29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

Almennar stjórnmálaumræður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Verkalýðshreyfingin er nú sem óðast að undirbúa nýja kaupgjaldsbaráttu til að rétta hlut verkafólks eftir hina miklu kjaraskerðingu síðustu ára. Fyrir tilstilli ríkisstj. og meiri hl. Alþ. hefur kaupmáttur launanna verið lækkaður stórlega. Vegna aðgerða sinna í þessum efnum eiga stjórnarflokkarnir, og þó sér í lagi ríkisstj., skilið þunga áfellisdóma frá launafólki og þá ekki sízt hinum lægst launuðu. Helzta stjórnunartæki núverandi ríkisstj. í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur verið gengisfelling. Gengisfelling er stórvirk aðferð til að hafa áhrif á tekjuskiptinguna og tilfærslu fjármuna í þjóðfélaginu, sem ávallt kemur harðast niður á þeim, er sízt skyldi, þeim, er minnst mega sín. Á valdatíma ríkisstj., sem nú er orðinn heill áratugur, hefur gengi krónunnar verið fellt fjórum sinnum. Við allar þessar gengisfellingar var það fyrsta boðorðið og talið skipta öllu máli, að verðhækkunum af völdum gengisfellinganna væri bótalaust velt yfir á almenning, og ekki skirrzt við að setja ofbeldislög gagnvart verkalýðshreyfingunni til að ná því marki. Því hefur óspart verið haldið að fólki, að síðustu gengisfellingarnar hafi verið nauðsynlegar vegna áfalla, sem þjóðarbúið varð fyrir sökum aflabrests og verðfalls á útflutningsafurðum. Stjórnarherrarnir hafa hins vegar ekki orð á því, að næstu árin á undan voru ein mestu velgengnisár, sem hér hafa komið, sökum mikils afla og góðra viðskiptakjara. Það ber ekki vott um, að hyggilega hafi verið stjórnað, að strax og nokkuð bjátar á skuli gripið til jafnafdrifaríkra ráðstafana í efnahagsmálum og síðustu gengisfellingarnar voru. Þar var ekki fyrningabúskapur, ekki borð fyrir báru. Með tveim síðustu gengisfellingum var erlendur gjaldeyrir tvöfaldaður í verði miðað við Bandaríkjadollar og miklar verðhækkanir fylgdu í kjölfarið. Þær nema nú um 50% samkvæmt vísitölu. Þessar verðhækkanir átti alþýða manna að bera bótalaust. Með lögum var verðtrygging launanna afnumin.

Þegar síðasta gengisfellingin og sú mesta var framkvæmd, haustið 1968, hafði atvinnuleysið þegar skollið á og verkafólkið orðið fyrir miklum kjaraskerðingum af þess völdum og vegna minni yfirvinnu hjá þeim, sem vinnu höfðu. En kjaraskerðingin skyldi verða enn stórkostlegri. Engar verðlagsuppbætur átti að greiða á kaupið og launin því lækkuð stórlega miðað við vöruverð. Svo kaldrifjuð kjaraskerðingarstefna gagnvart láglaunafólki mun algert einsdæmi í okkar heimshluta.

Og að þessu stóðu allir þm. stjórnarflokkanna. Alþfl., sem kallar sig verkalýðsflokk, má sannarlega blygðast sín fyrir slíka framkomu.

Verkalýðshreyfingunni tókst með samningunum í marz 1968 og í maí 1969 að forða launþegum frá verstu áföllunum af þessari kjaraskerðingarstefnu ríkisstj. og atvinnurekenda. En skerðingin hefur þó orðið mikil. Og þessa kjaraskerðingu vill verkalýðshreyfingin nú fá bætta með hækkuðum launum. Nú verður ekki við borið neinu hallæri. Á síðasta ári varð aflamagnið 11% meira en árið á undan og aflaverðmætið fjórðungi hærra. Einni allra beztu vetrarvertíð, sem hér hefur komið, er nú að ljúka, og verð á flestum útflutningsvörum okkar það hæsta, sem þekkzt hefur.

