurskoðunarstefna hafi myndazt upp úr þeirri riðlun, sem varð vegna forsetakosninganna. Án þess að metast frekar um upphaf þessarar breytingar, sem e. t. v. telst af sumum vafasamur heiður, má fullyrða, að hún myndaðist að sjálfsögðu meðal fólksins sjálfs, og mætti þá öllu helzt rekja það til framboðs og fylgis I-listans í síðustu alþingiskosningum.“ Þessi niðurstaða Stefnisritstjórans, hygg ég, að sé nokkuð nærri hinu rétta.

En þegar rætt er um I-lista-framboðið og þýðingu þess fyrir þróun íslenzkra stjórnmála á þessu tímabili, kemur fleira inn í myndina. Hið ódrengilega kommúnistíska upphlaup og einhliða kommúnistavirki í Rvík vorið 1967 framkallaði I-lista-framboðið sem andsvar. Með því var komið í veg fyrir, að Alþb. gamla klofnaði þá. Því bættist hálft fjórða þús. atkvæða, tveir uppbótarþingmenn umfram það, sem listi Magnúsar Kjartanssonar hefði getað dregið að landi. Ingi R. Helgason lögfræðingur og klofningslið hans, sem afneitaði I-listanum sem lista Alþb., kom ekki vilja sínum og lögleysum fram. Alþb. í heild hefði aldrei fengið slíkt atkvæðamagn í Rvík sem það fékk í kosningunum 1967. Klofningi var afstýrt í bili, en þó aðeins frestað. Kommúnistar í Alþb. vildu ekki lengur una því að vera í samstarfsbandalagi með vinstri jafnaðarmönnum. Þeir voru staðráðnir í því að stofna sinn eigin flokk, flokk við sitt hæfi. Raunar hefðu þeir átt að geta horfið á ný til síns fyrri flokks, Sósíalistafl., en ekki var það þó þeirra ráð. Hann var víst orðinn of rúmur og í honum ýmis öfl og einstaklingar, sem ekki nutu lengur hylli hinna nýju valdamanna sósíalista. Nýjan flokk varð því að stofna, og með áfergju og ofsa strokuhestsins var stefnt að stofnfundi nýs flokks. Fram að þeim degi var Alþýðubandalagið gamla óklofið. Á seinustu stundu gerði ég það eitt að tilkynna bréflega, að ég segði af mér formennsku í Alþb. og kæmi ekki nálægt hinni nýju flokksstofnun, ætti þangað ekkert erindi. Þarna var svo Sósfl. einnig lagður niður, þó að það tækist ekki betur en svo, að meginkjarni hans, Sósíalistafélag Reykjavíkur og Kvenfélag sósíalista í Rvík, hefur ekki tekið mark á dánartilkynningunni og starfar nú á landsmælikvarða sem viðurkenndur kommúnistaflokkur.

Þó að mér hafi verið brigzlað um klofningu Alþb. gamla, er staðreyndin sú, eins og af framansögðu er ljóst, að þar kom ég hvergi nærri. Alþb. gamla var klofið á stofnþingi hins nýja flokks, liðað þar í sundur, samstarfið við vinstri jafnaðarmenn endanlega afþakkað og engu skeytt, þótt fjöldamargir af ágætustu liðsmönnum Sósfl. gamla yrðu utan hins nýja flokks. Auk þess var svo viss armur Sósfl., Sósíalistafélag Reykjavíkur, hreinlega eftir skilinn, svo sem fyrr er sagt.

