29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

Almennar stjórnmálaumræður

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Sakarefni þeirra Alþb.-manna á hendur flokki okkar, Samtökum frjálslyndra og vinstri manna, geta stundum tekið á sig ærið broslegar myndir. Annars vegar erum við Hannibal Valdimarsson t. d. æðioft taldir hinir verstu skúrkar og verkalýðssvikarar og bornir brigzlum fyrir afstöðu okkar til mála. Hins vegar er fullyrt, að stefnan sé hin sama, og skælt yfir því, að við skulum ekki fylla flokk þeirra. Sakarefnin verða líka stundum kátleg, þegar saman er borið sumt af því, sem þessir menn hafa talið heilög baráttumál, en verða allt í einu hartnær glæpamál, þegar við ljáum þeim lið, eins og t. d. þegar við höfðum lýst yfir fylgi okkar við þjóðaratkvæði um NATO, sem þá var talið sanna, að við værum örgustu hernámssinnar, þótt stefnuskrá okkar tæki af allan vafa um fulla andstöðu við öll hernaðarbandalög.

Fyrir fáum árum töldu þessir menn sig hafa unnið hið frægasta afrek í frelsisbaráttu þjóðarinnar með því að fá nokkur þúsund nöfn undir þessa hina sömu kröfu.

En við erum líka andstæðingar Varsjárbandalagsins og það gerir gæfumuninn.

Hið sanna er auðvitað, að í milli okkar og foringja Alþb. er grundvallarágreiningur, bæði um baráttuaðferðir, málefni og markmið, ágreiningur sem öllum sköpum skiptir. Þeir stefna að alræðissósíalisma af því tagi, sem krefst slíks miðstjórnarvalds, að það leiðir rakleitt til afnáms lýðræðis, þingræðis og mannhelgi. Við byggjum hins vegar á jafnaðarstefnu og frjálshyggju, sem hafnar allsherjar þjóðnýtingu jafnt sem stjórnlausri auðhyggju og vill að öll rekstrarform búi við sem sambærilegust skilyrði, svo að glöggt megi sannast, hvað bezt hentar í hverri grein.

Alþb.-menn, sem hér hafa talað, allt frá Eðvarð Sigurðssyni og niður í forstjórann Gils Guðmundsson, voru að reyna hér bæði í gærkvöldi og nú í kvöld að eyrnamarka sér faglega baráttu verkalýðssamtakanna. Verri ógreiði væri henni ekki gerður en ef slíkt tækist, ekki sízt þegar allt veltur á því, að þar standi allir saman, maður við mann, hvar sem þeir eru í flokki staddir. En þetta er hin yfirlýsta stefna Alþb. í framkvæmd, að einoka verkalýðshreyfinguna, gera hana að þjóni flokksins og flokkshagsmuna. Við viljum hins vegar, að verkalýðshreyfingin sé og verði algjörlega sjálfstætt og myndugt þjóðfélagsafl, sem ákveði starf sitt og stefnu á grundvelli stéttarhagsmuna einna, en hafni forsjá pólitískra flokka. Nauðsyn þessa skilur verkalýðshreyfingin nú æ betur og hefur því í heild hafnað raunverulegri forsjá Magnúsar Kjartanssonar, Lúðvíks Jósefssonar og þeirra, m. a. á síðasta Alþýðusambandsþingi.

Þannig mætti lengi telja málefni, sem skera úr um það, að við eigum enga flokkslega samleið með hópnum, sem ræður Alþb. Um þann fríða flokk mætti tilfæra ummæli Lúðvíks Jósefssonar frá síðasta þingi Sósíalistaflokksins, að engum þeim vinstri samtökum yrði treyst eða trúað, sem hefðu Brynjólf Bjarnason innanborðs. En sérstaka nauðsyn þykir nú bera til að setja nafn einmitt þessa manns á borgarstjórnarlista Alþb. í höfuðborginni, og á hann þó sízt verri eftirmæli skilið en önnur þau pólitísku gamalmenni, sem nú stjórna Alþb. Dylst mönnum þá öllu lengur, hvaða lið þar fer, sem Alþb. skartar sínu nafni?

