28.04.1970
Sameinað þing: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Margir stjórnmálaatburðir hafa gerzt hér á landi á því ári, sem liðið er frá því að þjóðin hlustaði síðast á eldhúsdagsumr. frá Alþ. Þar ber hæst kjarasamningagerðina 19. maí í fyrra, inngöngu Íslands í Fríverzlunarbandalagið, stofnun nýs stjórnmálaflokks, mikinn árangur í baráttunni gegn atvinnuleysinu, örlög verðgæzlufrv., fyrirhugaðar endurbætur á húsnæðismálalöggjöfinni og ofbeldisaðgerðir námsmannahópa, bæði heima og erlendis.

Það er eðlilegt, að stúdentar og aðrir námsmenn sækist eftir bættum kjörum, auknum námslánum og hærri styrkjum. Um þetta á að geta ríkt samstaða meðal þeirra. Á hinn bóginn er það jafneðlilegt, að námsmenn eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins greini á um stjórnmálastefnur og hafi skiptar skoðanir, t. d. á utanríkismálum og varnarmálum. Stúdentarnir virðast ekki skilja það jafn vel og verkamenn, að það er óhyggilegt að blanda um of saman faglegri kjarabaráttu og stjórnmálabaráttu, en alla baráttu, um hvað svo sem hún snýst, verður í lýðræðisþjóðfélagi að heyja á grundvelli laga og réttar, en ekki með ofbeldi. Þjóðfélagið getur ekki komið til móts við neinar kröfur, sem studdar eru með ofbeldisaðgerðum og eignaspjöllum, því með slíkri undanlátssemi væri þjóðfélagið að bjóða ofbeldinu heim og veikja eigin grundvöll. En friðsamlega fram bornum kröfum verður þjóðfélagið að sinna, eftir því sem efni standa til. Að hinu leytinu má ekki sýna ofbeldisseggjunum neina linkind. Þeir eru ábyrgir gerða sinna og allir skulu jafnir fyrir lögum, hver sem í hlut á.

Það vekur eftirtekt, að æskulýðsfylking kommúnista er orðin eins konar fyrirgreiðslustofnun fyrir alls konar upphlaupalýð. Fylkingin skipuleggur hvers konar upphlaup og mótmælaaðgerðir, hvar sem unnt er að koma slíku við, en Þjóðviljinn reynir að bera blak af ósómanum. Mikill meiri hluti íslenzkra námsmanna veit, hvers eðlis þessi starfsemi kommúnista er, og skilur, að hún þjónar ekki góðum málstað.

Ég skal ekki hér gera umr. og ádeilur stjórnarandstæðinga sérstaklega að umræðuefni, en ég verð þó að segja, að þegar maður hlustar á lýsingar stjórnarandstæðinga á efnahagsástandinu nú og efnahagsástandinu áður, á kaupmætti launa, kjaraskerðingu, skattpíningu og öðru slíku, sem þeir ræða gjarnan um, þá verður manni að hugsa, að ef einhver sannleikur væri í slíkum málflutningi, þá sé hann raunverulega yfirlýsing um það, að kjósendurnir í landinu séu hrein flón að hafa þrívegis kosið slíka stjórn yfir sig. Sannleikurinn er sá, að fólkið þekkir staðreyndirnar og svona málflutningur dugar ekki.

Það er einmitt þessi trú stjórnarandstæðinganna á dómgreindarleysi kjósendanna, sem veldur gengisleysi þeirra. Þetta virðast stjórnarandstæðingar enn ekki skilja. Ég tek sem dæmi það, sem Gils Guðmundsson sagði í ræðu sinni áðan, að háskólanám væri að verða sérréttindi efnafólks. Þó vita allir, sem vilja vita, að stúdentum hefur aldrei fjölgað eins mikið með þjóð vorri og einmitt síðasta áratuginn.

Það er nú sýnt, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafa borið ávöxt og bætt hag þjóðarinnar, þótt allur vandi sé ekki leystur til frambúðar. Þennan árangur ber m. a. að þakka þeirri ábyrgð og framsýni, sem verkalýðshreyfingin sýndi við gerð kjarasamninga í marz 1968 og í maímánuði 1969. Þegar verst gegndi haustið 1968, kröfðust framsóknarmenn þingrofs og nýrra kosninga, töldu ríkisstj. ekki færa um að vinna bug á örðugleikunum, til þess þyrfti nýtt þing og nýja ríkisstj. Þessar kröfur eru nú hljóðnaðar. Enn sem fyrr sækist þó form. Framsfl. eftir lyklinum að stjórnarráðinu, en fer nú hægar í sakirnar en áður, og treystir aðallega á bæjarstjórnarkosningarnar í þeim efnum.

