29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Pólitískar orrahríðar úr sölum Alþ., sem þjóðin enn einu sinni fær að heyra í kvöld og ég heyrði í gærkvöld, eru ekki í miklu samræmi við kröfur tímans um upplýsingaþjónustu fyrir almenning og því miður ekki í þeim stíl, að líklegt sé til að auka virðingu Alþ. En um það tjóar ekki að fást úr því að samkomulag fékkst ekki um nýtt form þessara umr., enda má af þeim draga nokkra lærdóma, ef menn nenna að leggja við eyrun. Það eitt var sameiginlegt í ræðum stjórnarandstæðinga í gærkvöld og mun án efa einnig verða í kvöld, að það sé þjóðinni öllu öðru nauðsynlegra að koma núv. ríkisstj. frá völdum, en síðan upphófust innbyrðis ásakanir um það, hvernig þessi eða hinn flokkurinn eða flokksbrotið hefði spillt árangrinum af hinni þjóðnýtu sókn gegn ríkisstj. Formaður Alþb. reyndi að hugga sig við óeiningu í ríkisstj. um afstöðu til mála á Alþ., en eftirtekja leitar að ágreiningsefnum var hörmulega rýr, aðeins tvö mál eftir 10 ára samstarf, og annað þeirra kvennaskólafrv., sem alls ekki er flokkspólitískt mál. Stjórnarandstæðingamegin eru hins vegar vaxandi illindi og nýir og nýir flokkar, sem nánast berast á banaspjót. Slíku tætingsliði á þjóðin að fela forustu sinna mála. Á nýafstaðinni flokksstjórnarsamkundu Framsfl. varð formaður flokksins fyrir verulegum aðfinnslum fyrir slappa forustu. Síðan hefur hv. þm. Ólafur Jóhannesson, sem annars er hið mesta prúðmenni og friðsemdarmaður, tekið upp alveg nýjan málflutning, sem einkennist af stóryrðum og hávaða. Ræða hans í gærkvöld var algert met í þessu efni og fær hann hér eftir varla ákúrur frá ofsamönnum í flokki sínum fyrir að hafa ekki tileinkað sér hreinræktaðan Framsóknarstíl. óneitanlega var dálítið broslegt að heyra hneykslunaryrði formanns Framsfl. um hinar óteljandi nefndir og ráð, sem öllu væru að tortíma, því að enginn flokkur hefur verið elskari að nefndakerfi en Framsfl., enda engir afkastameiri í tillöguflutningi á Alþ. um nýjar og nýjar nefndir en framsóknarþm. Nefndir og ráð eru ekki fleiri nú en áður og auðvitað hrein rangfærsla að halda því fram, að fjmrn. telji ekki hægt að koma tölu á nefndirnar. Hitt er rétt, að það geti orkað tvímælis í ýmsum tilfellum, hvað eigi að kalla nefnd, t. d. þegar tveimur mönnum er falið að semja frv. eða fulltrúum úr ýmsum stjórnardeildum er falið sameiginlega að athuga mál, oftast án sérstakrar greiðslu, og fleiri vafaatriði má nefna. Þetta benti rn. á í svari sínu við fyrirspurn yfirskoðunarmanna um tölu nefnda á árinu 1968. Í þetta vitnaði formaður Framsfl. og taldi furðu mikla, en honum láðist að vitna til svara yfirskoðunarmanna, sem algerlega fallast á skoðun rn. Auðvitað eru nefndir engin sönnun um skipulagsleysi í stjórnkerfi, heldur geta þær miklu frekar bent til þess, að unnið sé að mörgum verkefnum. Það væri fróðlegt að vita, hvaða nefndir þeir framsóknarmenn vildu leggja niður. E. t. v. skólanefndir og áfengisvarnanefndir, sem eru um 2/3 af öllum nefndum?

