29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Út af hinu langa máli hæstv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, í umr. í gærkvöldi um mál námsmannanna, vil ég taka þetta fram: Mér er ljóst, að við enga þegna þjóðfélagsins hafa ókjör fjögurra gengisfellinga, og þar með í raun og veru sjálf stjórnarstefnan núverandi, komið harðar en við námsmennina, einkanlega þá, sem nám stunda erlendis. Þeir hafa því áreiðanlega orðið að heyja langa og harða baráttu, sumir máske örvæntingarfulla baráttu fyrir því að geta haldið áfram námi og afstýra því að bíða varanlegt skipbrot. Ég veit, að þeir eru lengi og af mikilli þolinmæði búnir að knýja á og biðja um leiðréttingar hjá ríkisvaldinu. Oft og lengi hafa þeir farið bónleiðir til búðar. Hinum bráðlátari hefur jafnan fundizt, að þeir væru hunzaðir, og þegar svo var komið, var auðveldara fyrir öfgaöflin að leiða baráttuna út á villigötur ærsla, ofbeldisaðgerða og byltingartilburða, sem stórlega hafa spillt fyrir málstað námsmannanna hjá almenningsálitinu. En þetta má með engu móti leiða athyglina frá vandamálinu sjálfu. Því segi ég, að svo miklu leyti sem barátta námsmannanna innanlands og erlendis er kjarabarátta og jafnréttisbarátta, hefur verkalýðshreyfingin og Samtök frjálslyndra og vinstri manna dýpstu samúð og algjöra samstöðu með námsmönnunum og mun styðja málstað þeirra eftir beztu getu. En með tilvísun til reynslu verkalýðshreyfingarinnar af baráttuaðferðum ýmiss konar, vil ég líka bæta því við, að þar hafa seiglutökin, þolinmæði og úthald dugað bezt. Kjarabarátta er látlaust strit fyrir málefnunum sjálfum, eins og Jón heitinn Baldvinsson orðaði það. En upphlaup og ærst borga sig ekki. Þá aðferð hafa öfgaöfl innan verkalýðshreyfingarinnar stundum áður fyrr prófað, og sú aðferð skilaði ekki árangri. Þetta er okkar dýrmæta reynsla og læt ég svo útrætt um það mál.

Eitt ágætt dæmi um drengskap og siðgæði í opinberu lífi á Íslandi má sækja til hins óhlutdræga ríkisútvarps undir stjórn áróðursmeistara flokkanna, ritstjóranna. Þeir hafa komið sér saman um að láta útvarpið lesa yfir landslýðnum forystugreinar sínar í dagblöðum, á hverjum morgni 6 daga vikunnar. Þessa aðstöðu hafa nú allir flokkarnir nema Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Nú hafa það lengstum verið óskráð drengskaparlög að hafa ekki ærumeiðandi ummæli um fjarstadda, — baktal eða rógur heitir það á íslenzku máli, en slík drengskaparlög gilda þó ekki í hinu óhlutdræga ríkisútvarpi. Þar samrýmist það bæði reglunum um óhlutdrægni og drengskaparreglunum að ausa fjarstadda auri. Það er hvorki rógur, baktal né ranglæti þar, og svo er það svo ódýrt, „billegt“, flutt á ríkisins kostnað.