Enginn neitar því, og þá allra sízt Alþfl., að efnahagsáföllin hafa leitt til kjaraskerðingar fyrir alla þjóðina. Vegna batnandi efnahags þjóðarinnar, hlýtur tími bættra lífskjara einstaklinganna að vera á næsta leiti. Þessar kjarabætur munu að meginstefnu koma fram í þeim heildarsamningum, sem nú eru framundan, milli verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda. Þrátt fyrir traustari efnahagsgrundvöll er þó aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstj. mikill vandi á höndum í sambandi við þessa samningsgerð. Hann felst í því, að bæta þarf kjör launþega, án þess að ný verðbólgualda rísi. Það er sérstaklega mikilvægt að geta haldið verðbólgunni í skefjum nú þegar við erum orðnir aðilar að EFTA, því ef svo fer, að verðbólga vex hér hraðar en í öðrum ríkjum Fríverzlunarbandalagsins, þá er samkeppnisaðstaða okkar í hættu og þar með sá ávinningur, sem við teljum okkur geta hlotið af aðildinni. Þennan vanda tekst þó vonandi að leysa með einbeittum vilja og gagnkvæmum skilningi, og vantreysti ég engum í þeim efnum fyrirfram, þó kosningaskjálfta sé nú víða farið að gæta.

Kjaraskerðing undanfarinna ára hefur auðvitað bitnað á fleirum en launþegum. Hún hefur t. d. einnig bitnað á bótaþegum almannatrygginganna. Alþfl. hefur verið gagnrýndur fyrir það, hversu lítið bæturnar hafa hækkað að undanförnu. Það er vissulega rétt að beina þessari gagnrýni fremur að Alþfl. heldur en Sjálfstfl., þar sem Alþfl. telur sig hafa ríkari skyldum að gegna í þessu efni. Sú regla hefur verið notuð að láta hækkun bótanna fylgja þeirri hækkun, sem átt hefur sér stað á kaupgjaldi láglaunafólks. Af þessu hlýtur að leiða, að væntanlegar kauphækkanir hafa einnig í för með sér hækkun á bótum almannatrygginganna. Um úrbætur á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum, er ekki aðalatriðið að samþ. hækkunartill. á Alþ., heldur hitt að skapa þann efnahagsgrundvöll, sem gerir það fært að hrinda hlutunum í framkvæmd, en á þeim vettvangi hefur stjórnarandstaðan iðulega brugðizt.

Alþfl. hefur lengi haft áhuga á því að gera mikilvægar endurbætur á húsnæðismálalöggjöfinni. Þetta verk hefur lengi dregizt úr hömlu, og því var sannarlega mál til komið, þegar ríkisstj. í upphafi þessa mánaðar lagði fram húsnæðismálafrv. sitt, sem mikill styr hefur staðið um. Einkum hafa framsóknarmenn gert harða hríð að þessu frv. og rangtúlkað það á ýmsa vegu. Ljóst er, að framsóknarmenn leggja hér meiri áherzlu á að reyna að klekkja á ríkisstj. heldur en að styðja gott málefni. Í frv. er kveðið svo á, að 25% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í landinu skuli varið til kaupa á skuldabréfum húsnæðismálastjórnar. Í staðinn fá sjóðfélagar lífeyrissjóðanna óskert húsnæðismálalán, og er þar um mikla réttarbót þeim til handa að ræða, því að óbreyttum reglum getur húsnæðismálastjórn skert lánið til þeirra að sínum geðþótta. Þetta ákvæði frv. hefur verið nefnt eignaupptaka, frelsisskerðing, hneyksli og öðrum áþekkum nöfnum. Þessi öfgakenndi áróður á þó ekki við nein rök að styðjast. Ýmis dæmi um hliðstæða lagasetningu eru fyrir hendi. Árið 1964 voru samþ. á Alþ. af öllum flokkum lagaákvæði þess efnis að skylda líftryggingafélögin í landinu til þess að verja 25% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á íbúðarlánabréfum Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Þá er öllum kunnugt um lagaákvæði um skyldusparnað, sem allir flokkar hafa staðið að, þess efnis að skylda ungt fólk í landinu til þess að leggja fyrir um 10 ára skeið 15% af kaupi sínu í þágu húsnæðislánakerfisins. Þetta var gert án þess að spyrja unga fólkið, hvort því líkaði betur eða verr, og ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta gagnrýnt af hálfu þeirra manna, sem mesta umhyggju bera nú fyrir eignarréttinum. Einnig má benda á sem hliðstæðu lagaákvæði, er heimila Seðlabankanum að binda hluta af innstæðufé í einkabönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaga. Sannleikurinn er sá, að húsnæðismálafrv. stefnir að því að gera lánakerfið einfaldara, gagnstætt því, sem gildir á vettvangi lífeyrissjóðanna, þar sem flækjurnar aukast sífellt. Fjöldi lífeyrissjóðanna í landinu nálgast nú senn hundraðið og þeim er væntanlega stjórnað af 400–500 manna hópi, í stað þess að komast mætti af með einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, sem 3 menn stjórnuðu.