Annað dæmi um spillinguna í þjóðfélaginu voru nefndastörf ráðh. Vel má fallast á þá skoðun, að ráðh. eigi yfirleitt ekki að sitja í nefndum og ráðum. En að það stafi af valdasýki og leiði til spillingar, er vægast sagt ósæmileg fullyrðing af ábyrgum flokksleiðtoga, og að þetta þekkist ekki í öðrum löndum, er ekki rétt. Dæmið, sem hann valdi, um þrjá ráðh. í atvinnumálanefnd ríkisins er mjög óheppilegt, því sú nefnd er einmitt sett á laggirnar sem tengiliður á milli verkalýðssamtaka, vinnuveitenda og ríkisstj. og mundi alls ekki nást tilætlaður árangur af því samstarfi, nema ráðh. eigi sjálfir sæti í nefndinni.

Um bílamál ríkisins hafa verið settar fastar reglur, sem ekki tókst í stjórnartíð framsóknarmanna, og mjög jákvæður árangur hefur náðst í endurskipulagningu margra þátta stjórnsýslunnar nú á síðustu árum, með tilkomu fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar og aukinni samvinnu, sem komið hefur verið á við fjvn. Alþ. Ég hygg því, að sjaldan hafi verið minni ástæður en nú að breiða sig út yfir spillingu í stjórnsýslukerfinu, þótt enn megi auðvitað margt bæta.

Formaður Framsfl. kvað flokk sinn ekki hafa talið tímabært að ganga í EFTA. Flokkurinn taldi á sínum tíma ekki heldur tímabært að virkja Þjórsá til stóriðju. Samtímis ásaka þessir menn ríkisstj. um þreytu og framtaksleysi, en geta þó ekki sjálfir myndað sér skoðun um mikilvægustu mál eða vilja láta þau bíða. Sér er nú hver framsóknin. Hvar værum við stödd og hvernig hefði atvinnuástandið verið síðustu tvö árin, ef ekki hefði verið brotin á bak aftur hin þröngsýna andstaða gegn stóriðjuframkvæmdum, og hver væri framtíð okkar í landinu, ef við hefðum ekki haft þor til að ganga í EFTA og hefja alhliða iðnvæðingu, í stað þess að reyna að lifa og framleiða fyrir okkur sjálf, 200 þús. hræður, í skjóli hárra tollmúra? Iðnrekendur sjálfir hafa hér sýnt þann manndóm og kjark, sem hina pólitísku foringja í stjórnarandstöðunni skortir. Málið hefur líka vissulega verið undirbúið með nauðsynlegum hraða, bæði varðandi tollamál iðnaðarins, lánsfjáröflun til nýrrar iðnvæðingar og eflingar eldri fyrirtækja, með útflutningslánasjóði og tryggingum útflutningslána, og loks með undirbúningi víðtækra skattalagaumbóta til eflingar atvinnurekstri, allt á nokkrum mánuðum. Strax má líka sjá á ýmsum sviðum fjörkipp í iðnaðinum, og það var alröng staðhæfing hjá hv. þm. Ágústi Þorvaldssyni, að um samdrátt sé að ræða hjá iðnaðinum.

Þeirri firru hefur enn verið haldið fram í þessum umr., að ríkisstj. hafi látið togaraflotann grotna niður. Á tímum bátagjaldeyriskerfisins var verr búið að togurum en bátum. En á síðustu árum hefur ríkissjóður veitt togurunum verulega rekstrarstyrki til að tryggja útgerð þeirra. Því miður hefur togarana skort nauðsynlegan rekstrargrundvöll, en það hefur aldrei skort á eðlilega fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda til kaupa á nýjum togurum. Togaraútgerðarmenn hafa hins vegar af skiljanlegum ástæðum ekki talið sér fært að standa undir sífelldum hallarekstri, og útgerð annarra skipa hefur verið miklum mun arðvænlegri. Meira að segja hv. þm. Lúðvík Jósefsson gafst upp á að reka togara í Neskaupstað. Stjórnvöld eiga enga sök á þessari þróun.

Nú hefur, m. a. vegna aðgerða stjórnvalda og nýrrar tækni, verið talið gerlegt að ráðast í kaup nokkurra nýtízku togara með verulegri fyrirgreiðslu ríkisins, og er þó því miður síður en svo, að kaupendur standi í biðröðum. Hér er um mikla nauðsyn að ræða, en sjálfsagt að fara að öllu með gát. Yfirboðstillögur stjórnarandstæðinga um kaup á 15 eða 20 togurum nú þegar eru óraunhæfar. Það er rétt, að stuðla þarf að kaupum nokkurra skuttogara, sem einstök byggðarlög hafa sýnt áhuga á að eignast. Hefur þegar verið gert ráð fyrir lánsfjáröflun í þessu skyni og er í athugun, hvort frekari fyrirgreiðsla ríkisins þurfi til að koma. En óraunhæf yfirboð stjórnarandstæðinga leysa ekki þessi vandamál fremur en önnur.