Þegar kenningunni um málefnalega samstöðu er ýtt til hliðar, en hin gagnstæða tekin upp úr skúffunni hjá Alþb., verður afstaða okkar Hannibals Valdimarssonar til EFTA-málsins oftast fyrst fyrir, og vil ég víkja að því stórmáli með nokkrum orðum. Í því máli taldi flokkur okkar, sem aðrir, það sína fyrstu og einu skyldu að meta það út frá frambúðarhagsmunum þjóðarinnar og íslenzkra vinnustétta og í annan stað út frá framtíðarstöðu okkar í samfélagi þjóðanna, stjórnmálalegri og menningarlegri. Og niðurstaða okkar varð þessi og er þessi: Í fyrsta lagi: Markmið íslenzkrar efnahagsstefnu, þó ekki sé litið lengra en til næstu 15 ára, hlýtur að verða það að sjá a. m. k. 25 þús. ungs fólks, sem við vitum að þá kemur á vinnumarkaðinn, fyrir fullri atvinnu, og í annan stað að tryggja þeim sem öðrum lífskjör, sem haldi okkur til jafnræðis við grannþjóðirnar.

Frumskilyrði þess, að þessum markmiðum verði náð, er, að okkur takist að framkvæma iðnbyltingu á nútíma tæknivísu. Kemur þar margt til, m. a. það, að öll reynsla annarra þjóða sannar, að einungis iðnþróaðar þjóðir geta veitt þegnum sínum félagslegt öryggi og góð lífskjör. Þess vegna er stefnan sú, að iðnaðarþjóðfélagið verði óhjákvæmileg nútíma- og framtíðarnauðsyn. Iðnaðarþjóðfélag verður hins vegar ekki byggt upp með því að framleiða fyrir innlendan markað einan og með því að gjalda háa tolla af útflutningi, meðan samkeppnisþjóðirnar flytja tollfrjálst á sömu markaði. Ef þeirri stefnu yrði fylgt að ráði þeirra, sem barizt hafa gegn EFTA-aðild, yrði afleiðingin hátt verðlag, léleg lífskjör og atvinnuleysi. Er það kannske þeirra raunverulega stefna?

Ef menn viðurkenna þau markmið, sem ég hef nefnt, stendur valið um það, hvaða efnahagssamfélög okkur er hagkvæmast að skipta við og samræmast bezt hugmyndum okkar um stjórnmálalega og menningarlega samvinnu við aðrar þjóðir. Í okkar huga er það val næsta einfalt. Við erum norræn þjóð, við erum Vestur-Evrópuþjóð, og það viljum við vera. Viðskiptaleg einangrunarstefna mundi óhjákvæmilega leiða til meiri eða minni slita þeirrar menningarlegu og félagslegu samvinnu, sem við viljum ástunda við hin Norðurlöndin. Hún mundi leiða til þess, að við smáir og fáir yrðum teygðir og togaðir milli stórveldablokkanna í austri og vestri. Hvor blokkin sem þar yrði yfirsterkari, yrði afleiðingin jafnógeðfelld þorra Íslendinga og að auki óefaður háski fyrir þjóðina, ekki aðeins efnalega, heldur einnig menningarlega og stjórnmálalega. Val okkar á EFTA, sem helzta efnahagslega samvinnuvettvangi, er einnig auðvelt að því leyti, að því fylgja engar þær skuldbindingar, sem ekki samrýmast fullkomlega stjórnmálalegum sjálfsákvörðunarrétti okkar og fullveldi, gagnstætt þeim sem aðild að EBE hefði í för með sér og útilokar þar hugsanlega þátttöku okkar.

Að síðustu nefni ég þann þátt þessa máls, sem áður er að vísu óbeint rakinn, en hlýtur að skipta höfuðmáli frá sjónarmiði verkalýðsstéttarinnar. Hvaða áhrif hefur aðildin á launakjör almennings í næstu framtíð og til langframa? Hvað er hæft í þeirri meginröksemd þeirra Alþb.-manna, að EFTA-aðild þýði og byggist á því, að hér ríki það, sem þeir nefna langvarandi láglaunatímabil vinnustéttanna? Þessi röksemd er studd þeirri fullyrðingu, að íslenzkur iðnaður sé og verði svo vanþróaður, að samkeppnisaðstaða okkar mundi nánast engin, ef kaupgjald væri hér hækkað til samræmis við það, sem gerist t. d. á Norðurlöndum. Þetta er þá eftir allt saman trú þessara manna, sem alltaf taka munninn fullan um fullvinnslu íslenzkra hráefna og iðnþróunarstefnu, á hæfni og atorku þjóðar sinnar. Þetta er trú þeirra manna, sem við hvert tækifæri taka munninn fullan og hrópa: Burt með atvinnuleysið! Atvinnuleysið verður aldrei þolað! — en afneita síðan í reynd þeim óhjákvæmilegu aðgerðum, sem gera þarf til að þessari sjálfsögðu mannréttindakröfu verði fullnægt. Tiltækar upplýsingar sanna, að vinnulaunakostnaður iðnfyrirtækja flestallra EFTA-ríkja, þ. á m. allra Norðurlanda, er nú í dag stórfellt hærri en hér á landi, í Svíþjóð a. m. k. 80% hærri, í Noregi og Danmörku 40 eða 50% hærri a. m. k. Gefur það ekki hverju sjáandi auga leið, að þegar jafnræði ríkir á samkeppnissviðinu, keppt er á sömu mörkuðum, er það einn allra veigamesti stuðningur við kröfu íslenzku verkalýðshreyfingarinnar um, að einnig hér gildi svipuð launakjör.