Hitt er svo annað mál, að þetta kommúnistíska uppgjör var orðið fyllilega tímabært. Kommúnistar vissu, að við vinstri jafnaðarmenn yrðum aldrei nothæfir starfskraftar í kommúnistaflokki, og á hinn bóginn vorum við eftir 12 ára þæfing við þá löngu orðnir sannfærðir um, að hinn rúmgóði og víðsýni jafnaðarmannaflokkur, sem okkur hafði dreymt um árið 1956 og næstu árin á eftir, að Alþb. væri vísir og upphaf að, yrði aldrei byggður upp með sannfærðum kommúnistum í fylkingarbrjósti, þeir ættu að vera sér á skipi, enda lét ég það oft í ljós opinberlega. Kommúnistar eru alltaf kommúnistar. Þeir eru og verða einræðissinnar, sem aðeins beita lýðræðislegum vinnubrögðum sem yfirskini. Ég fagna því að hafa átt þátt í því uppgjöri við kommúnista, sem þegar er orðið. Það verk verður metið að verðugu, þótt seinna verði. Hér eru nú tvö stríðandi kommúnistaflokksbrot, og ætti öllum að vera ljóst, að undir þeirra flokksmerki á enginn karl eða kona nokkurt erindi, nema þau aðhyllist kommúnistíska lífsskoðun.

Ég get ekki trúað því, að illa fengið nafn Alþb. gamla á hinn nýja kommúnistaflokk villi nokkrum manni sýn. Og þó er aldrei að vita, því að í þeim tilgangi var það valið, sem yfirbreiðsla var það hugsað. Sami er tilgangurinn með því að skipa Ragnar Arnalds, Öddu Báru og Guðjón Jónsson til aðalforustu hins nýja flokks, en hola Brynjólfi Bjarnasyni, Einari Olgeirssyni, Magnúsi Kjartanssyni og Lúðvík Jósefssyni ásamt fjöldamörgum þjóðkunnum, ef ekki heimskunnum kommúnistaleiðtogum, langt á bak við. Þeir eru ekki einu sinni hafðir í framkvæmdastjórn flokksins, svo vandlega á að fela þá. En hver skyldi samt láta sér detta í hug, að þar sem þessir herrar hafa valið sér pólitískt húsaskjól, sé lýðræðislegur jafnaðarmannaflokkur á ferðinni? Ég held, að þeir verði fáir. En það er hins vegar satt sagt, að þegar bréf eru rituð á enska tungu í austurveg og þar dregið sérstaklega fram til sannindamerkis um, að Alþb. nýja sé hinn eini sanni og rétti kommúnistaflokkur á Íslandi, að hjá því gegni Mr. Olgeirsson, Mr. Bjarnason, Mr. Kjartansson og Mr. Jósefsson trúnaðarstörfum austur á við, þarf ekki að fela þá. Já, gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri, en hversu traustvekjandi það er, það er svo allt annað mál. En víst eru það að mínu mati pólitísk tíðindi, að samstarfsheild vinstri jafnaðarmanna og Sósfl., þ. e. a. s. Alþb. gamla, sem starfaði í 12 ár, hefur verið leyst upp, Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., sem stofnaður var 1938 og starfaði að nafninu til í 30 ár, hefur verið formlega lagður niður og hluti hans, Sósíalistafélag Reykjavíkur, tekið upp flokksmerki hans á ný, og loks: nýr kommúnistaflokkur hefur verið stofnaður, en sá ekki heiðarlegri eða mannborulegri en það, að rétt innræti sitt reynir hann að dylja undir nafni hins gamla Alþb. Þetta og nákvæmlega þetta er það, sem gerzt hefur, og hefur margt af því verið úr lagi fært og rangtúlkað í blöðum fram til þessa.

