29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Starfshættir Alþingis hafa talsvert verið ræddir að undanförnu, og er ekki um það deilt, að í því efni er tímabært orðið, að gerðar verði ýmsar breytingar. Nokkur skoðanamunur varðandi það, hversu víðtækar slíkar breytingar skuli vera, er þó bersýnilega ríkjandi, og er það í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Þannig hefur t. d. ekki tekizt að afgr. á þessu þingi frv. til l. um breytingar á þingsköpum Alþ., og hefur það frv. þó áður dagað uppi í þinginu. Það var á sínum tíma samið af mþn., sem skipuð var fulltrúum allra flokka. Ég tel, að í ýmsum efnum hafi þetta frv. horft til bóta, svo sem að því er varðar útvarp frá Alþ. og fyrirspurnir í Sþ., þótt þar hafi verið um málamiðlanir að ræða, sem ekki fullnægðu óskum allra varðandi þetta tvennt. Hlýt ég því að harma, hve treglega gengur að koma þessu máli fram.

En örlög þingskapafrv. sýna glöggt, að umtalsverðar breytingar á starfsháttum Alþ. geta ekki átt sér stað nema með víðtæku samkomulagi allra flokka. Hver flokkur um sig hefur í þessu tilliti raunverulegt neitunarvald, og gerir þetta það að verkum, að meiri háttar breytingar á starfsháttum Alþ. hljóta að verða mjög hægfara.

Fyrir mitt leyti er ég samþykkur því, að stefnt sé að sem allra víðtækustu samkomulagi flokkanna í þessu efni. Þegar um er að ræða þær leikreglur, sem allir verða að starfa eftir á þessum vettvangi, verður ekki annar háttur á hafður, svo að vel fari. Þess vegna fagna ég þeirri yfirlýsingu, sem Ólafur Jóhannesson gaf hér í gærkvöld, er hann ræddi þetta mál. En hann var sá eini af form. þingflokkanna, sem vildi fallast á að hafa annan hátt á þessum eldhúsdagsumr. heldur en þann úrelta hátt, sem nú er á þeim hafður. Batnandi mönnum er bezt að lifa. En Alþ. má þó ekki taka sér svo langan tíma til þess að endurskoða starfshætti sína, að þeir verði gamaldags og úreltir, og hafi lamandi áhrif á afgreiðslu mála.

Að sjálfsögðu er það fleira en sjálf þingsköpin, sem endurskoða þarf, varðandi starfshætti Alþ. Þeim er m. a. stakkur skorinn af húsnæði þingsins, skiptingu þess í deildir og þeirri aðstoð, sem þm. eiga kost á við þingstörfin. Úr öllu þessu þarf að bæta. Þinghúsið er of lítið, og hefur orðið að grípa til þess ráðs að bæta nokkuð úr brýnustu húsnæðisþörf Alþ. með því að taka húsnæði á leigu. Deildaskiptingin er úrelt og þýðingarlaus og getur á stundum orðið til þess að hindra framgang góðra mála. Við byggingu nýs þinghúss þarf þess vegna að gera ráð fyrir því, að Alþ. starfi framvegis í einni málstofu. Þá verður ekki miklu lengur undan því vikizt að gefa þm. kost á meiri aðstoð við þingstörfin en nú tíðkast. Varðandi starfsaðstöðuna hefur Alþ. sparað við sjálft sig í lengstu lög , og hið sama hefur verið gert varðandi Stjórnarráð Íslands, sem einnig býr við ófullnægjandi starfsaðstöðu, að 26 árum liðnum frá stofnun lýðveldisins. Þetta sýnir m. a., að frá því að Ísland endurheimti frelsi sitt til fulls, hafa aðrar þarfir en þær, sem ég hef nú rætt, verið látnar sitja í fyrirrúmi, þegar um það hefur verið að ræða að beina því takmarkaða fjármagni, sem þjóðin hefur yfir að ráða, í ákveðna farvegi.