Það er auðsætt, hvað sem nú verður gert, að ekki er unnt að láta forráðamenn lífeyrissjóðanna til frambúðar valsa með mörg hundruð milljónir króna á ári, án þess að þjóðfélagið hafi einhver afskipti af því, í hvaða farveg þetta fjármagn rennur. Sízt ættu þeir, sem aðhyllast skipulagshyggju, að vera slíkri ráðstöfun andvígir. Sem fordæmi má einnig benda á, að löggjafarvaldið ráðstafar verulegum hluta af fé Atvinnuleysistryggingasjóðs til húsnæðismála, og er það þó sjóður, sem verkalýðsfélögin í landinu líta á sem eins konar sameign sína.

Auk annarra kosta, mundi bindingin á 25% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna þýða aukið heildarfjármagn til húsbygginga. Það sést bezt á því, að lífeyrissjóðirnir hafa undir höndum stórar fúlgur, sem eigi er varið til húsbyggingalána sjóðsfélaganna, enda er það eftirtektarvert, hve lífeyrissjóðirnir hafa látið hjá líða að hækka íbúðarbyggingalán sín á undanförnum árum.

Lítið fer fyrir því, að gagnrýnendur húsnæðismálafrv. beri sjálfir fram nýjar og betri till. um fjármögnun íbúðalánakerfisins. Framsóknarmenn í Ed. báru í vetur fram frv., þar sem gerð er till. um fjáröflunarleið á þá lund, að Byggingarsjóður ríkisins gefi út og selji skuldabréf, er njóti sérstakra skattfríðinda. Kaupendum bréfanna skal, á því ári sem kaup fara fram, heimilt að draga andvirði bréfanna frá tekjum sínum og njóta þannig mikils frádráttar gagnvart útsvari og tekjuskatti. Allar slíkar till. ber að athuga gaumgæfilega að mínum dómi. En þessi till. framsóknarmanna hefur greinilega tvo mikla ókosti. Annars vegar er alveg óvíst, hversu mikið fjármagn fengist á þennan hátt, og hins vegar er alveg ljóst, að ef bréf þessi seldust vel, þá mundu tekjur sveitarfélaga og ríkisins af útsvörum og tekjuskatti rýrna til muna.

Í húsnæðismálafrv. felast mestar endurbætur á löggjöfinni um verkamannabústaði. Það er varlega áætlað, að af samþykkt frv. mundi leiða, að bygging verkamannabústaða úti um landsbyggðina mundi fimmfaldast á næstu árum, samanborið við íbúafjölda í verkamannabústöðum, sem byggðir hafa verið árlega að undanförnu. Vextir af lánum úr Byggingarsjóði verkamanna verða einungis 2% og réttur Seðlabankans til að ákveða vaxtafjárhæðina er felldur niður. Samkvæmt frv. er skylt að veita heildarlán út á íbúðir í verkamannabústöðum, er nema 80% af kostnaðarverði, en samkvæmt gildandi lögum er lánamarkið einungis heimildarákvæði. Fjárframlög ríkis og sveitarfélaga til verkamannabústaða eru stóraukin. Byggingarfélög verkamanna eru lögð niður sem byggingaraðilar. Ástæðan er sú, að þessi félög hafa víða verið of veikburða, og það er ekki heldur sanngjarnt að grundvalla úthlutun íbúða til láglaunafólks á því, hversu lengi menn hafa verið félagar í byggingarfélagi. Í stað byggingarfélaga verkamanna koma annars vegar sveitarfélögin og hins vegar sérstakar stjórnir verkamannabústaða í hverju sveitarfélagi, sem aðild á að kerfinu. Þær verða skipaðar fulltrúum sveitarfélaganna, húsnæðismálastjórnar og verkalýðsfélaga. Þá er þess að geta, að lán til verkamannabústaða, sem nú eru í smíðum, verða samkvæmt frv. hækkuð um 200 þús. kr. á íbúð.

