29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Upphafskaflinn í ræðu Magnúsar Kjartanssonar, um ávirðingar ríkisstj., var hvorki mergjaður né magnaður. Hann var stuttur. En hann hafði snör handtök um að lyfta lokinu af sorptunnu þeirri, sem kennd er við Austra. Og hélt ég þó, að honum mundi endast smekkvísi til að opna það ílát ekki hér í sölum Alþingis. En sú von brást. Flestar þeirra svívirðinga, sem þm. viðhafði um okkur Björn Jónsson, minntu mig ónotalega á söguna af kunnum stjórnmálamanni, sem var að segja ákveðna sögu, en sneri staðreyndunum algerlega við. Þá greip hlustandinn fram í og sagði: „Nei, þetta var nú þveröfugt við það, sem þú sagðir.“ Svaraði þá stjórnmálamaðurinn: „Já, ég vissi það nú, en ég kærði mig bara ekki um að hafa það nákvæmara.“ Þannig var með Magnús Kjartansson. Hann vissi vel, að hann var að skrökva, að hann var að snúa staðreyndum við. Annars var Magnús Kjartansson, gagnstætt við Lúðvík Jósefsson í gærkvöld, ekki svartsýnn á gengi flokks okkar. Hann sá í iljar okkar Björns upp í ráðherrastólana. En honum til huggunar get ég sagt það, að þangað stefnum við ekki. Ráðherradómur er okkur Birni Jónssyni ekkert keppikefli. Að lokum vil ég segja það, að kjörorð okkar um að vilja verða úrslitaafl í íslenzkum stjórnmálum er sama kjörorðið og Alþb. gamla hafði í kosningunum 1956, þegar það vann sinn mikla kosningasigur, og þá hampaði Magnús Kjartansson þessu kjörorði mjög í Þjóðviljanum.

Mig tekur sárt, hvað hann Benedikt Gröndal var ofsalega reiður áðan. Hann var svo reiður út af því, að ég hafði talað um, að ríkisútvarpið gætti ekki hlutleysis og væri undir stjórn áróðursmeistara flokkanna, sem er satt, ritstjóranna. En hann skýrði hér frá því, að hann hefði staðið á undanförnum dögum í baráttu til þess að fá hlut minn réttan og míns flokks. Því í ósköpunum sagði þessi maður mér ekki frá þessari baráttu sinni, svo að ég hefði getað strikað út úr ræðu minni þau ummæli, að ég væri þarna rangindum beittur? Hann bað mig um, þar sem ég ætti nú tækifæri til þess, að þakka honum fyrir þessa baráttu, þegar ég kæmi hérna í ræðustólinn. Ég bið hann að hafa biðlund, ég ætla að þakka honum fyrir, þegar hann er búinn að heyja baráttuna til enda og fá hlut minn og míns flokks réttan. Ég vona að hann hafi biðlund til þess.

Þá sagði hann í reiði sinni, að ég hefði ráðizt á Sigurð Ingimundarson áðan, gamlan baráttufélaga minn. Hvers konar bull er þetta? Er það sök Sigurðar Ingimundarsonar, að ráðh. hafa misbeitt veitingarvaldinu? Nei, það er sök viðkomandi ráðh. og ríkisstj., en ekki Sigurðar Ingimundarsonar. Svona bulli vísa ég heim til föðurhúsanna.

Herra forseti. Þessu næst vil ég víkja að nokkrum málum hér á Alþ., sem mér finnst vera táknræn fyrir stjórnarflokkana. Ég nefni þá fyrst frv. um verðgæzlu og eftirlit með hringamyndun, heildsalafrv., eins og það hefur réttilega verið kallað. Þetta frv. var augljóslega aðaláhugamál Sjálfstfl. En það var hins vegar flutt af formanni Alþfl. fyrir hönd stjórnarinnar, og þannig var þetta mál stjórnarinnar sameiginlega. Og hvert var efni frv.? Það var það að binda endi á seinustu leifar verðlagseftirlits, að heimta verzluninni frjálsa álagningu. Við vitum það fullvel, að það hefði þýtt hækkaða álagningu, hækkað vöruverð. Og auðvitað hefði það komið á almenning að borga nokkrum hundruðum millj. kr. meira fyrir nauðsynjar sínar, ef frv. hefði náð fram að ganga. Það hefði þýtt tilfinnanlegar verðhækkanir, já, verðhækkunaröldu. Ég er viss um það. Þetta mál flutti ríkisstj. En svo sá hún fram á óvinsældir þess og þá var gripið til þess einstæða óyndisúrræðis að láta einn af flm. frv., þ. e. einn af ráðh., fella það og koma því þannig út úr heiminum. Það er sögulegur atburður.