Í byrjun er efnalegur ávinningur að EFTA-aðild fyrst og fremst bundinn sterkum líkum eða vissu um hækkað verð á fiski og fiskafurðum og rýmri og betri mörkuðum fyrir landbúnaðarvörur, sem sérstaklega hefur verið samið um. Hið fyrrnefnda mun þegar í kjarasamningum verkalýðshreyfingarinnar næstu daga og vikur reynast rök og stuðningur við verkalýðssamtökin og baráttu þeirra fyrir mannsæmandi launakjörum. Með því að afneita þessum staðreyndum mega allir sjá, að þeir, sem það gera, eru í raun að leggjast hart á sveif með andstæðingum verkalýðshreyfingarinnar og styrkja þá í baráttunni gegn réttmætum kröfum hennar.

Því hefur verið skrökvað, að við Hannibal Valdimarsson og flokkur okkar teldum EFTA-aðild einhverja töfraformúlu, sem allan efnahagsvanda leysti. Þetta er fjær sannleikanum en tali taki. Þvert á móti höfum við ávallt lagt á það höfuðáherzlu, að aðildin opnaði okkur möguleika til heilbrigðari efnahagsþróunar en sú einangrunarstefna, sem ósannindamennirnir eru talsmenn fyrir. En hins vegar höfum við sagt, að ef þeir möguleikar ættu að nýtast, svo að um munaði, þyrfti hér að koma til gjörbreytt efnahagsstefna, umbylting hagkerfisins, í fullri andstöðu við gjaldþrota-, vanstjórnar- og verðbólgustefnu núv. ríkisstj. Við treystum ekki núv. ríkisstj. til að uppfylla þau grundvallarskilyrði, sem uppfylla þarf, til þess að EFTA-aðild nái tilgangi sínum, né til að veita þá forsjá af ríkisvaldsins hálfu, sem hér þarf að koma til við framkvæmd skipulegrar iðnþróunarstefnu. Hana teljum við verða að byggjast m. a. á hömlun verðbólgu og langtímasamningum við verkalýðssamtökin um öruggar og árvissar kjarabætur, heildarstjórn á fjárfestingu, m. a. með algerri endurskipulagningu allra fjárfestingarsjóða og bankakerfisins, stórfellt aukinni vísindastarfsemi í þágu atvinnuveganna, að arðsemisjónarmið fyrirtækja, sem þjóðarheildarinnar, ráði allri dreifingu fjármagns og að allt stjórnsýslu- og skattkerfið verði endurskoðað og endurbyggt frá rótum. Ekkert þessara atriða né fjölda annarra, sem stefna þarf að, samrýmist núverandi stjórnarstefnu. Og vissulega er það svo, að skuggi viðreisnarstjórnarinnar hvílir yfir hinni mikilvægu ákvörðun um aðild að EFTA. En hins ber þó að geta, að samningarnir tryggja okkur 4 ára óbreytta tollvernd frá því, sem nú er, og síðan 6 ára aðlögunartíma til viðbótar með dreifingu þeirrar, sem þá stendur eftir.

Að ári liðnu, í síðasta lagi, fær þjóðin tækifæri til þess að fella þessa stjórn og ákveða þá stefnu, sem ríkja á meginhluta aðlögunartímabilsins, sem okkar bíður, og jafnframt hverjum hún vill fela að framfylgja þeirri stefnu. Allar röksemdir flokkanna, sem annaðhvort voru andvígir EFTA-aðild eða vildu fresta henni vegna andstöðu við núverandi ríkisstj., lýsa þess vegna aðeins uppgjöf þeirra, kjarkleysi og vonleysi. Okkar flokkur hefur hins vegar skoðað þetta stóra mál á forsendum málsins sjálfs, sem öllum ættu að liggja ljósar fyrir við rólega íhugun, og við óttumst sannarlega ekki dóm þjóðarinnar fyrir þá skyldugu afstöðu okkar við framtíðarhagsmuni þjóðarinnar og vinnustétta hennar.