Uppbygging atvinnuveganna, aukin framlög til félagsmála og almannatrygginga, bygging vega, skóla, sjúkrahúsa, íbúðarhúsa, raforkuvera og annað það, sem stuðlar að bættum lífskjörum, hefur verið látið sitja í fyrirrúmi fyrir öðru. Þessa staðreynd finnst mér, að þeir hagsmunahópar ættu að íhuga vel, sem mestar kröfur gera um þessar mundir um aukna fjármuni sér til handa úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar. T. d. væri hollt fyrir forystumenn námsmanna, að þeir gerðu sér þessa staðreynd ljósa, áður en þeir gera fleiri tilraunir til þess að framfylgja kröfum sínum um aukna námsaðstoð með alls konar fáránlegum uppátækjum eða jafnvel með ofbeldisverkum. Kröfur þeirra er ekki hægt að meta án tillits til réttmætra krafna annarra, og eiga þar hlut að máli ýmsir aðilar í þjóðfélaginu, sem með réttu gætu bent á, að þeir séu verr settir en námsmenn. Um þessar mundir er t. d. nauðsynlegt, að laun hækki mjög almennt. Einnig þarf að stórauka ýmsar greinar almannatrygginga, svo sem ellilaun, örorkubætur og mæðralaun. Þörf námsmanna fyrir aukna aðstoð er þannig ekkert einangrað fyrirbæri. Þeir hafa, eins og aðrir, óhjákvæmilega orðið að búa við lakari kjör um skeið, vegna erfiðleikaáranna 1967–1968. En úrlausn allra fjárhagslegra vandamála okkar takmarkast m. a. af smæð þjóðarinnar, og er ekki nema eðlilegt, að ýmsar aðrar þjóðir, sem eru ýmist stærri eða margfalt ríkari en við, nema hvort tveggja sé, geti í ýmsum greinum, svo sem á sviði mennta- og félagsmála, veitt þegnum sínum meira en íslenzka ríkið getur gert. Samanburður á Íslendingum annars vegar og stærstu eða ríkustu þjóðum heims hins vegar, er þess vegna alls ekki réttmætur, þegar þessi mál eru skoðuð. Séu Íslendingar aftur á móti bornir saman við aðrar álíka fjölmennar þjóðir og að öðru leyti sambærilegar, þá verður þeirra hlutur áreiðanlega mjög góður í þessum efnum.

Margir ræðumenn hafa í þessum umr. gert uppátæki og ofbeldisverk fámennra hópa námsmanna í sendiráðinu í Stokkhólmi og í menntmrn. að umtalsefni. Fer það ekki milli mála, að þetta tvennt hefur gert málstað námsmanna meira ógagn en gagn. Þó furðaði mig á þeirri afstöðu, sem Ingvar Gíslason tók hér í gærkvöld til þessara atburða. Það virðist ekki þurfa að skafa þann hinn mikla friðsemdar- og dáindismann lengi, til þess að í ljós komi skyldleiki hans við stjórnleysingja. Ég skal fúslega taka undir það, að meira þurfi að gera fyrir námsmenn en nú er gert, en kröfur þeirra verður að vega og meta, m. a. með samanburði við það, sem gert er meðal annarra þjóða, sem sambærilegastar eru við Íslendinga.