Verkalýðsfélögin eru nú að setja fram kröfur sínar um nýja samninga. Verkamannafélagið Dagsbrún hefur mótað sínar kröfur. Aðalefni þeirra er, að kaupið hækki um 25% frá því, sem það er í dag. Það kaup verði síðan gert að grunnkaupi og kaupgreiðsluvísitala sett á hundrað. Nauðsynlegar leiðréttingar verði gerðar á reglum um verðlagsuppbætur á kaup til tryggingar kaupmætti þess. Fyrstu kauptaxtar félagsins verði felldir niður og einnig sérstakur eftirvinnutaxti, sem nú er með um 40% álagi á dagvinnukaup, en allt yfirvinnukaup verði greitt með 80% álagi á dagvinnukaup, en það er sama álag og næturvinnan er nú greidd með.

Ég hef hér nefnt höfuðkröfur Dagsbrúnar varðandi kauphækkun, og svipaðar verða kröfur annarra almennra verkalýðsfélaga, en mörg önnur atriði í samningum verkamanna- og verkakvennafélaganna verða nú til endurskoðunar, þar sem engin breyting hefur orðið á þeim s. l. 4 ár, nema að því er varðar vísitölu á kaupið. Til kunna að vera þeir, sem finnst þetta háar kröfur, en þeir hinir sömu ættu að gera sér grein fyrir, hvert kaup verkamanna og annars láglaunafólks er í dag. Samkvæmt 2. taxta Dagsbrúnar, sem nú má telja almennt kaup verkamanna, er vikukaupið 2820 kr. og mánaðarkaupið 12 241 kr. Lægsti taxtinn nær hins vegar ekki 12 þús. kr. á mánuði. Ef orðið yrði við helztu kröfum félagsins, mundi þessi taxti hækka um tæp 29% og vikukaupið verða 3634 kr. eða 15 777 kr. á mánuði. Af þessu sést, að það er ekki verið að fara fram á hátt kaup, og þeir, sem hugsa sér að standa gegn því, að það nái fram að ganga, ættu sjálfir að reyna að leysa það vandasama dæmi, hvernig meðalfjölskylda á að lifa sómasamlega af þessu kaupi, hvað þá heldur lægra, eins og dýrtíð er nú háttað.

Fólk með lágar tekjur notar stærri hluta þeirra til kaupa á matvörum en aðrir gera. Það er því rétt að athuga, hvernig kaupmátturinn hefur breytzt gagnvart þessum vörum. Samkvæmt vísitölu Hagstofunnar hefur breytingin orðið þessi: Matvörur, sem kostuðu 100 kr. í sept. 1967, þ. e. fyrir gengisfellingarnar, kostuðu í febr. s. l. 170 kr. og hafa sjálfsagt hækkað síðan. Kaup, sem var 100 kr. í sept. 1967 og fengið hefur hæstu verðlagsuppbót, er nú í aprílmánuði 135 kr., eða hefur hækkað aðeins um helming þess, sem matvörur hafa hækkað. Þetta kaup þarf nú að hækka um 26%, til þess að kaupmáttur þess verði hinn sami gagnvart matvörum og hann var í sept. 1967. Þess skal getið, að matvörur hafa hækkað langmest alls þess, sem vísitalan mælir. — Það er sannarlega ljót saga, að Alþfl. skuli hafa staðið að þessari óheillaþróun í samvinnu við Sjálfstfl.