Iðulega fá menn með morgunkaffinu svæsnustu ádeilugreinar á Samtök frjálslyndra og vinstri manna og persónulega á þm. Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson. Þennan drengskap iðkar Magnús Kjartansson alveg sérstaklega, en ekki hefur ritstjóri Alþýðublaðsins heldur getað staðizt þá freistingu. Sem dæmi um þessa rógsiðju má nefna síendurteknar tilraunir Magnúsar Kjartanssonar til þess að hverfa frá sannleika til lygi, varðandi söluskattinn. Skv. sannleikstúlkun Magnúsar skal Hannibal Valdimarsson öllum öðrum fremur bera ábyrgð á honum, og hefur hann stundum kallað söluskattinn Hannibalsskattinn. Greiddi þá Hannibal ekki atkv. með frv. á einhverju stigi þess? Nei, ekki var svo. Var hann ekkert viðriðinn flutning frv.? Nei, ekki heldur það, þetta var stjórnarfrv. Strax við 1. umr. málsins andmælti Hannibal frv. harðlega í snarpri ræðu og lýsti yfir fullri andstöðu við það. Þá studdi Hannibal allar till., sem gengu í þá átt að takmarka álagningu söluskattsins, undanþiggja almennar neyzluvörur og þjónustu álagningu hans. Og einnig studdi hann tillögur um ráðstafanir til betri innheimtu hans. Og enn, Hannibal greiddi atkv. gegn söluskattsfrv. í heild að viðhöfðu nafnakalli, en samt á hann að bera ábyrgð á söluskattinum, skv. leiðaraskrifum Þjóðviljans. Þetta fær inni í ríkisútvarpinu! Við 3. umr. gerði Hannibal svo lokatilraun til þess að lækka skattinn og bar fram till. um, að hann yrði lækkaður úr 11% í 9½%, en það hefði þýtt lækkun hans um hundruð millj. kr. En hvað gerðist þá? Þá gekk Lúðvík Jósefsson til ræðustóls og lýsti því yfir, að hann og þeir Alþb.- menn mundu sitja hjá við atkvgr. um till., og svo gerðu þeir. Fer þetta ekkert á milli mála, því nafnakall var viðhaft við atkvgr. um till. Þannig birtist þeirra vilji til að létta skattabyrðina á almenningi, og mun þeirra skömm að minni hyggju nokkuð lengi uppi. Það skal fram tekið, að í þetta sinn sátu framsóknarmenn ekki hjá, heldur greiddu till. Hannibals atkv., eins og sjálfsagt var. En nú segir Magnús Kjartansson, að það sé vegna stuðnings Hannibals við EFTA, sem hann ber ábyrgð á söluskattinum. Athugum þá þau sannindi. Er það ekki öllum augljóst, að um það átti ríkisstj. algjörlega frjálst val, hvernig hún aflaði ríkissjóði tekna í stað þeirrar lækkunar tolla, sem leiddi af inngöngunni í EFTA? Hún valdi söluskattsleiðina og ber því ein ábyrgð á því vali. Undir umr. spurði Hannibal Magnús Jónsson fjmrh. að því, hvort ríkisstj. hefði verið nokkrum skuldbindingum háð EFTA-löndunum um að leggja á söluskatt. Svar ráðh. var skýrt og afdráttarlaust: Nei, auðvitað ekki. Þar með brast boginn í höndum Lúðvíks og Magnúsar í rógburðarherferðinni gegn Hannibal. Í þetta sinn brást þeim bogalistin í því að hverfa frá sannleika til lygi.

Leiðtogar Alþfl. bera stundum harm sinn á torg í heyranda hljóði út af því, að vondir menn hafi oftar en einu sinni klofið flokkinn. Eru þá oftast nefndir tveir höfuðskálkar, þeir Héðinn Valdimarsson og Hannibal Valdimarsson. Þennan söng upphóf hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, líka hér í gærkvöld. En hvernig var það annars með þessa úthrópuðu klofningsmenn Alþfl.? Hlupu þeir sjálfir brott úr flokknum? Var þeim ekki af löglegri flokksstjórn vikið úr flokknum? Það er eins og mig minni það nú, svo var það a. m. k. að því er mig varðar. Fyrir þetta hef ég aldrei áfellzt Alþfl. Hann vildi ótruflaður af öllu og öllum fá að taka sína hægri beygju, og þar sem ég var ekki á þeim buxunum að lalla með, var mér eðlilega sagt upp vistinni eftir 27 ára þjónustu á þeim bæ, því auðvitað átti flokksstjórnin, en ekki einstaklingurinn, að ráða stefnunni. Og svo var haldið til hægri, komið við hjá Framsókn, — ég á við „hræðslubandalagið“ — en síðan var riðið í hlað hjá íhaldinu. Frá því eru liðin nærri 11 ár, og sjást þess engin merki, að þeirri heimsókn sé að ljúka. Samt er nú svo komið, að til eru þeir Alþfl.-menn, sem farnir eru að ókyrrast út af samruna Alþfl. og Sjálfstfl. og tjá sig um það opinberlega. Þannig kom það fram í sjónvarpsviðtali hér í vetur við Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrv. form. Alþfl. og forsrh. Íslands, að hann harmaði, hve langt Alþfl. væri kominn til hægri. Taldi Stefán flokkinn hafa borið mikið af leið og kvað hann mikla afturför hjá Alþfl. varðandi beitingu sósíaldemókratískra úrræða við stjórn landsins. Þessi ummæli Stefáns Jóhanns vöktu að vonum alþjóðarathygli og eru allt of sönn, því miður.