Það er fyrst nálega ári eftir að þessir atburðir gerðust, að Samtök frjálslyndra og vinstri manna eru stofnuð, og koma þau því á engan hátt við þá sögu, hvernig Alþb. gamla var liðað í sundur af kommúnistum. Stofnþing hins nýja flokks, sem hlaut nafnið Samtök frjálslyndra og vinstri manna, var haldið um miðjan nóvember s. l., og sátu þar 104 fulltrúar úr öllum landshlutum. Þar var kjörin 100 manna flokksstjórn og 11 manna framkvæmdastjórn, flokkslög samþykkt og ýtarleg stjórnmálayfirlýsing, sem skýrir tilverurétt flokksins, grundvallarstefnu hans og markmið varðandi nærtækustu verkefni íslenzkra stjórnmála. Flokkurinn reisir stefnu sína og starfsháttu á grunni lýðræðislegrar jafnaðarstefnu, samvinnuskipulagi og frjálshyggju. Á þeim stutta tíma, sem liðinn er frá stofnun hans, hefur verið kappsamlega unnið að því að móta skipulag flokksins. Erum við, eins og að líkum lætur, aðeins örskammt á veg komnir í því verki. Og þó að Lúðvík Jósefsson væri hér áðan að reyna að gera lítið úr þátttöku okkar í sveitarstjórnarkosningunum í vor, mun það flestum hafa komið á óvart, að hinn ungi flokkur hefur þegar birt sjálfstæð framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum í þremur stærstu kaupstöðum landsins, Reykjavík, Kópavogskaupstað og á Akureyri, og hefur það vakið landsathygli, að efstu sæti frjálslyndra bæði í Reykjavík og í Kópavogskaupstað skipa konur, hæfar, félagsvanar og félagsþroskaðar konur. Slíkt er óþekkt áður hjá gömlu flokkunum. Á nokkrum öðrum stöðum hafa Samtök frjálslyndra og vinstri manna einnig sjálfstætt framboð. Og auk þess eiga þau aðild að og sums staðar forustu fyrir blönduðum framboðum í mörgum kaupstöðum og kauptúnum landsins. En hitt er rétt, að okkar samtök kærðu sig ekki um að kljúfa vinstrisinnað fólk niður í örsmáar eindir í hinum ýmsu kauptúnum landsins og létu af þeim ástæðum vera að berjast alls staðar fyrir sjálfstæðum framboðum.

Ég sendi frambjóðendum samtakanna og stuðningsmönnum um land allt beztu baráttukveðjur og óska þeim góðs gengis í kosningunum. Það er eindregin skoðun mín og sannfæring, að það sé rangt að velja sveitarstjórnarmenn eftir markaskrá flokkanna á landsmælikvarða, það rétta sé að styðja þá frambjóðendur til setu og starfa í sveitarstjórn, sem kjósandinn treystir bezt til að fara með sín mál af heiðarleika, framsækni og hyggindum. Þau sjónarmið hvetja kjósendur til að hafa í heiðri að leggja alla flokksfjötra til hliðar þegar þeir standa í kjörklefanum 31. maí n. k.

1. maí, alþjóðlegur hátíðis-, kröfu- og baráttudagur verkalýðsins fer nú í hönd. Fyrir nokkru kallaði miðstjórn Alþýðusambandsins saman ráðstefnu með fulltrúum landssamtakanna innan Alþýðusambands Íslands til þess að ræða viðhorf samtakanna til komandi kjarasamninga. Beindi ráðstefnan því eindregið til aðila félaganna að hafa lokið mótun krafna sinna helst ekki síðar en um þessi mánaðamót. Hvernig svo sem að samningum verður staðið, þótti rétt að mynda samráðsnefnd, sem skipuð verði tveim fulltrúum frá hverju landssambandi og fulltrúum frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Verður hlutverk hennar einkum það að samræma kröfur og móta heildarstefnu, en ekki að fara með samningana sjálfa. Algjör einhugur ríkti á ráðstefnunni um það, að nú hefði skapazt traustur grundvöllur fyrir mjög verulegum og raunhæfum kjarabótum.