Meðal margra nýmæla frv. eru rýmkaðar lánsheimildir til leiguíbúðabygginga, sem stúdentar gætu m. a. notið góðs af við byggingu hjónagarðs.

Húsnæðismálafrv. hefur orðið fyrir töfum hér á Alþ. Ég treysti ríkisstj. til að fylgja málinu fast eftir, svo eðlileg endurskoðun frv. geti sem fyrst farið fram í þn. Mótblásturinn gegn frv. er að minni hyggju aðallega runninn undan rifjum sérhyggjumanna, er vanmeta það félagslega vandamál, sem hér þarf að leysa.

Á yfirstandandi þingi hefur skattamálið nokkuð borið á góma, þó engin stórtíðindi hafi gerzt í þeim efnum. Lögð var fram ítarleg skýrsla frá n., sem athugaði staðgreiðslukerfi skatta. Það er mín skoðun, að staðgreiðslukerfið sé ekki nándar nærri eins ákjósanlegt fyrir launþega og margir halda. Höfuðáherzluna ber að leggja á einföldun skattakerfisins, t. d. með því að sameina tekjuskatt og útsvar í einn skatt, sömuleiðis eignarskatt og eignarútsvar. Ýmiss konar gjöld á atvinnurekstur má líka sameina í eitt gjald. Með þessu móti vinnst margt, m. a. betra eftirlit. Það er fyrst, þegar þetta er komið í kring, sem tímabært er að hugsa um staðgreiðslukerfið. Skattseðlarnir í dag eru vottorð um flækjustefnuna í þjóðfélaginu. Mér voru það vonbrigði þegar fyrir skömmu var flutt á Alþ. frv. um skattalagabreytingar, er áttu að létta undir með atvinnurekstrinum vegna EFTA-aðildarinnar. Þetta frv. var gagnsýrt af nýjum skattaflækjum. Við þurfum að greiða úr flækjunum og gera hlutina einfaldari, en þá þurfum við einnig að hafa kjark til að standa af okkur mótblástur ýmiss konar sérhagsmunahópa með þröngan sjóndeildarhring.

Á s. l. hausti var stofnaður nýr stjórnmálaflokkur, sem tekur nú í fyrsta skipti þátt í eldhúsumr. frá Alþ. Þó að flokkurinn sé nýr, þá eru aðalforingjar hans, Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson, gamalreyndir stjórnmálamenn. Það er sannarlega ánægjulegt, að þessir mætu menn skuli hættir öllu samstarfi við kommúnista. Hitt harma ég, að þeir skyldu fremur velja þann kost að stofna nýjan stjórnmálaflokk heldur en að ganga í Alþfl. Sennilega hafa þeir gert þetta af því, að þeir vilja ekki vera í flokki, sem vinnur með íhaldinu. Þessi afstaða þeirra er þó ekki á nægilegum rökum reist að mínum dómi. Þeir hafa sjálfir þegið stuðning sjálfstæðismanna til þess að komast í æðstu trúnaðarstöður innan verkalýðshreyfingarinnar. Hitt skiptir þó meira máli, að innan Alþfl. er hverjum og einum frjálst að berjast fyrir því, að núverandi stjórnarsamstarfi verði slitið. Það er að sjálfsögðu ekkert stefnuskráratriði hjá Alþfl. að vinna með einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki, og samstarf hans við aðra flokka markast af því, hvaða málum hann hefur tök á að koma fram. Ef Hannibal og Björn hefðu gengið í Alþfl., þá hefði aðstaða flokksins eflzt til þess að koma fram áhugamálum sínum, bæði á meðan núverandi stjórnarsamstarf varir og síðar. En hætt er við, að stofnun hins nýja flokks verði íhaldsöflunum í landinu til framdráttar, þó að ekki sé til þess ætlazt. Á hinn bóginn er ljóst, að eigi gætir fullrar einingar í hinum nýja flokki, þar sem Norðlendingar í flokknum eru vinstri sinnaðir, en Sunnlendingarnir frjálslyndir.

Mikill glundroði er nú ríkjandi á vinstri vettvangi íslenzkra stjórnmála. Ég hef þá trú, að allir lýðræðissinnaðir jafnaðarmenn á Íslandi geti starfað saman í einum flokki og að sá mikli glundroði, sem nú er uppi, sé aðeins lokaþátturinn í beisku reynsluskeiði fortíðarinnar, en jafnframt undanfari þeirrar traustu einingar, sem framtíðin þarf að bera í skauti sínu. — Góða nótt.