Síðasta dæmið af því tagi er till. um að hækka lántöku til sveitarafvæðingarinnar, eftir að ríkisstj. hefur ákveðið lántöku til að ljúka lagningu allra dreifiveitna að 1,5 km meðalfjarlægð á milli bæja á þessu ári og því næsta, og engin von er til þess, að hægt sé að vinna í ár fyrir hærri upphæð en þær 60 millj. kr., sem til ráðstöfunar eru og er miklu hærri fjárhæð en nokkru sinni hefur verið unnið fyrir á einu ári. Svona málatilbúnaður er ekki traustvekjandi.

Bæði formaður Framsfl. og Alþb. töluðu í gærkvöld um hina gífurlegu skuldasöfnun erlendis, sem manni skildist að tefldi þjóðinni í stórhættu. Vissulega er skuldasöfnun erlendis varasöm, ef hún stuðlar ekki að aukinni gjaldeyrisöflun. En þá er hún ekki aðeins eðlileg, heldur sjálfsögð. Við hinar tvær gengisbreytingar hafa erlendar skuldir um það bil tvöfaldazt að krónutölu, en auðvitað er fullkomin rangfærsla að halda því fram, að skuldirnar hafi fyrir þá sök hækkað, því útflutningsverðmætin í krónum hafa vitanlega hækkað að sama skapi. Þá er það og veigamikil staðreynd, að síðustu árin hefur öll hin erlenda skuldaaukning verið í sambandi við framkvæmdir, sem tryggja auknar gjaldeyristekjur á komandi árum, og eru því ekki neinn baggi á hinar venjulegu gjaldeyristekjur. Svo að segja öll hin erlendu lán eru föst lán, en í lok valdaferils vinstri stjórnarinnar voru geigvænlegar lausaskuldir, sem var eitt af fyrstu verkefnum núverandi stjórnar að losna við. Það er auðvitað ekkert að undra, þó að hlutfall erlendra lána af gjaldeyristekjum verði hátt, þegar útflutningstekjur lækka allt í einu um helming, en það hlutfall breytist fljótt við aukna gjaldeyrisöflun. Hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði, að þjóðin hefði verið illa undir áföllin búin. Hvernig halda menn að undirbúningurinn hefði verið, ef ekki hefði verið fylgt þeirri stefnu í peningamálum, að bankarnir ættu myndarlegan gjaldeyrisvarasjóð, þegar óhöppin dundu yfir? Sú stefna hefur beinlínis gert þjóðinni mögulegt að komast yfir viðskiptaörðugleikana, án nýs haftakerfis og jafnvel vöruskömmtunar. Hvar hefðum við verið stödd, ef fylgt hefði verið leiðsögn fjármálaspekinga stjórnarandstöðunnar um að eyða öllum gjaldeyri jafnóðum? Ég er ekki heldur vonlaus um, að ýmsir forustumenn stjórnarandstöðunnar hafi lært nokkuð af þessari reynslu, því fátítt er nú í málflutningi þeirra að heyra ásakanir á ríkisstj. fyrir að halda áfram þeirri stefnu að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð, þótt hv. þm. Ágúst Þorvaldsson talaði að vísu í gærkvöld af lítilli virðingu um þá menn, sem vildu fylgja föstum lögmálum í peninga- og efnahagsmálum, eina ráðið væri bara að efla atvinnuvegina. En hvernig það mátti verða með allt fjármálakerfið í ólestri, láðist honum að vísu að gera grein fyrir. Við erum að vísu lítil efnahagsheild, og því miður verka allar breytingar í framleiðslu- og efnahagsþróuninni meira á efnahagskerfið hér en í hinum stærri löndum. En það er auðvitað fjarri öllu lagi að halda því fram, að hér gildi ekki í meginatriðum sömu efnahagslögmál og í öðrum löndum með frjálst hagkerfi.