Í tilefni af þessu máli sagði varaformaður Alþfl., Benedikt Gröndal, að vegna hins langa stjórnarsamstarfs væru ýmsir farnir að draga þá ályktun, að enginn munur væri lengur á Alþfl. og Sjálfstfl. Ég segi: Bragð er að þá barnið finnur. Og það var einnig í sambandi við þetta frv., sem varaformaður Alþfl. sagði, að hagur þeirra, sem minnst hefðu í þjóðfélaginu, hefði ekki batnað, rétt er það, og stjórnin yrði nú að gera betur vegna almannatrygginganna og létta byrðar hinna launalægstu. Það er krafa Alþfl., sagði sá góði maður. Jú, jú, en skömmu síðar felldi Alþfl. ásamt Sjálfstfl. till. um að hækka ellilífeyri og örorkubætur um 15%, en samþykktu að hafa það 5.2%. Það þótti Alþfl. mátulegt. Ekki sást nú þar mikill munur á Alþfl. og Sjálfstfl. Enn gerðist það, að fram var borin till. um að hækka persónufrádrátt láglaunafólks. Hiklaust felldi Alþfl. hana ásamt Sjálfstfl. Er ekki von að menn séu farnir að spyrja: Hvar er Alþfl.?

Og enn eitt undrunarefnið: Emil Jónsson leggur fram frv. um húsnæðismál. Þar er lagt til að leggja niður byggingarfélög verkamanna og fela hlutverk þeirra misjafnlega afturhaldssömum sveitarstjórnum. Ég spyr enn: Hvað er eiginlega orðið af Alþfl.? Annað var þó enn verra. Lagt var til í þessu frv. að taka fjórðu hverja krónu af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða, án þess að kannað væri fyrst, hvort það stæðist vegna eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar, né heldur, hvort tryggingafræðilegur grundvöllur lífeyrissjóðanna þyldi slíka blóðtöku. Á þennan hátt átti líka að seilast ofan í lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna, sem verið var að stofna um þessar mundir, samkvæmt samkomulagi við atvinnurekendur fyrir tæpu ári. Þetta frv. Alþfl. og ríkisstj. vakti fordæmingaröldu, sem leiddi til þess, að frv. hefur ekki séð dagsins ljós síðan, þar til í dag. Lengi vel var útlit fyrir, að einnig þessu afkvæmi sínu yrði stjórnin sjálf að fyrirfara. En nú hefur hún tekið þann skynsamlega kost að hverfa frá árásinni á lífeyrissjóðina, a. m. k. í bili, og fella niður úr frv. það ákvæði, sem var bein árás á lífeyrissjóðina. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert, en lengi mun samt verða minnzt tilræðis ríkisstj. við lífeyrissjóðina.