Fleira þarf einnig að upplýsa í þessu sambandi. Mér liggur t. d. forvitni á að vita, hvort námslaun eru veitt án allra skilyrða, þar sem þau tíðkast. Eru þau veitt án tillits til námsárangurs, eða eru þau eingöngu veitt sérstöku úrvali nemenda? Eru þau veitt kvaðalaust, eða þarf viðkomandi námslaunaþegi að skuldbinda sig til sérstakra starfa um lengri eða skemmri tíma að námi loknu? Fróðlegt væri að fá ótvíræða vitneskju um þessi atriði í sambandi við þá athugun, sem vissulega þarf að gera á þeirri aðstoð, sem íslenzkum námsmönnum er veitt. Engum, sem til þekkir, þarf að blandast hugur um að bæta þurfi kjör íslenzkra námsmanna. Allir þeir, sem taka vilja á málefnum námsmanna af skilningi og velvild, hljóta samt að harma þá atburði, sem gerðust á dögunum í íslenzka sendiráðinu í Stokkhólmi og menntmrn. við Hverfisgötu. Þetta hvort tveggja hefur vakið reiðiöldu meðal almennings, sem fær ekki skilið og vill ekki sætta sig við, að öfgamenn og stjórnleysingjar geti ráðið ferðinni fyrir allan þorra íslenzkra námsmanna. Menn spyrja að vonum, hvers sé að vænta í framtíðinni af menntamönnum okkar, sem vissulega eiga að erfa landið og taka við forystu í þjóðfélaginu, fyrst þeir hlíta annarri eins forystu og þeirri, sem raun ber vitni. Þetta er mjög alvarlegt mál fyrir námsmenn sem heild, ef samtök þeirra gera ekki í alla staði hreint fyrir sínum dyrum og fordæma ofbeldisverkin afdráttarlaust, jafnframt því sem þau losa sig við áhrif upphlaupalýðsins. Ofbeldisverkin í Stokkhólmi og í menntmrn. brjóta í bága við hefðbundinn og rótgróinn skilning Íslendinga á friðhelgi. Þjóðin hefur frá fornu fari skilið og tileinkað sér nauðsyn þess að halda friðinn innbyrðis og út á við. Hið litla og veikbyggða þjóðfélag Íslendinga mundi fljótlega hrynja til grunna, ef þessi skilningur væri ekki fyrir hendi.

Allir virðast nú sammála um, að mjög verulegur afturbati hafi átt sér stað í efnahagslífi þjóðarinnar eftir þá erfiðleika, sem sköpuðust vegna verðhruns og aflabrests, er einkum varð á árunum 1967–68. Eins og jafnan áður vilja stjórnarandstæðingar ekki viðurkenna, að viðbrögð stjórnarinnar og meiri hl. þingsins gegn þessum gífurlega vanda hafi átt neinn þátt í afturbatanum. Þessi afstaða stjórnarandstöðunnar byggist vitanlega á því, að sjálfa skorti hana bæði úrræði, samheldni og manndóm, til þess að fást við vandann. Neikvætt nöldur hennar nú breytir heldur engu um það, að aukinn afli og hækkað verðlag á útflutningsafurðum hefðu ekki út af fyrir sig dugað til þess að koma okkur út úr kreppunni, ef ekki hefðu verið gerðar þær ráðstafanir í efnahagsmálum, sem gerðar voru af stjórnarflokkunum. Bættur hagur þjóðarinnar nú er vitanlega árangur af hvoru tveggja: aðgerðunum í efnahagsmálum og batnandi árferði og viðskiptakjörum. Þessum árangri hljóta allir góðviljaðir menn að fagna, og á miklu veltur, að hann sé hagnýttur á þann hátt, að hann veiti þjóðinni raunverulega bætt lífskjör.

Kröfur hafa verið settar fram um mikla kauphækkun og er það að vonum. En kauphækkanir einar eru ekki einhlítar. Fyrir því er margföld reynsla, einkum þegar svo er um hnútana búið, að kauphækkana gætir fljótt í verðlagi brýnustu lífsnauðsynja. Þá eru kjarabætur áður en varir að engu gerðar. Ég hjó eftir því í gær, að Hannibal Valdimarsson, forseti Alþýðusambands Íslands, varaði við þessari hættu, og hið sama gerði raunar Eðvarð Sigurðsson, form. Dagsbrúnar, hér áðan. En ég saknaði þess hins vegar í ræðum þeirra, að þeir bentu á raunhæf úrræði til þess að fyrirbyggja þessa hættu. Þeir mæltu t. d. ekki með því, að horfið yrði frá vísitölubindingu kaups eða að rofin yrðu tengslin milli afurðaverðs bænda og hækkandi launa. Þetta eru hvort tveggja miklir áhrifavaldar á gang dýrtíðarmálanna og áreiðanlega svo erfiðir úrlausnar, að bezt er að flýta sér hægt, eins og hæstv. forsrh. orðaði það hér í gærkvöldi. Hinn mikli vandi, sem við þarf að glíma, er að finna þá lausn þessara mála, sem færir þjóðinni varanlegastar kjarabætur. Reynslan sýnir okkur, að sjávaraflinn er svipull, og þess vegna þarf að renna fleiri stoðum undir atvinnu- og efnahagslíf landsmanna. Að því er m. a. stefnt með aðildinni að EFTA. Afgreiðsla hennar er eitt af merkustu málum þessa þings. Með EFTA-aðildinni eru opnaðir ýmsir góðir möguleikar, og reynir nú á það, hvort þeir verða hagnýttir sem skyldi. Möguleikarnir eru aðallega fólgnir í auknum útflutningi iðnaðarvarnings til EFTA-landanna, en framleiðsla hans og sala verður að byggjast á því, að verðlag hér á landi sé sæmilega stöðugt eða útreiknanlegt fyrir fram. Þetta veldur því, að mjög er æskilegt, að nýir samningar um kaup og kjör verði gerðir til alllangs tíma, þannig að unnt verði að hafa fullt gagn af EFTA-aðildinni í þessu tilliti.