Jafnhliða þeirri þróun í launamálum, sem ég hef hér lýst, hafa beinir skattar sífellt farið hækkandi á launafólki. Eitt af loforðum ríkisstj. í upphafi valdaferils hennar var að afnema beina skatta af þurftartekjum. Reyndin hefur orðið sú, að beinir skattar af þurftarlaunum hafa hækkað hlutfallslega hin síðari ár. Skattvísitölunni hefur verið haldið mikið til óbreyttri, þannig að persónufrádráttur hefur ekki verið í neinu samræmi við aukningu dýrtíðarinnar. Þegar þessi mál voru rædd hér á Alþ. á s. l. hausti, hafði fjmrh. þá afsökun fyrir því, að skattvísitölu hefði ekki verið breytt, að ríkissjóður hefði þurft á þessum skatttekjum að halda og hækkun skattvísitölu hefði haft í för með sér hækkun annarra skatta, svo sem söluskatts. Nú flytur ríkisstj. hins vegar frv. um lækkun skatta á fyrirtækjum í formi hækkaðra afskrifta. Og ekkert er minnzt á, að bæta þurfi tekjumissinn. Það er ekki sama hver í hlut á. En eitt er víst, að almenningur verður látinn borga. Þetta skeður á sama tíma og tekjuskattur á einstaklingum hefur margfaldazt að krónutölu, en staðið í stað á fyrirtækjum og félögum. Skattaívilnun til fyrirtækja er nú rökstudd með því, að samræma þurfi skattgreiðslu þeirra við það, sem er í öðrum EFTA-löndum. En enginn samanburður liggur fyrir, hvernig þeim málum er háttað.

Ég hef hér rætt um mál, sem almenningi eru nú efst í huga, launamálin. Sjálfsagt verður því haldið fram, eins og venja er, að atvinnureksturinn þoli ekki þessar kauphækkanir. „Flýtum okkur hægt“, sagði hæstv. forsrh. í gærkvöldi. Svar verkafólksins er: Við þolum ekki lengur þetta lága kaup. Því má heldur ekki gleyma, að kaupgjaldsbarátta verkalýðshreyfingarinnar er eitt sterkasta framvinduaflið í þjóðfélaginu. Kaupgjaldsbaráttan knýr atvinnurekendur til hagkvæmari rekstrar, meiri tækni og betri stjórnunar á fyrirtækjum sínum til að halda gróðanum. Íslenzkir atvinnurekendur hafa þó langt um of flúið frá vandanum á náðir verðbólgugróðans, en ættu nú að láta því lokið. Ríkisvaldið ætti að stuðla að því með því að hleypa kauphækkunum ekki út í verðlagið.

Kjaraskerðingunum og láglaunatímabilinu verður að ljúka. Það er þjóðfélagsleg nauðsyn. Ég efast ekki um, að verkalýðshreyfingin muni nú hafa afl og aðstöðu til þess að knýja fram kauphækkanir. En það er ekki nóg. Það þarf einnig að gæta fengins fjár og það er máske vandinn meiri. Öll kjaraskerðingin nú er verk stjórnmálamanna á Alþ. og ríkisstj., manna, sem launafólk hefur kosið. En það er einnig á þess valdi að svipta þá völdum. Það verður hægt í síðasta lagi að ári liðnu. En við sveitarstjórnarkosningarnar, síðasta dag maímánaðar, er tækifæri til þess að gefa stjórnarflokkunum þá pólitísku ráðningu, sem dygði til að tryggja ávinninga kaupgjaldsbaráttunnar. En þetta gerist því aðeins, að launafólk fylki sér um Alþb., eina aflið í íslenzkum stjórnmálum, sem stjórnarflokkarnir óttast. Þeir óttast ekki flokksbrot Hannibals Valdimarssonar, sem nú er forseti Alþýðusambandsins fyrir náð Sjálfstfl. og með atkvæðum hans. Þeir vita líka, hvar þeir hafa Framsfl., ef helmingaskiptareglan væri í boði.

1. maí rennur upp að einum degi liðnum. Sá dagur verður nú fyrst og fremst helgaður kröfum verkalýðsfélaganna í launamálunum. Ég hvet alla félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar og alla velunnara hennar til öflugrar þátttöku í fundarhöldum og kröfugöngum 1. maí, hvar sem er á landinu og þá ekki sízt hér í Reykjavík. Gerum 1. maí að öflugum baráttudegi fyrir faglegum kröfum okkar. Gerum 31. maí að sigurdegi alþýðunnar, með því að kjósa Alþb.