Það er naumast ofsagt, að illt árferði, slappt og fyrirhyggjulítið stjórnarfar hafði fyrir hálfu öðru ári eða svo skapað almennt neyðarástand í landinu. Gengi krónunnar hafði verið skorið niður í fjórða sinn á skömmum tíma, dýrtíðin geisaði meira en nokkru sinni og almennt atvinnuleysi herjaði. Þá hömruðu atvinnurekendur og ríkisvald sameiginlega á því, að nú yrði að fella niður allar verðlagsbætur á kaup. Í þeim löngu og ströngu samningum, sem hófust haustið 1968 og stóðu linnulaust í allan fyrravetur, var baráttan tvíþætt. Krafizt var skjótra og virkra aðgerða til útrýmingar atvinnuleysi og í annan stað, að fullar vísitölubætur yrðu áfram greiddar á kaupið. Þótt okkur fyndist seint og silalega til dyra gengið varðandi úrbætur í atvinnumálum, var reynslan sú, að samningarnir, sem tókust, áttu víða þátt í að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný og bægja vofu atvinnuleysisins frá margra dyrum. En þegar frá leið, kom batnandi árferði þar enn til hjálpar. En í launamálunum tókst með engu móti að halda í horfinu. Við neyddumst til að semja um skertar vísitölubætur á kaupið. Með þeirri gífurlegu verðhækkun, sem orðið hefur á liðnu ári á öllum sviðum, hafa launastéttirnar því orðið fyrir slíkri kjaraskerðingu, að nærri stappar nú fullu neyðarástandi um afkomu láglaunafólks. Það er því augljóst mál, að óbreyttu kaupi getur verkalýðshreyfingin ekki unað stundu lengur en til loka samningstímans núna í miðjum næsta mánuði.

Það er líka af mörgum ástæðum þjóðarnauðsyn, að launakjörin verði bætt hið bráðasta. Ósamræmi það, sem orðið er vegna gengisfellinganna milli launa hér á landi og í nágrannalöndunum, er þjóðinni stórhættulegt og hefur þegar leitt til landflótta, sem við verðum, hvað sem það kostar, að stöðva.

Verkalýðshreyfingin styður þá staðhæfingu gildum efnahagslegum rökum, að langvarandi láglaunatímabil sé bókstaflega háskalegt allri atvinnu- og efnahagsþróun þjóðfélagsins. Ætti kaupsýslustéttin ekki hvað sízt að þekkja sinn vitjunartíma í þessu efni og styðja verkalýðshreyfinguna með ráðum og dáð til bættrar efnahagslegrar afkomu fjöldans.

Kröfur verkalýðsfélaganna eru nú að koma fram. Ég veit með vissu, að fyrstu tvær kröfurnar verða verulegar grunnkaupshækkanir, sennilega 20–25%, og fullar vísitölubætur á kaup. Með tilliti til stórhækkaðra þjóðartekna, aukinnar framleiðslu, hagstæðrar verðlagsþróunar á heimsmarkaði og stórbættrar afkomu atvinnuveganna eru þetta allt saman raunhæfar kröfur. Jafnframt launakröfunum munu verða bornar fram kröfur um útrýmingu alls atvinnuleysis, þ. e. a. s. um fulla atvinnu handa öllum. Það er staðreynd, að atvinnuleysið sem herjað hefur s. l. tvö ár, hefur skaðað þjóðfélagið um milljarða króna í minnkaðri framleiðslu og rýrt bein verkalaun um hundruð milljóna upphæðir. Og það versta er, að þetta eru allt saman sjálfskaparvíti. Það eru afleiðingar vanmats stjórnarvalda á þýðingu framleiðsluatvinnuveganna í þjóðarbúskapnum. Böl atvinnuleysis er blátt áfram sök sinnulausrar og íhaldssamrar ríkisstj. Það eitt, þótt ekkert annað kæmi til, ætti að vera nóg henni til óhelgi, nóg til þess að steypa henni af stóli. Ég veit, að fram koma kröfur um styttingu vinnuvikunnar. Krafa tímans í öllum menningarlöndum er 40 stunda vinnuvika framkvæmd á 5 dögum. Sú hlýtur einnig að verða okkar krafa, því að menningarþjóð viljum við þó sannarlega heita og engra eftirbátur vera. Lengt orlof verður vafalaust ein þeirra krafna, sem fram koma. Árið 1964 var 21 dags orlof verkamanna lögfest hér á landi, þ. e. a. s. 13/4 dags fyrir hvern mánuð unninn. Orlofsfé var jafnframt ákveðið 7%. Þetta var allt í fullu samræmi við það, sem þá gilti um orlof á Norðurlöndum. En síðan þetta var, hafa öll nágrannalönd okkar lengt orlof verkamanna. Þau, sem skemmst hafa gengið í því, hafa nú 24 daga orlof eða 2 daga fyrir hvern unninn mánuð, en hin, sem í fararbroddi eru, hafa nú lögfest hjá sér 4 vikna orlof verkafólks. Hér höfum við því dregizt aftur úr og þurfum úr að bæta. Á þessu þingi bar ég fram frv. til l. um sjálfsagða lengingu orlofs úr 21 degi í 24 daga og hækkun orlofsfjár úr 7% í 8%, en auðvitað náði það ekki fram að ganga. Þá er ég þess fullviss, að þar sem svo langt er síðan einstök verkalýðsfélög hafa farið sjálf með samninga sína, þá hljóta að vera samansöfnuð fjöldamörg staðbundin atriði, sem félögin telja sig nú verða að knýja fram til nauðsynlegrar lagfæringar. Auðvitað geta svo komið fram frá verkalýðsfélögum fjöldamargar kröfur aðrar en þær, sem ég nú hef nefnt. Og á þeim kröfutímum sem við nú lifum, þegar unglingaskólakrakkar leggja undir sig stjórnarráðið og stúdentar hernema sendiráð Íslands erlendis, mætti það furðu gegna, ef sjálfar framleiðslustéttirnar, sem öllum öðrum fremur bera ofurþunga þjóðfélagsbáknsins á herðum sér, létu ekki til sín heyra og hefðu ýmsar kröfur að gera til stjórnvalda og samfélags, enda hlýtur það svo að vera.