Það var ekki heldur rétt hjá hv. þm. Lúðvík Jósefssyni að verðhrun og aflabrestur hefðu strax skollið yfir almenning í versnandi lífskjörum. Einmitt vegna góðrar afkomu ríkissjóðs á árinu 1966 var hægt, með fjárgreiðslum úr ríkissjóði, að halda niðri verðlagi til hausts 1967. Því miður leiddi þetta að lokum til skuldasöfnunar hjá ríkissjóði, sem er hluti af þeim rekstrarhalla ríkissjóðs, sem orðið hefur síðustu þrjú árin.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson deildi á ríkisstj. fyrir skattheimtu og aukin útgjöld ríkissjóðs síðustu árin. Það er ekki rétt, að almennir skattar hafi verið hækkaðir þessi ár, ef frá er talið, að skattvísitala hefur ekki að fullu fylgt kaupgjaldsvísitölu síðustu tvö árin, og hefur hún þó hækkað um 40%. Útgjöld ríkissjóðs hafa óhjákvæmilega aukizt verulega, bæði vegna þess að þrátt fyrir efnahagsáföll hefur þjónusta ríkisins við borgarana ekki verið skert, laun hafa hækkað allverulega og tryggingabætur, og loks hefur verið reynt að halda uppi opinberum framkvæmdum, svo sem frekast hefur verið auðið, til þess að forðast atvinnuleysi. Svo tæpt hefur hins vegar verið teflt með tekjuöflun, að 600 millj. kr. skuld hefur myndazt við Seðlabankann á síðustu 3 árum. Við þetta má svo bæta, að á hverju þingi hafa stjórnarandstæðingar flutt margar till. um ný stórfelld útgjöld úr ríkissjóði. Nú staðhæfa stjórnarandstæðingar, að batinn í efnahagslífinu sé á engan hátt ríkisstj. og stuðningsliði hennar að þakka, heldur góðu árferði. Hins vegar áttu áföllin síðustu árin að mestu að vera ríkisstjórnarinnar sök. Vitanlega á árferði og aflabrögð og verðlag stærstan þáttinn í bæði áföllunum og batanum. En þó hefðu áföllin getað orðið miklu þungbærari og batinn komið síðar, ef ekki hefðu komið til réttar aðgerðir stjórnvalda.

Haustið 1968 vildu stjórnarandstæðingar, í viðræðum um vandamálið þá, ekki fallast á gengisbreytingu, og hlytu þeir því að hafa valið haftakerfið, ásamt stórfelldu uppbótakerfi, ef þeir hefðu þá fengið að ráða. Ég efast um, að margir séu finnanlegir nú, sem ekki játa, að ríkisstj. valdi þá réttu leiðina, sem bætt hefur úr efnahagsvandanum mun fyrr en ella. Haftakerfið hlyti að hafa leitt til stórfelldra vandræða, sem ekki hefði verið auðvelt að komast út úr.

Hv. þm. Ingvar Gíslason fræddi okkur á því í gærkvöld, að sjálfstæðismaður, sem hann fór með í flugvél fyrir mörgum árum, hefði talið stjórnarandstöðuna of lina. Margt hefur rangar verið sagt. En harka er ekki nóg, ef menn vita ekki hvað þeir vilja, utan það að komast í ráðherrastól. Kosningar eftir kosningar ættu að hafa sannfært stjórnarandstæðinga og þá ekki sízt framsóknarmenn um það, að þjóðin hugsar meira en þeir álíta. Menn vilja stefnumörkun, en ekki óljóst hugtakaþrugl, eins og „hina leiðina“, skipulagshyggju eða eitthvað annað, sem aldrei er hægt að fá útskýrt hvað raunverulega merkir.