Í marz í vetur fékk ungur menntamaður við Uppsalaháskóla, Alþfl.-maður, birta stóra grein í sjálfu Alþýðublaðinu. Var Alþfl. þar sagt rækilega til syndanna fyrir íhaldsþjónkun hans í meira en áratug. Ungi maðurinn taldi lítið samræmi vera milli stefnuskrár og framkvæmdrar stefnu Alþfl. Síðan sagði hann orðrétt:

„Mesta ósamkvæmni Alþfl. felst að sjálfsögðu í 10 ára stjórnarsamstarfi hans við sjálfstæðismenn. Ég dreg enga dul á, að ég er andstæðingur viðreisnarstjórnarinnar, ekki fyrst og fremst vegna þess, að ég vilji fordæma allar gerðir hennar, heldur vegna þess, að enginn hugsjónalegur grundvöllur er fyrir samstarfi jafnaðarmanna og íhaldsmanna í ríkisstj.“ Síðan fullyrðir hann í greininni: „Alþfl. hefur í rauninni ekki komið fram neinum af sínum stefnumálum. Við erum ekki hænufeti nær takmarki okkar eftir 10 ára samstarf. Alþfl. hefur í rauninni aðeins eitt mál á stefnuskrá sinni: að koma á lýðræðislegum sósíalisma, og ekkert er slíkum málstað hættulegra en stjórnarsamstarf við íhaldsflokk. Vera má, að hægt sé að hækka almannatryggingar um nokkur hundruð krónur í slíku samstarfi, en það er hégómi, sem ekkert dregur, og engan veginn má kaupa það því verði, að flokkurinn teygist æ lengra og lengra til hægri. Ljóst er, að þátttaka Alþfl. í ríkisstj. stendur beinlínis í vegi fyrir sameiningu jafnaðarmanna í einn flokk, því að leiðin til sósíalismans liggur ekki um bæjarhlað íhaldsins.“

Ég fæ ekki betur séð en þetta sé hárrétt lokaályktun hjá hinum unga Alþfl.-manni, og hin sama varð niðurstaðan hjá Jóni Þorsteinssyni alþm. í gær, þegar hann ræddi hér fyrir hönd Alþfl. og sagði, að samstarfið við íhaldið hefði valdið því, að þm. Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson hefðu ekki náð samstöðu með Alþfl. og hefðu heldur kosið það úrræði að stofna til nýs flokks.

Þetta er hárrétt. Viðræður okkar við Alþfl. strönduðu einmitt á þessu. Hér áður fyrr fór Alþfl. oftar en einu sinni úr ríkisstj., þó að stjórnarsamstarf þætti þá mikilsvert, þegar málin þóttu rekast á vilja verkalýðshreyfingarinnar og hagsmuni flokksins. En nú er setið sem fastast, og líklega eru ráðherrarnir orðnir fastir við stólana sína.