Stjórnarandstaðan hefur haldið því á lofti í þessum umr., að kaupmáttur bóta almannatrygginga hafi minnkað frá því, er hann var hæstur, en það var hann á árinu 1967. Hefur í þessu sambandi verið rætt um 16.2% lækkun eða 12.8% lækkun, eftir því hvort miðað er við neyzluvöruverðlag eða framfærslukostnað. Hins hefur aftur á móti ekki verið getið í þessu sambandi, að þrátt fyrir umrædda lækkun kaupmáttar tryggingabótanna frá 1967, þegar hann var hæstur, hefur kaupmáttur þeirra í heild síðasta áratug hækkað verulega, jafnvel þótt miðað sé við neyzluvöruverðlagið. Tryggingabætur voru um skeið verðtryggðar eftir sömu reglum og giltu um verðlagsuppbót á laun, sbr. lög nr. 63 1964. Þetta samband milli tryggingabóta og launa var rofið í árslok 1967, en síðan hækkuðu bætur almannatrygginga tvívegis með lögum, eftir að verkalýðsfélög og vinnuveitendur gerðu með sér samninga, 18. marz 1968 og 19. maí s. 1. Nam hækkun bótanna meira en þeirri verðlagsuppbót, sem hæst var greidd skv. nefndum samningum. Ég rek þetta ekki hér af því, að ég sé mótfallinn því, að tryggingabætur hækki meira. Ég hef reyndar áður tekið fram, að ég tel nauðsynlegt, að þær verði hækkaðar frá því, sem nú er. Þótt svo sé, þarf það ekki að liggja í þagnargildi, að á s. l. 10 árum hafa verið stigin stærri spor í tryggingamálum en á mörgum áratugum þar á undan. Þm. Alþfl. ganga út frá því, að bætur almannatrygginga í heild verði teknar til rækilegrar endurskoðunar og að við hækkun þeirra verði höfð hliðsjón af þeirri framvindu kjaramálanna, sem fram undan er á næstunni.