Mér virðist það vera svipað á Alþ. enn, eins og verið hefur á undanförnum árum, að það heyri til hreinna undantekninga, að mál, sem stjórnarandstæðingar bera fram, fái undanbragðalausa afgreiðslu á Alþ. Sem dæmi má nefna, að ég flutti í þingbyrjun frv. til l. um að jafna aðstöðu skólafólks, sem sækja verður nám fjarri heimilum sínum. Strax kom í ljós, að málið naut eindregins stuðnings allra flokka á Alþ., a. m. k. ruku málpípur allra flokka strax upp og viðurkenndu þetta sem stórmál. Bráð nauðsyn væri að jafna hinn mikla fjárhagslega aðstöðumun, ef svo ætti ekki að fara, að menntun yrði forréttindi efnaðra nemenda einna. Ekki vakti málið minni athygli utan þings. Um það luku allir upp einum munni, að þetta væru orð í tíma töluð. Menntmrh. sagði, að málið hefði verið rannsakað af rn. og það væri skýrsla til um það, sem sé allt í lagi. Fékk þá málið ekki fulla afgreiðslu á Alþ. á næstu dögum eða vikum? Nei, ekki aldeilis. Það hefur legið í nefnd síðan og liggur þar enn, og þar á að drepa sjálft málið. En hér var um svo vinsælt og nauðsynlegt mál að ræða, að ekki var á það hættandi að sinna því engu. Þess vegna voru teknar 10 millj. kr. á fjárl. þessa árs í þessu skyni, og skal það viðurkennt, að það er strax betra en ekki. Þar með er vandinn viðurkenndur, og byrjunarskref stigið til lausnar honum. En þingleg afgreiðsla er þetta ekki á þingmáli.

Ég tel nauðsynlegt að taka það fram, að þegar Magnús Kjartansson, Ingi R. Helgason og þeirra sálufélagar voru í óða önn við þann starfa á sínum tíma að lima Alþb. gamla í sundur, þá buðum við Björn Jónsson Lúðvík Jósefssyni að vinna með honum að því að endurskipuleggja vinstri hreyfingu í landinu. Þessu tók hann líklega í orði, en hafðist ekkert að. Í sama mund báru þeir Magnús Torfi Ólafsson og Karl Guðjónsson fram tillögu í framkvæmdastjórn Alþb., sem gekk mjög í sömu átt. En till. þeirra voru felldar af kommúnistaliðinu, Þjóðviljaklíkunni. Magnús og kompaní vildu halda gamla flokkskerfinu við í lengstu lög og mynda kommúnistaflokk við sitt hæfi, og svo gerðu þeir.

Það er búið að fullreyna samstarf innan núverandi flokkakerfis á vinstra kanti stjórnmálanna, og það hefur ekki tekizt og tekst ekki. Þess vegna verður nýtt afl að koma til. Til þess að takist að skapa slíkt afl, er einasta leiðin sú, að Samtök frjálslyndra og vinstri manna eflist mjög. Kjósendur geta einir myndað þetta afl með því að taka til sömu ráða og kjósendur gerðu í I-lista kosningunum og í forsetakjörinu. Því vil ég undirstrika það, sem Björn Jónsson sagði í gærkvöld. Til þess að það nái saman, sem saman á í íslenzkum stjórnmálum, þarf og verður að sundra núverandi flokkakerfi. Og það getur aðeins gerzt með eflingu Samtaka frjálslyndra og vinstri manna.

Þeir Lúðvík Jósefsson og Magnús Kjartansson hafa í þessum umr. talað fjálglega um sameiningarhlutverk Alþb. nýja. Út af því vil ég segja þetta við þá Lúðvík og Magnús: Þeir standa nú á rjúkandi rústum flokks, sem hét Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, og þessar rústir eru svo sannarlega þeirra eigið verk, öllum öðrum fremur. Samstarf við þá og þeirra líka hefur verið reynt fyrr og síðar og gefizt öllum illa. Allir vita, að þessir menn sameina ekki eitt eða neitt. Enginn flokkur vill hafa samvinnu við þá. Öllum er ljóst, að þeir eru úr leik.

Að lokum þetta: Tökum höndum saman um það um endilangt Ísland að setja brotasilfur vinstri flokkanna í sameiginlega deiglu lýðræðislegs sósíalisma, samvinnuhugsjónar og frjálshyggju, og steypum úr því volduga vinstri hreyfingu, er taki að sér hiklausa forystu fyrir sóknaröflum þjóðfélagsins.

Þá vík ég að kosningahríðinni, sem fram undan er í sveitarstjórnarmálunum, og segi: Góðir samherjar. Gangið heilir hildar til og komið heilir hildi frá. — Góða nótt.