En hvenær halda menn, að forysta Alþfl. taki sinnaskiptum og hverfi frá kjötkötlunum hjá Sjálfstfl.? Halda menn, að hann taki saman pjönkur sínar og hverfi frá allri íhaldssamvinnu og gerist stríðandi Alþfl. á ný, ef hann heldur fylgi sínu eða eykur það í næstu kosningum? Nei, svo barnalegur getur enginn verið. Auðvitað er einasta vonin til þess, að Alþfl. hverfi aftur til síns fyrra hlutverks, að hann verði fyrir miklu áfalli í næstu kosningum. Þá og því aðeins er nokkur von til þess, að Gylfi Þ. Gíslason vakni upp við vondan draum einn morguninn og athugi eitthvað sinn gang, standi frammi fyrir spurningunni: Hvers vegna varð Alþfl. fyrir fylgishruni? Þá gæti ef til vill hvarflað að honum, að hann yrði líklega að breyta eitthvað til. Einasta leiðin til þess að toga Alþfl. aftur á rétta braut er sú, að kjósendurnir refsi honum fyrir íhaldsþjónkun hans og segi honum þannig til vegar.

Það er fyrst, þegar þetta hefur gerzt, sem það kemur í ljós, að flokkur okkar, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, er annars eðlis en gömlu flokkarnir. Hann er ekkert takmark í sjálfu sér. Verður þetta ljósast með beinni tilvitnun í stjórnmálayfirlýsingu hans, en þar segir orðrétt:

„Samtökin telja það mál mála, að sem fyrst takist að sameina alla íslenzka jafnaðarmenn og samvinnumenn í einum sterkum og vaxandi stjórnmálaflokki, sem reynzt geti hæfur til að taka forystu fyrir sóknaröflum þjóðfélagsins. Samtökin lýsa því yfir, að þau eru reiðubúin til að athuga gaumgæfilega alla möguleika, sem skapast kunna til skipulagslegrar sameiningar jafnaðarmanna og samvinnumanna í einum flokki, sem á skömmu tímabili gæti orðið sterkasta stjórnmálaaflið með þjóðinni.“

Lengi hefur öllu heiðarlegu fólki blöskrað sú spilling, sem hér á landi ríkir í embættaveitingum. Þar ræður flokksþjónkun úrslitum, en hæfni og menntun skipta oft engu máli. Nýlega sá ég í blaði ráðizt með hárbeittu skopi á þetta fyrirbæri. Í blaðinu stóð: „Ef leikari og búfræðingur sæktu um starf búfjárræktarráðunautar, fengi leikarinn auðvitað stöðuna, ef hans flokkur ætti að úthluta embættinu. En ef svo yrðu stjórnarskipti og sömu menn kepptu um stöðu leiklistarráðgjafa, þá fengi búfræðingurinn stöðuna, stöðu leikarans, enda væru þá hans flokksmenn komnir til valda.“ Þannig ná armar flokksræðisins til allra sviða þjóðlífsins, eða svo sagði blaðið. Og viti menn: Nokkrum dögum seinna staðfesti veruleikinn þessi orð blaðsins. Um forstjórastöðu Tryggingastofnunar ríkisins sóttu tryggingafræðingur, sem verið hafði hægri hönd forstjórans á annan áratug, og svo efnafræðingur af réttum flokkslit, og auðvitað kom tryggingafræðingurinn ekki til greina. Efnafræðingurinn var flokksbróðir ráðherrans, sem veitingarvaldið hafði, og því varð efnafræðingurinn auðvitað forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Þannig yfirgengur stundum veruleikinn skáldskapinn. Og hver er skýringin á þessu? Hvort sem menn trúa því eða ekki, er þetta samkv. ákvæði í flokkslögum Alþfl. En þar segir: „Lög Alþfl. 1. kafli. Stefnumið og starfsaðferðir...IV, 1. Að stuðla að því, hvar sem við verður komið, að kosnir séu til opinberra starfa aðeins þeir menn, sem eru flokksbundnir Alþfl.-menn. Á þetta jafnt við störf í þágu þjóðfélagsins, bæjarfélaga, verkalýðsfélaga og mikilvægra félagasamtaka, t. d. verkalýðsfélaga og annarra launþegasamtaka.“ Það er sem sé stefnumál Alþfl., að veita eingöngu Alþfl.-mönnum embætti, og við það er staðið betur en margt annað.

Ég þakka áheyrnina. Verið þið sæl. Ég kem aftur í kvöld.