Togaraútgerð hefur lengi verið í öldudal, og ekki verið sérlega arðbær. Hefur ástandið verið þannig, að lítill áhugi hefur verið fyrir endurnýjun eða stækkun togaraflotans, og mikill samdráttur hefur átt sér stað í togaraútgerðinni, þrátt fyrir mikla fjárhagslega aðstoð, sem hún hefur fengið. Þessi þróun mála hér á sér hliðstæður erlendis, t.d. í Bretlandi og V.-Þýzkalandi, en í báðum þessum löndum hefur togaraútgerð um langt skeið verið rekin með miklum styrkjum. Hér á landi hafa á undanförnum árum verið keypt eða byggð mörg skip annarra tegunda, þannig að skortur veiðitækja hefur ekki valdið neinum samdrætti í útgerð, þrátt fyrir kyrkinginn í togaraútgerðinni. Man ég ekki betur en að úr sumum byggðarlögum, t. d. Norðfirði, hafi togari beinlínis verið seldur, til þess að unnt væri að kaupa þangað síldveiðiskip í staðinn. Upp á síðkastið hefur hagur togaraútgerðar hér á landi hins vegar vænkazt til muna, og nú er á ný vaknaður áhugi á að endurnýja togaraflotann. Hefur Alþingi nú afgreitt frv., sem heimilar ríkisstj. að láta smíða sex 1000 lesta skuttogara, og selja þá með góðum kjörum einstaklingum, félögum eða bæjar- og sveitarfélögum. Lögin eru heimildarlög og mun enn þá ekki fullvist, hvort kaupendur fáist að öllum 6 skipunum. Mál þetta hefur hlotið rækilegan undirbúning og er nú svo langt komið, að smíði skipanna hefur verið boðin út. Við meðferð málsins í sjútvn. lögðu þeir Lúðvík Jósefsson og Jón Skaftason til, að heimilt yrði að láta smíða allt að tólf 1000–1200 rúmlesta togara í stað sex. Enn fremur vildu þeir, að ríkisstj. beitti sér fyrir smíði allt að átta skuttogara, 500–700 rúmlesta, og loks átti ríkið að ábyrgjast allt að 90% af kostnaðarverði verksmiðjutogara fyrir Úthaf h/f. Það átti m. ö. o. að kaupa samtals 21 skip skv. þeirra till. Það má margt segja um slíkan tillöguflutning sem þennan. Ef til vill ber hann vott um meira traust á hæstv. ríkisstj. en við höfum í stjórnarliðinu. Við teljum ekkert unnið við það að fá ríkisstj. heimildir, sem fyrir fram er vitað að verða ekki notaðar. Við vitum um áhuga á nokkrum stöðum fyrir kaupum á 500–700 lesta skuttogurum, og er það mál nú í athugun. Er hér um 4 eða 5 staði að ræða, þar sem talið er, að slík skip mundu henta mjög vel til hráefnisöflunar fyrir fiskvinnslustöðvar í landi. Hefur því verið lýst yfir hér á Alþingi, síðast áðan af hæstv. fjmrh., að ríkisstj. mundi greiða fyrir kaupum á þeim skipum, eftir því sem með þarf, þegar nauðsynlegum undirbúningsathugunum á kostnaði við kaup þeirra og rekstur er lokið. Mun þá gefast nægur tími til þess að afla nauðsynlegra lagaheimilda, sem byggist á raunhæfu mati og vönduðum undirbúningi.

Víðar hefur rofað til um þessar mundir annars staðar en í togaramálunum, og vonandi verður áframhald á afturbatanum í atvinnulífinu á því sumri, sem nú er nýbyrjað. Kjósendur ganga að kjörborði í lok maímánaðar til þess að velja nýjar sveitarstjórnir. Leyfi ég mér að hvetja þá til þess að fylkja sér um Alþfl., alls staðar þar sem hann hefur menn í kjöri. Flokkurinn hefur á liðnum áratug og reyndar alltaf, þegar hann hefur haft aðstöðu til, veitt sveitarstjórnarmálefnum brautargengi. Minni ég í því sambandi á, að tekjustofnar sveitarfélaga hafa verið endurskoðaðir í tíð núverandi stjórnarsamstarfs og sveitarfélögum verið fenginn hluti af söluskatti og landsútsvör. Með endurskoðun hafnarlaga, skólakostnaðarlaga og laga um löggæzlu hefur þátttaka ríkisins í kostnaði vegna þessara þýðingarmiklu málaflokka verið stórlega aukin, og loks vil ég minna á, að framlög ríkisins til skólamála og heilbrigðismála hafa aldrei verið meiri en þau eru nú. Þessir málaflokkar allir hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin og fólkið, sem í þeim býr. Þessum málaflokkum er vel borgið í höndum Alþfl.-manna. Þess vegna hvet ég til þess, að Alþfl. verði fengin aukin áhrif í kosningum til sveitarstjórna í lok maímánaðar.

Góðir áheyrendur. Ég þakka ykkur áheyrnina og óska landsmönnum öllum gleðilegs og farsæls sumars.