Umbótaviljinn á öllum sviðum, sem þeir stjórnarandstæðingar töluðu svo fjálglega um í gærkvöld, er auðvitað gífurlegur. En gallinn er bara sá, að þessi vilji gufar ótrúlega fljótt upp, þegar þeir eru sjálfir við stjórn. Skyldi enginn hafa brosað í gærkvöld, þegar hv. þm. Ingvar Gíslason sagði ríkisstj. hafa gefizt upp við að stjórna? Hvaða forsrh. var það, sem síðast gafst upp við að stjórna þessu landi, eftir að hafa komið þjóðfélaginu fram á hengiflug óðaverðbólgu, svo sem hann lýsti sjálfur, og það á góðæristímum? Annars vöktu mesta athygli bollaleggingar þessa hv. þm. um að atferli kommúnistískra uppþotsmanna í Svíþjóð gæti orðið fordæmi í stjórnmálabaráttu hér heima.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson spurðist fyrir um það í gærkvöld, hver væri stefna ríkisstj. í kjaramálum. Stefna ríkisstj. er og hefur verið sú, að launþegar eigi að bera það úr býtum, sem atvinnureksturinn getur frekast risið undir, en leggur áherzlu á þá staðreynd, að blómlegir atvinnuvegir eru undirstaða góðra lífskjara, og séu lagðar á atvinnufyrirtækin of þungar byrðar, þá geti það leitt til stöðnunar, en ekki til kjarabóta. Á sama hátt sem almenn kjaraskerðing var óumflýjanleg meðan illa áraði, — einmitt af því að gróða velmegunaráranna hafði jafnóðum verið úthlutað í hærri launum, svo sem Eðvarð Sigurðsson gat um áðan, — þá ber að sjálfsögðu, að bæta úr þeirri kjaraskerðingu, strax og aðstæður leyfa. Í sambandi við þessa kjaraskerðingu er þó ástæða til að mótmæla þeim endurteknu staðhæfingum, að raunkjör almennings hafi ekki batnað síðan 1958. Óvefengjanlegar samanburðartölur sýna, að kaupmáttur atvinnutekna hefur vaxið um 37% frá 1. nóv. 1958 til 1. nóv. 1969. Verkalýðsforystan hefur á síðustu árum sýnt verulegan skilning á hinum efnahagslegu staðreyndum og það veltur á óendanlega miklu, að sá skilningur sé til staðar nú, að kjarabótakröfurnar verði innan þeirra marka, að ekki lamist sá margvíslegi vísir til nýs framtaks og atvinnuuppbyggingar, sem víða verður vart síðustu mánuðina, ekki til þess að einhverjir atvinnurekendur geti auðgazt óeðlilega, heldur til þess að hægt sé að skapa þann lífsþrótt í íslenzkt atvinnulíf, að böl atvinnuleysisins hverfi og áfram sé hægt að stefna öruggum skrefum til betri lífskjara. Fjöldi fólks býr við kjör, sem mikil nauðsyn er að bæta, en það verður að gerast með raunhæfum aðgerðum. Það er hins vegar sanngirniskrafa launþega, að öllum tiltækum ráðum sé beitt til þess að skipuleggja starfsemi fyrirtækja svo vel sem auðið er, þannig að þau skili sem mestum arði og geti því risið undir hærra kaupgjaldi. Starf hagræðingarráðunauta á vegum bæði verkalýðssamtaka og vinnuveitenda er hið mikilvægasta í þessu sambandi. Þess verður líka vart, að vaxandi skilningur sé hjá atvinnurekendum á hagræðingu og skipulagningu í rekstri, og í æ ríkari mæli ráða fyrirtækin til sín rekstrarfróða menn. Hér stefnir því í rétta átt og varðar miklu, að með samhug sé að unnið. Samstarf ríkisstj. verkalýðssamtaka og vinnuveitenda í kjaramálum og eflingu atvinnurekstrar síðustu árin er tvímælalaust rétt spor til lausnar því mikilvæga viðfangsefni að sætta fjármagn og vinnu og leggja grundvöll raunhæfra kjarabóta.

Það er engum efa bundið, að bjart er framundan, ef rétt er á haldið. Stéttafriður og stéttasamstarf er það, sem þjóðinni ríður nú mest á í nýrri framfarasókn eftir áföll síðustu ára. Án samheldinnar og víðsýnnar stjórnarforystu verður vandinn ekki heldur leystur, og hver getur veitt þá stjórnarforystu nema núverandi stjórnarflokkar? Svari hver fyrir sig að þessum umr. loknum.