En hverjar sem kröfurnar verða í einstökum atriðum og hvaða baráttuaðferðum sem beitt verður til að knýja þær fram, er það víst, að Alþýðusamband Íslands mun leggja höfuðáherzlu á, að allt verði gert, sem unnt er, til að tryggja varanleik þeirra kjarabóta, sem um semst. Launahækkun nú má ekki hleypa út í almennt vöruverðlag. Stjórnarvöldunum ber að gera ráðstafanir til varðveizlu kaupmáttar launanna, með því m. a. að lækka eða að halda niðri verðlagi á helztu framleiðslunauðsynjum, eins og húsnæði og landbúnaðarvörum, og umfram allt með því að halda innan hóflegra marka sköttum á lágum tekjum og meðaltekjum. Það er mörkuð stefna Alþýðusambands Íslands, að taka þurfi upp áætlunargerð um stórfellda framleiðsluaukningu í útflutningsatvinnuvegunum, sérstaklega með fullnýtingu á vinnslu sjávarafurða, og samræmda heildarstjórn atvinnuuppbyggingar, peningamála og verðmyndunar, og þá ekki síður hitt, að samhliða áætlun um aukna framleiðslu og aukningu gjaldeyristekna ber að stefna að áætlunargerð um árvissar kjarabætur launastéttanna. Án þess að þetta sé gert, fæst engin vitglóra í þróun launamála né íslenzkra atvinnu- og efnahagsmála yfirleitt. Ég heiti á verkalýðshreyfinguna um land allt að þjappa sér saman til órofa samstöðu um réttlátar kröfur. Það er almennur þjóðarvilji, að launastéttirnar fái hlut sinn réttan á þessu vori.

Herra forseti. Ég lýk nú máli mínu og vík aftur að sveitarstjórnarkosningunum. Ný samtök bjóða fram nýja menn. Þeir flytja ný viðhorf og hreint loft inn í sveitarstjórnirnar. Þeim fylgir nýr andblær og hreyfing og hressileiki. Þeir eru líklegastir til að hreinsa til í gömlum hreiðrum gömlu flokkanna, og er þess víða hin fyllsta þörf. Fái Samtök frjálslyndra og vinstri manna kjörna bæjarfulltrúa í öllum stærstu kaupstöðum landsins nú í þessum sínum fyrstu kosningum, sem ég fastlega trúi, er það svo afdráttarlaust lífsvottorð, að ekki verður í efa dregið. Verður þá haldið áfram af auknum þrótti að skipuleggja samtökin um land allt, að tefla harðsnúnu liði fram til framboðs í öllum kjördæmum landsins í alþingiskosningunum á komandi ári. — Góða nótt.